Það kitlaði þægilega

Það kitlaði þægilega i brjóstinu í dag á leiðinni frá Sólvöllum til Uppsala. Það er í fyrsta skipti á þessum vetri sem við höfum orðið vör við að vorið sé að koma eitt árið enn. Á hraðbrautunum var ytri akreinin auð en innri akreinin, sú vinstri, var blaut þar sem sólin bræddi snjóinn sem búið var að ryðja í svæðið á milli veganna. Þrátt fyrir að sólin væri að bræða snjóinn þar sem hann lá að malbikinu var hitinn aðeins 0 stig. Að sól sé að bræða snjó boðar vor. Það merktist líka vel að sólin hitaði upp farþegarýmið í bílnum og þó að það gerði að verkum að það var full heitt var það svo létt að þola það vegna þess að þetta boðaði hlýrri árstíma. Það var gott að vera til í þessari ferð og hugsa til þess að eftir einn mánuð verður gaman að fylgjast með þrútnandi brumum á trjám.

Þegar við vorum komin í gegnum Örebro og héldum þaðan til austurs kom upp gömul minning varðandi ferð til Stokkhólms, ferð sem farin var eftir sama vegi. Það var margt sem olli því. Til dæmis að það var snjór og það var sólskin í báðum tilfellum og báðar ferðir farnar í mars mánuði, sú fyrri árið 1997. Ferðin sem við fórum árið 1997 var farin til þess að vera við íslenska messu í Stokkhólmi og Valdís ætlaði að taka þátt í söngnum. Ég skrifaði um þá ferð á sínum tíma og notaði meðal annars í jólabréf sem ég sendi helstu ættingjum og nánustu vinum. Þarna á leiðinni í dag velti ég því fyrir mér hvort ég ætti að bitrta þetta efni á blogginu sem svolítinn framhaldsþátt. Það fjallaði líka um mótlæti sem fólk getur lent í þegar það flytur til annars lands á sextugs aldri. En ákvörðun um þetta verður tekin síðar.

Þetta var þægileg ferð eins og sagt var í byrjun. Við vorum að mestu búin að ganga frá okkur í nýjum húsakynnum og það var svolítið eins og við værum að fara í sumarfrí. Svo áðum við á veitingastað sem við köllum stundum Hreðavatnsskála. Við gefum svona stöðum gjarnan nöfn eftir íslenskum veitingastöðum sem við notuðum á ferðum milli Akureyrar og Reykjavíkur. Þar fegnum við okkur væna brauðsneið með góðu kaffi, og hvað þessi brauðsneið hressti okkur mikið. Enda hét brauðið rúgbrauð þó að það væri ekki íslenskt rúgbrauð. Svo hélt ferðin áfram að vera góð og við töluðum hvað eftir annað um það hvílíkur munur það væri að keyra snjólausan og þurran veg í stað snjóa, hálku og saltyrju.

Nú er að verða áliðið að mínu mati og ég er mátulega þreyttur til að geta bullað hvaða vitleysu sem er. Á þessum mínútum eru síðustu kjörseðlarnir í þjóðaratkvæðagreiðslunni að detta í kjörkassana á Íslandi. Ég er orðinn svo gamall og ryðgaður að ég skil ekki þessa þjóðaratkvæðagreiðslu en ég veit að henni lýkur á tilsettum tíma þó að ég skilji hana ekki. Ég vona bara að þjóðin bjargi sér út úr þeirri óáran sem ríkir. Ég vona líka að nú fari að minnka svo snjóalög í Sólvallaskógi að ég geti farið að heimsækja vini mína þar. Í gærmorgun komu Stína og Lars, hinir ungu nágrannar okkar, í morgunkaffi til okkar með litlu Ölmu og Siv. Við töluðum um glugga og útsýni og Lars sagði að það væri engin tilviljun að við byggjum þarna, það væri vegna þess að það væri svo rosalega fallegt. Það var svo gaman að heyra um verðmætamat þessa unga fólks og hvað þau velja sér í lífinu. Stína og Lars gætu verið barnabörnin okkar og þau velja sveitina vegna þess að sveitin sem þau völdu er svo falleg.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0