Fyrsta ferð ársins í skóginn

Það kom að því, ég er búinn að fara fyrstu ferð ársins í skóginn. Ég sagði í bloggi þann 16. febrúar hugsa ég að eftir einn og hálfan mánuð færi ég að leggja leið mína út í skógin til að fylgjast með brumum og heilsufari vina minna þarna úti. Ekki neita ég því að ég átti þá von á því að ég yrði farinn að vera þar á ferðinni fyrr en þetta en alla vega, ég sagði þetta fyrir minna en einum og hálfum mánuði og get sagt að ég hafi verið sannspár. Það leynir sér ekki að fjórfætlingarnir hafa ekki haft of mikið í sig þar sem þeir hafa verið verulega nærgöngulir við trjáplöntur, ekki þó allar sortir, en það bjargar málunum nokkuð að fjöldinn er mikill og þetta er kannski hluti af grisjun. Hins vegar vil ég stjórna grisjuninni sjálfur. Ég tók nokkrar myndir og þær eru býsna fróðlegar.

Konungur skógarins skildi þetta eftir sig
Konungur skógarins, elgurinn, hefur verið mikið á ferðinni og það var mikið af förum eftir hann. Hann skildi líka eftir sig margar svona skítahrúgur því að meira að segja konungur skógarins þarf að skíta. Fyrsta skítahrúgan var bara eina 30 metra austan við Sólvallahúsið. Ég veti ekki hvað elgurinn hefur lagt sér til munns þarna en eitthvað hlýtur það að veta. Kannski er það hann sem hefur bitið ofan af annarri hverri eikarplöntu en ég eigna eiginlega dádýrunum frekar þann hluta skaðans í skóginum. Svo vissi ég af fallegri silfurreynisplöntu sem ég ætlaði að flytja fram að veginum í staðinn fyrir afar fallegan silfurreyni sem þar var. En þennan silfurreyni var hérinn búinn að afbarka á stóru svæði eins og þann sem er við veginn. En það verða ráð. Það var mikið af glænýjum förum þarna eftir dádýrin svo að þau eru ennþá nágrannar okkar. Hluti elgssporanna var líka nokkuð nýlegur.

Beykið virðist þrífast vel
Ef einhver smátré hafa komið vel undan vetri þá eru það beykitrén. Það er nú meiri gleðin að hafa þessi beykitré til að fylgjast með og þau standa svo sannarlega undir öllum mínum væntingum. Svona koma ung beykitré undan vetri, ennþá þakin haustlaufum. Bakvið beykið liggur löng og mjó ösp sem ég annars hefði þurft að grisja. Þar er ég laus við nokkur handtök.

Þessi litlu birkitré hefðu sjálfsagt viljað að Guðjón pabbi væri oftar á ferðinni til að hjálpa
Ég get trúað að ég hafi reist við yfir 20 birkitré, tveggja til fimm metra há, sem hafa verið knúin til að hneigja sig fyrir vetri konungi. Þau hefðu sjálfsagt verið þakklát ef Guðjón plöntupabbi hefði verið oftar á ferðinni til að reisa þau við og hrista af þeim snjóinn. En þá hefði ég þurft að kaupa mér skíði og ganga í skíðaskóla til að geta staðið á skíðunum. Ég geri ráð fyrir að ég þurfi að fara með snærisrúlluna og hæla út í skóginn til að setja stög á mörg þessara litlu birkitrjáa til að hjálpa þeim að reisa sig almennilega við aftur.


Og nú erum við komin heim á lóð aftur og svona lítur eplatré út sem hefur orðið matur fyrir svanga héra. Þetta tré var gróðursett daginn sem ég varð 65 ára. Naghlífin sést neðan til á trénu og hún hefði nægt ef snjórinn hefði ekki orðið svo mikið meiri en í meðal ári. Svo datt okkur bara ekki í hug að þetta gæti skeð en nú skiljum við að þetta getur svo vel skéð. Annað aðeins yngra eplatré sem stóð eina sjö metra frá þessu fékk nákvæmlega sömu útreið. En það skulu niður ný eplatré í vor. Við gefum okkur ekki þó á móti blási.


Kommentarer
Rósa

Voðalega gengur okkur illa með þessi blessuðu eplatré okkar!



Kveðja,



R

2010-03-29 @ 16:30:50
Guðjón

Ég kvartaði undan þessu við Svíana í Vornesi í dag og ég fékk góð ráð frá finnskum Svía þar. Það fæst eitthvað vax til varnar og einhver áburður sem er verulega vondur á bragðið. Eins er hægt að kaupa þurrkaðan úlfaskít og strá kringum tré og plöntur og það veldur svo mikilli skelfingu að hérarnir bara geta ekki nagað í lyktinni af skítnum. Góð húsráð.



Kveðja,



pabbi

2010-03-29 @ 19:56:53


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0