Jólaskrautið komið upp

Valdís gefur sig ekki. Jólaskraut skal vera eins og það var meðan börn voru á heimilinu. Meira að segja er meiri hlutinn af því sem hún geymir í jólaskrautskössum sínum frá þeim tíma. Þetta er reyndar ekki slæm venja hjá henni. Það hafa komið börn bara til að sjá jólaskreytingu Valdísar og þau verða alveg undrandi.

Valdís hefur verið slöpp í lungum en það var á góðum batavegi. Einmitt þá fékk hún slæmt kvef. Þetta kvef er eitthvað sem hefur gert leifturárás á kórfólkið. Í gærkvöldi gekk hluti af kórnum milli garðanna á svæðinu og söng jólalög í hverjum garði. Bæjarhlutinn sem við búum í er þannig byggður að ákveðinn fjöldi íbúðarhúsa ásamt geymslum og frábæru þvottahúsi er byggður sem kjarni umhverfis grænt svæði sem kallast garður. En að kórnum á ný; stór hluti þeirra sem ætluðu að vera með kórnum í gærkvöldi og syngja á görðunum voru kvefaðir.  Kvefið í Valdísi virtist ná hámarki í nótt en þá var hún einfaldlega slæm. Núna er þetta allt annað líf hjá henni. Jólaundirbúningi hennar er nú lokið og er hún sest í stólinn sem næstur er glugganum á myndinni og slappar af. Ég er ekki frá því að Óli lokbrá hafi verið með henni þegar ég tók mynd af henni áðan, en hún bannar mér að nota þá mynd á bloggið.
Jólaskrautið komið upp
Rósa og Pétur gera eins og við. Þau eru tvö heima hjá sér í Stokkhólmi. Við vorum hjá þeim tvær nætur fyrr í mánuðinum eins og áður hefur komið fram á blogginu, fórum með þeim i leikhús og skoðuðum stórskreytingar og jólamarkað í stórborginni. Þó að ég sé orðinn ellilífeyrisþegi fer langur tími í vinnu. Ég ætlaði bara að vinna 40 % en það vill verða drjúgt meira, og svo eru smíðar á Sólvöllum. Svo lenda vissir hlutir meira á Valdísi fyrir vikið og nú er gott að fá fullkomna ró. Samt fannst mér skrýtið um hádegisbil að það ætti bara ekkert ærlegt að gera í dag. Núna er ég að átta mig á þessu og kyrrðin er góð. Svo verður smá matarstúss einni partinn í dag og ég ætla að reyna að hjálpa til, alla vega að vera ekki fyrir.

Um leið og ég skrifa þetta er ég að spjalla við Valgerði í tölvunni. Þar verða fleiri við jólaborðið í kvöld. Systurnar tvær sem voru svo áhugasamar, prúðar og skemmtilegar í heimsókninni til ömmu og afa í sumar. Við hugsum nú sérstaklega til þeirra um jólin. Til allra sem þetta lesa segjum við gleðileg jól. Nú heyri ég að Valdís er komin í ham við að fullgera jólamatinn. Við ætlum að byrja að borða kl 7, þ e a s kl 6 á Íslandi þegar útvarpsþulurinn segir Útvarp Reykjavík - Útvarp Reykjavík, gleðileg jól. Við opnum fyrir þetta gegnum tölvuna og hlustum þar. Rósa og Pétur komu okkur á lagið. Þau ætla að gera eins í kvöld.

Bless, bless og kveðja frá Valdísi og Guðjóni


Kommentarer
Valgerður

Gott að þið njótið dagsins.
Ég verð að syngja í Landakirkju þegar þið setjist að borðum.
Við borðum því upp úr sjö.
Gleðileg jól
Valgerður

2007-12-24 @ 15:08:05
Starri

Gleðileg jól heiðurshjón! Hér við Eyjafjörð er veður stillt og passaði vel að í gærkvöldi, meðan seinni skötuveisla heimilisins stóð hæst, snjóaði hæfilega til að mjöllin hylur nú umhverfið.
bestu kveðjur
Starri

2007-12-24 @ 17:27:23
Guðjón

Já, Valgerður og fjölskylda, gleðileg jól. Núna þegar þið komið heim í jólamatinn erum við búin að borða. Við settum nefnilega í gang jólamessuna í dómkirkjunni og hlustuðum á hana,byrjuðum að borða þegar þulurinn sagði útvarp Reykjavík gleðileg jól. Svo borðuðum við og hlustuðum á messu.

Og Starri. Gaman að heyra frá þér og gleðileg jól. Við munum alltaf eftir heimsókn ykkar þegar við bjuggum upp í Falun. Þið voruð svolítið eins og börn okkar og barnabörn þá.

Kveðja, GB

2007-12-24 @ 20:02:51
URL: http://www.gudjon.blogg.net


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0