Sunnudagskvöld

Ég horfi út um austurgluggann yfir tölvuna og virði fyrir mér hvernig vorið vinnur sig áfram dag frá degi. Það er mikið laufskrúð komið en samt er það bara að byrja. Fyrir miðjum glugganum eru nokkrir hlynir í þyrpingu. Fyrir nokkrum dögum voru laufblöð þeirra einn til þrír sentimetrar í þvermál. Í dag eru þau þrír til sex sendimetrar í þvermál, og að lokum verða þau 13 til 15 sentimetrar í þvermá. Jafnvel meira. Að auki á þeim eftir að fjölga mjög mikið. Flest tré eru farin að grænka nokkuð eða mikið. Stóra Sólvallaeikin hefur ásamt systrum sínum hér í skóginum breytst mikið á síðustu þremur dögum. Aspirnar eru aðeins farnar að breyta lit en askurinn ekki. Askur laufgast seinast allra trjáa og fellir fyrstur lauf. Dýrðin er sem sagt mikil og fjölbreytnin óendanleg. Það sést betur og betur dag frá degi að grisjun, gróðursetning og önnur hjálpsemi við skóginn er að bera mikinn árangur.

Á föstudagsmorguninn snemma var hringt til mín frá Vornesi. Tveir yngstu ráðgjafarnir voru veikir en fólk er farið að þekkja það að íslenski ellilífeyrisþeginn verður afskaplega sjaldan veikur. Þeir sem eru yfir í Vornesi finna sig býsna mikið öruggari þar sem þeir vita að ég er býsna óbrygðull að leita til. Ég hafði ekki unnið í tvær vikur eða svo og vordagarnir eru svo dásamlegir og gott að vera heima. Þegar Birgitta forstöðukona hringdi hugsaði ég bara "nei, nei, nei" og svo sagðist ég koma. En ég nennti alls ekki. Svo þegar ég ók austur á bóginn og fór að sjá út á Hjälmaren var þetta að verða skárra. Þegar ég svo kom inn í húsið og heilsaði sorgmæddum alkohólistum varð allt í lagi. Ég var í símasambandi við Valdísi og svo rann rjóminn ljúflega niður í sparibaukinn minn næstu 26 tímana. Sænskur ellilífeyrir lækkar ekki hversu mikið sem ég vinn og skattur af vinnulaunum ellilífeyrisþega er mjög lágur.

Á morgun eru merkilegir fundir. Dagurinn byrjar á því að smiðurinn sem ætlar að byggja fyrir okkur kemur með gröfumann til að skipuleggja gröft og aðrar byggingarframkvæmdir. Við ætlum að ræða þessi mál yfir morgunverði. Síðan förum við til Fjugesta og fundum með byggingarfulltrúanum. Að þessu loknu má byrja að byggja sem ég reikna með að verði í næstu viku. Ég reikna með að verða í fyrsta lagi sendill og handlangari. Þannig er minnst hætta á að ég verði fyrir yngri og hraðskreiðari mönnum. Það er spáð hlýju og þurru næstu dagana þannig að við þurfum að kaupa panelinn hið fyrsta og mála meðan við höfum þurrt veður.

Ósköp varð húsið lítið allt í einu
Þegar hann Arne kom með moldina og sturtaði svona nálægt húsinu varð það svo lítið en bíllinn stór. Það þurfti auðvitað nokkur bílhlöss af mold til að fegra kringum sveitasetrið.

Hvaða laufblöð eru fallegri en þetta?
Beykilaufblöð. Já, hvaða laufblöð eru fegurri en ung beykilaufblöð? Myndin er fjögurra daga gömul.


Næstum full laufgað beykitré. Næstum í beina stefnu frá þessu unga beykitré er eik sem var á bólakafi í greniskógi þegar við komum á Sólvelli. Svo mikið greni var í kringum hana að ég held að við höfum ekki fundið hana fyrstu mánuðina þó að hún væri svo nálægt húsinu. Þessi eik er bara rétt að byrja að springa út.


Kommentarer
Þórlaug

Ég var að lesa síðustu tvö bloggin og dást að myndunum af nafna þínum. Hann er svo fallegur.

Það er greinilega mikið að gera hjá ykkur, skógrækt og byggingaframkvæmdir og svo vinna af og til. Verður viðbyggingin tilbúin í sumar?



Við Jói vorum á Akureyri um helgina og vorum að rifja það upp að nú er nákvæmlega ár síðan þið voruð með okkur. Ég sá tvær álftir á hreiðrunum sínum á leiðinni, þær voru á sama stað og í fyrra. Þegar við fórum norður á föstudaginn sá ég tvö nýfædd folöld, í dag voru þau fjórtán. Vorið er líka á fullu hérna þó að hafi snjóað í fjöll í Eyjafirðinum báðar næturnar sem við vorum þar.



Við eignuðumst dótturson í Skotlandi á fimmtudaginn, hann fékk íslenska nafnið Ari en á eftir að fá breskt nafn.



Bestu kveðjur í sveitina til ykkar,



Þórlaug

2010-05-16 @ 23:26:22


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0