Hversdagslíf

Það linnir ekki fréttaflutningi frá Íslandi í sænsku sjónvarpi. Einstaka dag eru bara fréttir af ösku á norðurhveli jarðar en flesta daga eru fréttir af eldgosi í Eyjafjallajökli, og öðru hvoru eru fréttir af einhverju öðru. Þessar fréttir eru gjarnan þuldar upp aftur og aftur frá morgni eða fyrri hluta dags og fram á kvöld. Talað hefur verið við íslenska sérfræðina um eðli gossins, við bændur undir Eyjafjöllum um erfiða daga við búskap og við hóteleiganda á Suðurlandi um hið stórhættulega Kötlugos. Það hefur verið talað við íslenska sérfræðinga sem vinna í Svíþjóð, í fyrsta lagi Reyni Bárðarson sem hefur gegnum árin verið einn helsti sérfræðingur sænska ríkissjónvarpsins varðandi eldgos og jarðskjálfta vítt um heim, ekki síst flóðin í Tælandi á sínum tíma. Nú í kvöld voru fréttir og myndir frá Vík. Í gær var sagt frá handtöku Kaupþingsforstjórans fyrrverandi og hvers vegna hann var handtekinn. Læt ég nu umfjöllun um þetta nægja.

Ég blogga mikið um það sem skeður á Sólvöllum og ýmislegt annað sem til fellur. Stundum líka um það sem hrærist í huganum eða skeði fyrir löngu síðan. Upphaflega var þetta hugsað til að nákomið fólk gæti fylgst með gangi mála hjá okkur Valdísi og fljótlega fannst mér það mjög góð leið til að halda dagbók. Síðan fannst mér bara allt í lagi að hver sem er gæti lesið bloggið og það er dágóður hópur lesenda á degi hverjum sem virðist taka sér tíma til að lesa. Það er eins og mörgum finnist frásagnir af venjulegu daglegu lífi vera gott lesefni. Ég hef velt þessu talsvert fyrir mér og seinni partinn í dag flaug í gegnum huga mér að frásagnir af stórfenglegu óvenjulegu lífi geti misst heldur betur fæturna. Það var kannski fangelsun bankamanna sem fékk mig til að komast á þá skoðun.

Meðan ég lýsti grefti fyrir stöplum undir hús, málningu á panel, að fella nokkrar hríslur út í skógi og svo ég tali nú ekki um að þvo óhreinindin af höndunum á mér, þá var sagt frá gríðarlegum viðskiptum og mögnuðum ákvörðunum íslenskra viðskiptajöfra sem gerðu íslenskt samfélag svo glæsilegt. Stundum fannst mér sem frásagnir mínar væru voða, voða lítils virði. Nú er verið að fangelsa viðskiptajöfrana en á sama tíma er ég að keyra eldivið á hjólbörum utan úr skógi. Ég held ég hiki ekki við að halda áfram að skrifa um venjulegt hversdagslegt líf. Þær frásagnir virðast vera byggðar á traustari grunni.

Þeir stækka hratt þessir enda hafa foreldrarnir mikið að gera við fæðuöflun.
Það er eiginlega ekki hægt að komast að þessu skógarþrastarhreiðri til að sjá það augliti til auglitis. Það verður að beita myndavél til að sjá ofan í það. Ég tók mynd af því tveimur dögum á undan þessari mynd og notaði í síðasta bloggi. Þvílíkur vöxtur á þessum ungviðum. Það er eins gott að mannanna börn vaxi ekki svona hratt. Það mundi þá víða stefna í óefni. Foreldranrir voru líka afskaplega önnum kafnir við fæðuöflun í dag.

Er þetta ekki fallegt, faðmlög út í skógi
Það mætti halda að hann sé stór Sólvallaskógurinn því að það var ekki fyrr en í morgun, eftir sex ár á Sólvöllum, sem ég sá þessi faðmlög í fyrsta skipti. Það er greni þarna til vinstri sem heldur trausta taki utan um björk til hægri. Kennarar og skólastjóri í Skógum kölluðu það flangs þegar strákar og stelpur vöfðu hvort annað örmum á dansæfingum og við ýmis önnur tækifæri. Þetta er sko ekkert flangs, þetta eru ekta falleg faðmlög og ekki er feimninni fyrir að fara. Myndavélin nær þessu bara ekki eins vel og augað.


Kommentarer
Þórlaug

Ég held bara að ykkar hversdagslíf sé mikið innihaldsríkara en líf mannanna sem þú minnist á hefur nokkurn tíma verið. Það skín svo vel í gegn í blogginu þínu.

Ég hugsaði „vá hvað þeir hafa stækkað“ þegar ég sá myndina af ungunum, það er varla hægt að trúa þessu.



Bestu kveðjur á Sólvelli,



Þórlaug

2010-05-09 @ 00:44:27
Gudjon

Já Þórlaug, ég held það líka. Það var sýnt í sjónvarpi viðtal við tvo þeirra og fólk hér spurði eftir það á hvaða þroskastigi þeir eiginlega væru.



Margur verður af aurum api er sagt og ef maður er hálfgerður api fyrir er ekki von á góðu.



Kannski verður þetta allt saman til þess að fólk fari að huga meira að því hvað er lífsgæði. Það er líklega best að lifa svolítið í takt við náttúruna og umhverfið í kringum sig.



Bestu kveðjur frá Sólvöllum.

2010-05-09 @ 11:47:34
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0