Tilviljun eða hvað

Ég var eitt sinn staddur í bókaverslun í Örebro og skoðaði þar bók með myndum frá óravíddum hiningeimsins. Ég sá þar meðal annars mynd af einhverju risavöxnu eldlituðu gasskýi sem var svo langt í burtu að ef ég hefði verið á leiðinni þangað með hraða ljóssins alla mína ævi væri ég bara kominn brot úr prósenti af leiðinni þangað.

Ég sá líka í þessari bók mynd af einhverjum óreglulegum eldslettum út um allt og í skýringartexta var sagt að þannig hefði það getað litið út í einhverjar miljónir ára eftir stóra hvell, uppruna heimsmyndarinnar, áður en eitthvað skipulag hefði farið að koma á hlutina. Svo var líka sýnd mynd þar sem skipulagningin var hafin. Þar voru sumar þessar stóru eldslettur farnar að ganga í hringi kringum aðrar enn stærri eldslettur. Sólkerfi voru að myndast.

Ég var einn eftirmiðdag fyrir nokkrum árum á leið heim úr vinnu í Vornesi og var kominn hálfa leið heim, var á móts við Odensbacken (Óðinsbakka), þegar ég tók eftir sérkennilegu skýjafari á vesturhimninum. Vegurinn þarna er þráðbeinn á köflum og á undan mér var vörubíll sem ég hafði í sigti en annars horfði ég mikið á þetta skýjafar og hugsaði um myndirnar sem ég hafði skoðað í bókinni. Á beinum vegarkafla hafði ég horft á þetta og velt fyrir mér þeim hita, óskapagangi og óreiðu sem var í upphafi veraldar og svo kastaði ég augunum niður á vörubílinn sem rann þarna með jöfnum hraða mitt á milli strikalínanna á 24 hjólum, bíll og vagn, og lengst þar frammi var lifandi vera sem stjórnaði öllu ækinu. Þvílík skipulagning sem hafði komist á hlutina og lífið sjálft hafði orðið til og bubblaði mitt í öllu saman.

Ég gróf um daginn 70 sm djúpa holu fimm metra austan við Sólvallahúsið. Þessi hola varðaði það hvernig skyldi drena frá nýjum húsgrunni. Það jaðraði við að það sæi í grunnvatnið í botni holunnar enda hafði leysingavatnið eftir hinn mikla snjó vetrarins ekki enn haft tíma til að komast burtu. Síðan byrjaði laufgun trjánna og þar á eftir byrjaði að rigna og það rigningatímabil stendur enn yfir. Eftir fyrstu daga rigningatímabilsins kom yfir 30 sm djúpt vatnn í holuna og áfram hélt regnið að falla, eitthvað flesta daga og stundum all mikið. Allt í einu hvarf vatnið nánast úr holunni en það hafði samt ekki hætt að rigna. Hvað var eiginlega á seiði. Var komið gat þarna undir?

Nei, það hafði ekki komið gat á jörðina. Hins vegar höfðu bjarkirnar laufgast að fullu og stórar bjarkir í fullu laufskrúði drekka um 600 lítra af vatni á dag. Það eru tíu allstórar og stórar bjarkir sem drekka af því svæði sem örugglega hefur áhrif á þessa holu, jafnvel tólf, og svo mörg önnur tré. Það er ekkert nýnæmi að landið hérna í kring þornar upp þegar laufgunin er komin á ákveðið stig en núna var svo auðvelt að fylgjast með þessu í hinni margnefndu holu. Það er makalaust hverju þessar bjarkir, ásamt öllum hinum trjánum, koma til leiðar. Þær draga kynstrin öll af vatni upp úr jörðinni og taka til sín kynstrin öll af úrgangsefni úr loftinu. Með aðstoð vatnisns breyta þær úrgangsefnunum í næringu og súrefni fyrir sjálfar sig og skila svo óhemju af súrefni út í gufuhvolfið okkur til lífs. Þegar þær eru búnar að nota vatnið skila þær mestu af því aftur gegnum laufblöðin út í gufuhvolfið og viðhalda þar með hringrásinni. Svo í leiðinni gefa þær okkur betra veður, fallegra umhverfi, efni í byggingar og marg fleira og eldivið til kyndingar. Þær eru kjörstaður fyrir fugla himins að dvelja í þegar þeir halda söngkonserta fyrir vinnulúna náttúruunnendur.

Hverjum dettur í hug að það sem hefur skeð eftir stóra hvell sé tilviljun allt saman. Þar að auki á eitthvað að hafa sprungið sem ekki var til og úr sprengingunni varð til allt sem er til. Svo stóri hvellur var ekki tilviljun heldur. Ég held að það sé best að ég haldi nú til fundar með Óla Lokbrá og biðji bænirnar mínar.

Ps. Ég horfði á eitt lag í söngvakeppninni áðan og það var auðvitað íslenska lagið. Hið mikla lófatak gladdi okkur mjög og ennþá meira þó þegar liðið allt saman í salnum stóð upp. Það er nóg komið fyrir Ísland og það var mál að góðir hlutir færu að ske.

Og annað til. Bókin með myndunum sem ég talaði um áðan og ég skoðaði í bókabúðinni liggur nú upp í hyllu hér heima. Ég þarf að skoða hana á næstunni til að athuga hvort ég hafi ekki farið með rétt mál.




Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0