Myndasyrpa

Annar í hvítasunnu er ekki lengur rauður á sænska almanakinu. Honum hefur verið skipt út móti 6. júní sem er þjóðhátíðadagur. Það var því venjulegur vinnudagur á Sólvöllum í dag. Inn á milli var myndavélin á lofti enda var ég búinn að tala um það nýlega að fara að sýna sumarmyndir frá sveitasetrinu. Það er heldur svalara núna og það falla því færri svitadropar við að moka mold eða möl í hverjar hjólbörur. Annars mokaði ég möl í heila kerru í dag og fór ótrúlega létt með það. Ég var harð ánægður með úthald mitt. Við fórum nefnilega til Örebro og ég tók kerruna með til að taka möl fyrst ferðin féll.

Svo þegar ég kom í Syðri malarnámuna leit Marie á klukkuna og sagði að hann Erik væri búinn að leggja ámokstursvélinni. Æ, æ, ég hafði alveg gleymt klukkunni þegar við vorum að kaupa sumarblóm í Marieberg. En ætlar þú ekki að taka möl samt, spurði hún og benti á skóflu. Jú, jú, auðvitað sagðist ég gera það. Ég gat ekki látið konu skora svona á mig og standa ekki undir því að vera karlmaður. Það hvarflaði ekki að mér að ég væri ellilífeyrisþegi. Svo ætlaði ég að borga en þá sagði Marie að þeir sem mokuðu á sjálfir borguðu ekki. Svo mokaði ég vænu hlassi á kerruna. Ég veit vel að ég get ekki notfært mér þetta framvegis að moka á sjálfur. Þá mundi Marie hætta að tala við mig. Við spjöllum saman eftir viðskipti í nokkur ár og dóttir hennar býr hér í nágrenninu og til dæmis það skapar svolítið umræðuefni.

En nú er komið að myndunum.

Það er gamalkunnugt myndefni þarna gegnum opið milli skógarlundanna niður á sléttunni og yfir til Kilsbergen út við sjóndeildarhringinn. Ég held að það séu um 15 km þangað. Myndin er tekin á aðeins öðrum stað á lóðinni en venjulega og það gerir opið minna. En alla vega; allt er orðið vel grænt og fíflabreiðurnar breiða úr sér ríkulega niður á gamla túninu.


Ég gerði tilraun í dag til að taka mynd heim að Sólvöllum gegnum þetta op í skóginum, opið sem við tökum svo oft myndirnar gegnum heiman að. Ef vel hefði átt að vera hefði ég þurft að ganga yfir nýsáinn akurinn hans Arnolds og að horninu á skógarlundinum þarna framundan en ég var of pjattaður til að gera það. Ég held að það sé bara fyrir kunnuga að koma auga á Sólvelli sem eru þarna í felum á bak við runnakúluna sem er við skógarjaðarinn aðeins til hægri við miðja mynd. Það sér aðeins í hvítan díl þar, en það er þakskegg.


Heggurinn er farinn að fella blómin. Við eigum engan stóran hegg. Við höfðum einn í fyrstu en hann hallaði svo mikið að hann var verri en enginn heggur. En nú höfum við 15 til 20 heggi sem eru 1,5 til 2 m á hæð. Þó að sá gamli hafi hallað svo mikið að við felldum hefur hann ekki verið dauður á öllum æðum.


Annað eplatréð sem við gróðursettum í vor í staðinn fyrir það sem hérarnir átu er með nokkur blóm. Það er loforð um nokkur epli þó merkilegt sé. Það er ekki venjan að eplatrén beri ávöxt fyrsta sumarið eftir gróðursetningu. Þetta sama skeði líka þegar við gróðursettum eplatré í fyrsta skipti þarna á sama stað árið 2007.


Plómutréð lofar líka plómum. Við ætlum að gróðursetja annað plómutré með fjólubláum plómum þegar búið verður að grafa fyrir nýja húsgrunninum ásamt öðrum grefti sem þarf að framkævma.


Sá sem áttar sig á hvað þetta er fær ókeypis gistingu á Sólvöllum og því ekki orð um myndina meir.

Nei, ég get ekki þagað. Þegar við gróðursettum beyki út í skógi lögðum við þangað slöngu og létum síðan renna í tunnu sem ég vatnaði úr. Þetta voru maurarnir fljótir að notfæra sér. Þessi mynd er tekin eina 30 m bak við húsið en þar er um eins meters djúpur skurður sem slangan liggur yfir. Þetta er því sannkölluð maurabrú. Það er stanslaus umferð um þessa maurabrú og stundum mikið meiri en sést á myndinni. Þeir hafa ekkert sem heitir hægri eða vinstri í sinni umferð og stundum keyra þeir beint á hver annan, jafnvel margir í einu. En þeir leysa málið og einhver víkur alltaf og það virðist vera algerlega tilviljanakennt hver víkur, ef þeir gera það ekki bara báðir. Þeir virðast ekki reiðast og þeir snúa ekki við til að berja hver á öðrum eins og ískokkímennirnir gera þegar þeir keyra illa saman og elta hver annan á eftir til að berja með kylfum og hnefum eins og þeir eigi lífið að leysa.

Mauraþúfan er einum 100 metrum lengra út í skóginum en skurðurinn, þannig að það eru mörg mauraskrefin en ekki virðast þau vera talin eftir. Það eru sjálfsagt einhver mikilvæg næringarefni, vítamín eða snefilefni hérna bak við húsið sem eru nauðsynleg í sambýlið þarna í stórri þúfunni. Það eru margir Íslendingar búnir að koma að þessari mauraþúfu og ég get lofað því að hún er stærri núna en nokkru sinni fyrr. Við þurfum að fara að taka slönguna en þá verðum við líka að skaffa nýja maurabú. Við fengum stundum inn maura meðan við áttum heima inn í Örebro en hér höfum við aldrei fengið þá inn.

Það eru góða tíðir og mikilvægt að vera þakklátur fyrir það. Bara þetta með slönguna, maurabrúna, er nokkuð til að taka eftir og ég hef oft staldrað við til að horfa á þetta. Ég horfði líka á dágóðan vöxt beykitrjánna í dag. Vaxtarsproti þeirra er mjög viðkvæmur og lafir og liturinn á honum er svipaður og á kvefi sem hangir úr nefinu á litlu barni áður en því er snýtt. Beykitrén mundu því eiga erfitt uppdráttar á vindasömu Íslandi nema á alveg sérstaklega veðursælum stöðum. Ég hef leitað að beyki í gömlu íslensku Skrúðgarðabókinni minni en hef ekki fundið. En þegar líður á sumarið trénar vaxtarsprotinn, réttir úr sér og verður sterkur. Það er líka gaman að fylgjast með þessu og það er mannbætandi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0