Mús, mús -hús, hús

Það var bjartur morgun í gærmorgun en það var hrím á grasi sem þó tók fljótt af og þá varð blautt á. Ég smeygði mér út um dyrnar bakdyramegin um hálf átta leytið og tók stígvélin sem voru búin að liggja þar á hliðinni í tvo daga. Að fara í stígvél sem eru búin að liggja á hliðinni úti í tvo daga hreinlega gerir maður ekki fyrr en búið er að athuga vel hvort mús hafi hreiðrað um sig fram í tánni. Ég sló stígvélunum hressilega saman, lagði annað þeirra á borð við húsvegginn og fór með hægri hendi á bólakaf alveg niður í tá á hinu.

Ég var lengi barnalega hræddur við mýs en það er svona mitt á milli í dag. Ég mundi til dæmis alls ekki vilja fá mús upp í buxnaskálmina en ef það kæmi mús inn í húsið mundi ég ganga vasklega til verks, þó með sokkana utan yfir buxurnar. Þarna utan við austurvegginn með skóginn á bakvið mig stakk ég fingrunum hratt og ákveðið fram í tána og þá skeði þetta sem ég átti ekki von á, þó svo að ég væri að gá. Þetta mjúka þarna lengst fram í tánni fékk mig til að bregðast við með ofsalegri hreyfingu og svo hratt rykkti ég hendinni til baka upp úr stígvélinu að það var hreinasta lán að ég fór ekki úr axlarliðnum. Þetta mjúka hafði einhvern veginn flækst á milli fingra mér og fylgdi með þegar ég rykkti hendinni til baka og hátt yfir þakrennuna sá ég leistinn minn þeytast áður en hann féll máttlaus til jarðar. Það var engin mús en ég var alla vega vel vaknaður.

Svo kom pósturinn um hádegisbilið en ekkert bréf kom frá byggingarfulltrúanum. Það voru vonbrigði en það var ekki svo mikið annað að gera en halda áfram að flytja heim á hjólbörum eldiviðinn sem við brytjuðum í hæfilegar lengdir fyrir hádegið úti í skógi. En það kom líka póstur um hádegi í dag og loksins kom bréfið frá byggingafulltrúanum í Lekebergshreppi. Á sunnudag kemur Anders smiður og þá verður fundað um byggingarframkvæmdir.


Kommentarer
Þórlaug

Nú hló ég upphátt. Takk fyrir þessa færslu, ég sé fljúgandi sokkinn þinn fyrir mér :-)



Bestu kveðjur,

Þórlaug

2010-05-05 @ 23:26:27


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0