Þetta hef ég aldrei heyrt pabbi

Ég var að blogga um níu leytið í gærkvöldi og þrumuveðrið sem byrjaði um klukkan sjö var komið svo nálægt aftur að ég þorði ekki annað en slökkva á tölvunni. Rafmagninu hafði líka slegið út einu sinni í nokkrar sekúndur. Regnið féll jafnt og hæglátlega og það var notalegt að standa í dyrunum og fylgjast með framvindu náttúrunnar. Jafnt og þétt leiftruðu eldingar sem lýstu upp umhverfið. Svo var komin síðla kvöld og mál að sofa eftir enn eina vinnunótt í Vornesi.

Í morgun vaknaði ég um hálf sjö en lá áfram og hugurinn reikaði. Mér var hugsað til ferðarinnar heim úr vinnunni í gærmorgun og hvað ég varð fyrir sterkum áhrifum af öllu mögulegu. Þá hefði ég viljað stoppa bílinn og skrifa niður það sem ég upplifði meðan það ennþá brusaði í kollinum á mér. Nú er minningin ögn möttuð og hin ljóslifandi upplifun er ekki lengur til staðar. Annað sem ég fór í gegnum í hugarflugi mínu í morgun var stund sem ég átti með feðgum í Vornesi einn laugardag fyrir mörgum árum, en svo ljóslifandi varð þessi minning að mér fannst sem ég myndi samtöl frá orði til orðs. Ég á margar svona minningar og þær eru mér ríkidómur. Ég ákvað að skrifa.

Þegar ég hafði kveikt á tölvunni byrjaði ég að gá að tölvupósti, annars vildi ég ekki trufla hugan með of miklu utan að komandi. Það hafði komið tölvupóstur frá íslenskri konu sem segir að hún sé félagsliði og vinni með fólk sem greinst hefur með Alzeimer. Hún segir að þetta sé erfitt en fullnægi mikið hennar þörfum. Þessi orð voru sem ljós í sálina fyrir mig og ég byrjaði að skrifa.

Það var föstudagskvöld í Vornesi og maður um tvítugt vildi skrifa sig út. Ég kalla hann strákinn. Þetta skapaði óró í húsinu en eftir símasamtöl varð niðustaðan sú að hann skyldi bíða til morguns. Um hádegisbil kom pabbi hans til að sækja hann. Þeir feðgar settust á garðstóla nokkuð frá húsinu og virtust spjalla saman. Við hin borðuðum hádegisverð. Þegar flestir voru búnir að borða fór ég út til þeirra og bauð þeim einnig að borða. Þeir voru því fegnir og í staðinn fyrir að fara heim, þar sem vinnutíma mínum var lokið, settist ég við matborðið með þeim. Hún sem var í eldhúsinu þennan laugardag var þá einnig að borða.

Pabbinn og mamma stráksins höfðu skilið þegar stráksi var mjög ungur. Ég sem hafði talað við við pabbann í síma kvöldið áður heyrði þá að hann talaði svolítið einkennilega og hélt að hann væri drukkinn. Hann vildi gefa skýringu á talgallanum og sagðist hafa fengið heilahimnubólgu þegar hann var 14 ára ásamt kirtlabólgu og einhverri einni bólgu enn. Síðan hef ég ekki getað talað eðlilega, sagði hann. Pabbi, sagði strákurinn og hallaði sér fram á borðið, ég hef aldrei heyrt þetta áður. Er það virkilega, sagði pabbinn, og vildi þá segja ennþá meira frá veikindum sínum. Svo lýsti hann því að honum hefði ekki verið hugað líf, hann hefði ekki getað borðað í langan tíma og talfærin hefðu orðið fyrir skaða.

En pabbi, sagði strákurinn, þetta er allt í lagi, þú talar ekkert einkennilega, þú ert ekki skrýtinn. Faðir og sonur sem sátu sitt hvoru megin við borðið voru greinilega að nálgast hvor annan. Pabbinn hélt áfram. Það var gamall maður sem bjargaði lífi mínu. Hann bað um kartöflustöppu og fisk. Svo tók hann svolítinn fisk, stappaði hann með gaffli og blandaði við kartöflustöppuna. Síðan mataði hann mig með þessu með því að setja matinn aftast á tunguna og þannig gat ég byrjað að borða aftur eftir tvær vikur án matar. Ég lifði af.

Hann hafði frá mörgu fleira að segja og þarna við matarborðið urðu strákur og pabbi að feðgum. Eftir tæpa tvo tvo tíma þökkuðu þeir innilega fyrir matinn og ekki síst henni sem vann í eldhúsinu. Mér fannst eiginlega pabbinn verða smáskotinn í henni. Svo gengu þeir yfir hlaðið út að bílnum. Þeir gengu þétt saman og héldu áfam að tala mikið. Ég óska stráknum og pabba hans innilega alls hins besta. Ég fann að ég hafði orðið vitni að atburði. Ég fór tveimur tímum seinna heim úr vinnunni þennan dag og hef ekki gefið Valdísi skýringu á hvers vegna. Hún kannski les þetta.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0