Sorg

Ég var svo sem var búinn að lesa um söluna á orkunni á suðvesturhorninu áður, en einhvern veginn var það svo að í morgun fann ég fyrir þessum rosalegu vonbrigðum. Við biðum eftir smiðnum og gröfumanninum og því miður álpaðist ég til að fara inn á ruv.is. Þar var meðal annars fjallað um þessa ótrúlegu sölu orkulindanna og svo sat þetta í mér og situr ennþá í mér og það er komið nokkuð fram yfir hádegi. Hvað er fólk eiginlega að hugsa? Fyrir mér er það bara einhver sem er að hugsa um peninga en gefur skít í velferð barna sinna og barnabarna.

Svo komu smiðurinn og gröfumaðurinn og við spígsporuðum kringum Sólvallahúsið góða stund áður en við fórum inn og þágum veitingarnar hjá Valdísi. Svo héldum við til Fjugesta á vit byggingafulltrúans í Lekebergshreppi. Valdís kom með þar sem við ætluðum síðan inn til Örebro og hún ætlaði að verða þar eftir. Fundurinn gekk hratt fyrir sig og við héldum í tíma til Örebro. Við komum við í raftækjaverslun í Marieberg til að skoða litla frystiskápa sem við höfum hug á að kaupa sem viðbót við sambyggða kælinn/frystinn sem við fengum um árið hjá Rósu og Pétri. Það var enginn viðskiptasvinur í versluninni í augnablikinu sem við gengum inn, en tveir kurteisir starfsmenn stóðu þar við afgreiðsludisk og spjölluðu saman.

Við skoðuðum frystiskáp sem virtist vera nákvæmlega það sem við höfðum hug á. Þar með var það gert. Fyrstu athugun var lokið og við töluðum um að við þyrftum á svona skáp að halda sem viðbótar frysti heima hjá okkur. Svo varð aðeins spjall á eftir. Allt í einu spurði yngri maðurinn hvort við kæmum frá Hollandi. Við hefðum bara átt að svara því játandi því að þegar við sögðumst vera Íslendingar fóru þeir að skellihlæja og spurðu hvort Íslendingar þyrftu virkilega auka frysti. Svo gerðu þeir grín að Íslendingum sem fjármálaþjóð en sögðu síðan að þetta með gosið væri skelfilegt.

Þetta hendir æ oftar og meira að segja fólk í sjónvarpsþáttum gerir grín að fjármálaþjóðinni Íslandi svona til að gera eitthvað fyndið. Ef ég segi allan sannleikann, þá er litið á Íslendinga sem óreiðumenn og bjána í þessu sambandi. Áður en ósköpin dundu yfir litu Svíar á Íslendinga sem fornnorræna þjóð þar sem menn væru raunverulegir karlmenn og konurnar sannar fjallkonur. Áður sagði fólk þegar við sögðumst vera frá Íslandi: Þangað hefur mig alltaf langað að fara, ég vona að ég eigi það eftir. Núna byrjar fólk á að gera grín en segir svo í lokin að það vilji koma þangað.

Einhver Íslendingur sagði um daginn í bloggi eða hvar það nú var að maður ætti alltaf að taka upp vörn fyrir Ísland þegar svona lagað hendir eins og ég hef lýst. Mér dettur bara ekki í hug að gera það. Ef ég geri það verð ég bara talinn einn af bjánunum líka og svo er enginn bættari. Svíar sem þekkja Íslendinga hafa samt sem áður á þeim sterka trú og treysta þeim vel. Eftir að forsetinn neitaði að undirskrifa Icesavelögin hefur því verið haldið fram á Íslandi að orðrómur landsins hafi breytst svo mikið til batnaðar. Ég segi bara ha, ha, ha. Forsetinn sjálfur fékk svolitla uppreisn æru þangað til hann fór að tala um Kötlu og þá varð hann ærulaus aftur. Varðandi Kötlu hef ég reyndar tekið hans málstað en það hef ég bloggað um áður.

Hefði ekki sundurlyndisfjandinn hreiðrað um sig á Alþingi Íslendinga og framámenn stjórnarandstöðunnar notfært sér Icesave til að draga að sér athygli hefði forsetinn ekki neitað undirskriftinni um áramótinn. Málið hefði nefnilega verið afgreitt á síðsumarmánuðunum í fyrra. Þá væri krónan orðin sterkari, atvinnuuppbyggingin í fullum gangi, velferðarkerfið sterkara, fólk svæfi betur á næturnar og orðstýr Íslendinga væri á hraðri uppleið, enda hefði hann aldrei sokkið svo djúpt sem nú er raunin.

Þetta ætti auðvitað að vera blaðagrein en mér finnst ég lélegur ef ég segi ekki þeim sem lesa bloggið mitt frá þessu. Sænska fréttafólkið sem hefur verið á Íslandi varðandi eldgosið hefur farið mjög góðum orðum um Ísland og Íslendinga en það dugir bara ekki til. Eldgos og vandamálin sem það skapar er eitt en fjármál landsins annað. Í fréttunum núna rétt áðan klukkan 18 var talað við Reyni Böðvarsson jarðskjálftafræðing og hann var skörulegur og myndarlegur eins og alltaf. Svo var sagt frá Björk og tónlistarverðlaununum sem hún fékk í dag.

En nú var ég að lesa að salan á íslensku auðlindindunum til útlendinga er frágengin! Ég er svo vitlaus að ég hef gaman af að sjá brum bresta, gróður vaxa og keyra hjólbörur út í skógi. En í dag er ég bara vonsvikinn og sorgmæddur Íslendingur.

Ps. Ég skrifaði þetta um tvö leytið en geymdi það svo og vildi íhuga hvort ég ætti virkilega að birta það. Nú er klukkan að verða átta og ég læt það flakka.


Kommentarer
Dísa gamli nágranni

Sæll og bless Guðjón.'Eg verð að taka undir skrifin þín af orkusölunni. Það er nú það síðasta sem við þurftum, það að selja útlendingum auðlindirnar okkar. Þær eru það sem virkilega þarf að berjast fyrir að séu í okkar eigu. Já það er sorglegt. Mér finnst eins og ég lesi úr blogginu þínu að þið hálfpartinn skammist ykkar fyrir að vera Íslendingar. Bara djók en....... En ég er nú ekki alveg viss um að þó að forsetinn hefði skrifað undir lögin margumtöluðu að allt væri nú orðið eins gott og þú lýsir. Að öðru skemmtilegra þá erum við hjónakornin heilmikið búin að bæta og laga hér í okkar verndaða ranni, verða okkur úti um moltu og trjákurl,bæta í beðin setja niður kartöflur og sá fyrir gulrótum bera á palla og grindverk og svo eru stjúpurnar mínar sem ég sáði fyrir í vetur orðnar mikið bragglegar þannig að ég er býsna ánægð þegar ég lít hér út í garðinn okkar og horfi á sólskríkjurnar eta kornið sem Ottó gefur þeim. Svo vorum við líka að leggja hönd á plóg við hreinsun á Eyjunni okkar í dag. Ef ég man rétt þá voruð þið Valdís hér á hreinsunnar deginum í fyrra. Nú ætla ég að lesa svolítið lengra aftur í tímann í blogginu og skoða myndir af litla kút. Við hugsum vel til ykkar og óskum ykkur góðra daga

2010-05-21 @ 00:27:56


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0