1. maí og Valborgarmessa

Í dag er 1. maí og Valborgarmessuhelgi. Hér í Svíþjóð er talað meira um Valborgarmessu en dag verkalýðsins. Valborgarmessa er hér svolítið sem sumardagurinn fyrsti á Íslandi en fólk óskar þó ekki gleðilegs sumars. Í gærkvöldi, Valborgarmessukvöld eins og sagt er, kveikti fólk í hríshaugum, kórar sungu falleg lög og fólk almennt hittist og hálfgerð hátíðardagskrá var í sjónvarpi. Fleiri drekka í fyrsta skipti á ævinni á Valborgarmessu en nokkurn annan dag ársins að þó einum öðrum meðtöldum sem ég man ekki hver er. Það skiptir mig heldur ekki svo miklu máli þar sem ég kæri mig ekki að svo stöddu um að drekka í fyrsta skipti aftur. Við Valdís hittum bara hvort annað. Við ætluðum inn til Örebro í gærkvöldi en þegar stundin nálgaðist sagðist Valdís bara alls ekki nenna og þá nennti ég ekki heldur. Við höfðum heldur engan hrís að brenna hér heima þar sem við vorum búin að mala hann og leggja í gönguslóðir út í skógi.

Valborgarmessa í Uppsölum
Rósa segir að í Uppsölum sé heil mikið um að vera á Valborgarmessu. Hún tók þessa mynd út um stofugluggann hjá þeim og þarna er að sjá töluvert af fólki við Fyrisána, sérstaklega þó á Íslandsbrúnni og á miðri brúnni er svo strætisvagn á ferð mitt í fólksfjöldanum. Bátar voru á ánni og komu þeir niður ána (frá hægri) og enduðu víst ferðina þegar þeir voru búnir að fara niður Íslandsfossinn sem er við brúna hinu megin, sunnan við. Ég fæ varla betur séð en að þessi bátur líkist meira bíl en bát. Þeir kannski bara eru svona Valborgarmessubátarnir í Uppsölum. Rósa kannski kommenterar ef ég fer með eitthvað rangt. Ég stal myndinni af feisbókinni hennar.

Núna að morgni þessa dags hefur blásið meira en gert hefur lengi undanfarið. Það er þó ekki hvassviðri eða þaðan af meira en sunnan undir húsinu stendur plaststóll sem gerði þennan blástur meira áberandi. Í vissum hviðum náði stólinn að slást upp að veggnum og þá dumpaði í húsinu. Þegar stóllinn var svo búinn að dumpa í vegginn féll hann aftur á sína fjóra fætur og beið eftir næstu vindhviðu. Ég hef verið berfættur í morgun og ekki nennt í sokka til að fara út og færa stólinn. Að lokum gafst hann upp á að narra mig út og nennir þessu ekki lengur. Valdís var einhvers staðar með Óla Lokbrá meðan á þessu stóð og stóllinn náði ekki að pirra hana. Að lokum gerði svolitla rigningarskúr og eftir það lygndi heldur.

Seint í gærkvöldi sparaði ég myndir sem ég ætlaði að nota í þetta blogg en nú hef ég verið svo uppkjöftugur að ég hef varla pláss fyrir myndirnar. Það er kominn tími fyrir árdegiskaffið og svo þurfum við að funda um hvað við viljum gera með þennan dag. Það verður nú engin kröfuganga. Ég hef góðan ellilífeyri frá Svíþjóð, eða þannig að ég get ekki klagað. Hins vegar fæ ég ekki krónu frá Íslandi og þó að ég hefði ekkert unnið var það svo lítið að það var ekki erfitt að velja á milli. Hins vegar fæ ég góðar greiðslur frá lífeysissjóðum á Íslandi og það verð ég að nefna. Ég má ekki kvarta undan öðru og þegja yfir hinu. Ef ég hefði séð hlutina fyrir hefði ég ekki sótt um íslenskan ellilífeyri og þá hefði hann hækkað fyrir hvert ár sem ég hefði ekki fengið greitt. Ég reyndi að draga umsóknina til baka en sá sem hefur póstlagt umsókn getur ekki gert það var mér tjáð. Hins vegar hækkar sænski ellilífeyririnn fyrir hvert ár sem ég vinn og ég verð bara að hugga mig við það.

Svo þetta varð bara 1. maí ávarp að lokum



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0