Lítil hönd og stór fingur

5. apríl bloggaði ég um tvo menn, Tómas prest og Martin fyrrverandi biskup. Sonur Tómasar dó af einhverjum hægfara rýrnunarsjúkdómi. Eftir að það uppgötvaðist að hann leið af þessum sjúkdómi voru tveir aðrir synir Tómasar athugaðir og í ljós kom að annar þeirra hafði sama sjúksóm. Ég veit ekki á hvaða stigi sjúkdómur hans er núna eða hvort hann lifir, en síðast þegar ég vissi var hann mjög alvarlega veikur. Sonur Martins, Jónas, er alvarlega þroskaheftur og er á heimili fyrir slíka, en er í mikilli þörf fyrir foreldra sína. Hann varð fyrir bráðri blæðingu meðan hann enn var í móðurlífi og foreldrarnir vissu að hann mundi aldrei verða heilbrigður. Það er þetta sem bindur þessa tvo menn sterkum vináttuböndum.

Í morgun fór ég út í skóg um átta leytið og ætlaði að hreinsa þar til og flytja heim það sem eftir var af eldiviði. Síðan ætlaði ég að koma heim nokkuð fyrir klukkan tíu, fá mér morgunverð og horfa á sjónvarpsmessuna. Þegar ég á leið minni út í skóg gekk framhjá ákveðnu svæði bakvið húsið hugsaði ég til Arne Erikson gröfumanns sem ætlaði að færa okkur tvö bílhlöss af mold þegar moldarhaugarnir hjá honum væru orðnir frostlausir og þurrir. Hann var búinn að biðja mig að hringja í sig um 15. maí og tala um þetta þá. Við þurfum að gera snyrtilega all stóra flöt bakvið húsið.

Tuttugu mínútur fyrir tíu kom ég í þvottahúsdyrnar og þá sagði Valdís að gamli biskupinn væri með messuna. Ég hugsaði ekki svo mikið um það fyrst og fór í að hrúga morgunverðinum á disk. Klukkan tíu kom Martin fyrrverandi biskup á skjáinn í frakka og með alpahúfuna sína og kynnti messuna. Þarna stóð þessi áttræði maður framan við einhverja kirkju og bauð meðal annars okkur velkomin til að horfa á þessa messu. Hann snerti mig sterkt á einhvern hátt, sem hann hefur svo oft gert áður, og meðan ég horfði á hann tala þarna framan við kirkjuna fékk ég svo sterkt á tilfinninguna að þetta yrði góður dagur.

Messan hófst með því að all sérstakur kór söng. Sumir studdu sig við hækjur, sumir sátu í hjólastólum og það leyndi sér ekki að þessi kór var uppbyggður af þroskaheftu fólki. Miðaldra maður gekk fram og byrjaði með einsöng. Hann horfði í kringum sig þegar hann var byrjaður að syngja og virtist vera að athuga hvort ekki væri allt í lagi, og auðvitað var allt í lagi. Svo söng allur kórinn. Eftir einhver föst messuatriði steig fram Martin fyrrverandi biskup og nú í prestsskrúða. Hann byrjaði á að tala um kórinn. Þessi kór söng að nokkru með munninum og svolítið með kroppnum, sagði hann, en þessi kór söng í fyrsta lagi með hjartanu. Svo hélt hann áfram að tala blaðlaust haldandi báðum höndum utan um míkrófón.

Hann talaði lítið um trú en hann talaði þannig að orð hans urðu að sterkri trú. Hann talaði um lífið og stofan á Sólvöllum fylltist af trú. Hann talaði um fæðingu Jónasar á aðfangadagskvöld 1961 og sagði að hann hefði grátið mikið og lengi eftir fæðinguna. Þau foreldrarnir stóðu yfir rúminu hans og biðu eftir einhverju öðru en bara gráti. Allt í einu brosti Jónas. Það var fallegasta bros sem nokkur manneskja hafði nokkru sinni brosað. Martin lýsti því hvernig varnarlaust barnið hefði heyrt þau tala máli sem hann skildi ekkert í en hann hefði fundið fyrir einu. Þarna uppi yfir rúminu sem hann lá í stóðu þessar tvær mannverur sem mundu gefa honum allt það öryggi sem hann þyrfti í lífinu. Hann sem var svo lítill og varnarlaus og nýkominn frá þessari nánu nærveru og öryggi sem hann hafði haft í móðurkviði, hann gat ekki skapað sér þetta öryggi sjálfur. Hann bar óbifanlegt traust til þessara stóru mannvera sem stóðu svo oft yfir honum.

Martin sagði frá því hvernig Jónas hefði náð taki á fingri hans og svo hélt hann utan um fingurinn, ótrúlega sterku taki, eins og hann mundi aldrei vilja sleppa þessum fingri. Hann hefur heldur ekki sleppt takinu enn í dag því að þeir feðgar fara oft út að ganga og þeir haldast ennþá hönd í hönd eins og faðir og lítill sonur gerðu þegar árið 1961. Jónas er næstum líka lítill sonur enn í dag. Hann er í þörf fyrir nærveruna, vináttuna og kærleikann. Martin segir að enginn hafi kennt sér jafn mikið um þessi gildi og Jónas.

Við Valdís vorum afar hljóð meðan við hlustuðum á þennan öldung tala. Hann setti þetta allt í samband við lífið, alheiminn, nærveruna og kærleikann á mjög trúarlegan hátt. Orðin, áherslurnar, lífsreynslan og hinn djúpi andlegi þroski getur aðeins verið hans. Ég get því aldrei flutt það áfram af þeirri dýpt og innsæi sem hann gerði í messunni í dag. Aðeins maður með djúpan andlegan þroska getur haft svo sterk áhrif. Tveir menn geta lýst því sama með sömu orðum en boðskapur Martins verður samt ekki sá sami og hins. Þar sem við sátum þarna og hlustuðum gerði ég mér grein fyrir því að með staðfestu og trúmennsku hefur maðurinn öðlast þennan mikla áhrifamátt af þátttöku sinni í hinu andlega lífi.

Áður en messunni lauk hringdi Anders smiður og sagðist verða hér eftir hálftíma til að ræða byrjun byggingarframkvæmda á Sólvöllum. Strax eftir að Anders fór hringdi Arne gröfumaður og sagðist vera að koma með mold. Þar með tók veraldlegi þátturinn yfir aftur. Þeir hafa nú hvorugur fylgst með sjónvarpsmessunni býst ég við en áttu samt báðir þátt í því að þetta hefur verið ótrúlega góður dagur. Það hefur heil mikið skeð á Sólvöllum í dag.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0