Af hverju ekki fyrr

Já, af hverju gerði ég þetta ekki fyrir löngu. Ég verð bara að vera heiðarlegur og viðurkenna að það var leti. En svo er það spurning hvað það var, þetta sem ég nennti ekki að gera. Það var einfaldlega að gera 30 holur um 30 sm djúpar með járnkalli kringum plómutréð hérna norðan við húsið og fylla þær með kalki. Þegar ég talaði um það við garðyrkjumann inn í Örebro að það væri of oft uppskerubrestur á plómutrénu, þá ráðlagði hann mér að gera þetta. Sagði það hreinlega öruggt til árangurs. Það er grófur malarjarðvegur kringum plómutréð og það þýðir tvennt. Annað er að það er erfitt að komast með járnkallinn á 30 sm dýpi og hitt er að það er mikil þörf fyrir jarðvegsbætur. Að kalka svona er virkilega jarðvegsbætur. Núna er þetta búið og ég veit að þegar ég hef á liðnum árum verið að sannfæra sjálfan mig um að þetta væri ekki nauðsynlegt, þá var það vegna þess að mér óx það í augum. Svo tók þetta kannski liðlega klukkutíma. En ég er nú loksins með nýjan mjaðmalið svo að ég réttlæti smávegis.

Meðan ég var með allra mestu garðyrkjudelluna í Hrísey las ég það einhvers staðar að allt sem ég gerði fyrir garðinn minn væri til bóta. Mikið ef það stendur ekki í Skrúðgarðabókinni sem ég nota ennþá þó að hún komin hátt í fertugt. Auðvitað er hægt að gera svo vitlausan hlut að það valdi skaða en ég býst við að höfundur þessara orða hafi gert sér grein fyrir því að slíkir menn og konur fullnægi athafnaþrá sinni einhvers staðar annars staðar en við garðyrkjustörf. Það segir í bókum vísra manna að ef maður vilji gera góða hluti í lífi sínu og vaxa að visku og vexti, þá skuli maður rækta garðinn sinn. Ég hef grun um að Kínverjar fyrri tíma hafi fundið upp á að tala þessu myndmáli. Ég kunni eitt sinn kínversk vísdómsorð sem sögðu að ef maður vildi vera hamingjusamur í klukkutíma borðaði maður góða máltíð, vera hamingjusamur einn dag þá var það eitthvað annað sem ég ekki man. En ef maður vildi vera hamingjusamur allt lífið skyldi maður rækta garðinn sinn. Eflaust hafa allir heyrt þetta.

Það var að enda tveggja tíma dagskrá í sjónvarpi þar sem safnað hefur verið "veraldrarforeldrum" ef ég bara þýði orðið yfir fólk sem lætur af hendi ákveðna upphæð mánaðarlega til að gefa börnum fátæka heimsins tækifæri til betra lífs. Við í vesturheimi skuldum þessu fólki bætur fyrir nýlendutíma og þrælasölu. Það var að vísu ekki nefnt í þessum þætti en ég geri það bara að orðum mínum. Í þættinum voru sýnd mörg dæmi um lífsviðurværi barna fátæka heimsins og lýst aðstöðu mæðranna sem fæddu þessi börn. Í Kambódíu deyr helmingur mæðranna þegar þær fæða heima. Naflastrengurinn er ekki klipptur, heldur er hann skorinn með klofinni bambusstöng og svo geta bæði mæður og börn fengið eitrun. Sýnishornin sem voru notuð í þættinum voru svo rosaleg að þekkta fólkið, leikarar, söngvarar þulir og íþróttafólk svo eitthvað sé nefnt, gleymdu algerlega að þykjast vera hamingjusöm meðan sýning þessara atriða stóð yfir.

Ég veit eftir að hafa séð þennan þátt að ég hef enga ástæðu til að kvarta yfir örlögum mínum eða efnahag. Ég svo sem hef vitað það lengi en þetta er áminning sem fær fólk, alla vega mig, til að taka stund til endurskoðunar. Á morgun ætla ég að hafa samband við barnahjálpina og auka framlag okkar þangað og taka það frá Rauða krossinum sem hefur ekki hreinan skjöld. Svo ætla ég að leggja áherslu á að rækta garðinn minn, bæði þann innri og þann sem liggur í skóginum bakvið húsið.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0