Góður sumardagur

Klukkan er að verða hálf tíu að kvöldi laugardags 22. maí. Mikið rosalega líður tíminn fljótt og alveg sérstaklega það sem af er þessum mánuði. Ég er með harðsperrur eftir daginn. Ég var að moldvarpast í allan dag, framhald af gærdeginum, og sem stendur eru framkvæmdirnar leyndarmál. Loksins eigum við leyndarmál hér á Sólvöllum! Dagurinn er búinn að vera frábær. Við förum hvað líður að taka mynda af Sólvallaskóginum og birta. Það var lán að smiðurinn og gröfumaðurinn vildu ekki byrja þegar þeir voru hér á mánudaginn var þar sem þá mundi vera vatnselgur í öllum útgreftri. Við tímum ekki að borga smiðum fyrir að sullast í vatni.

Ég fór út í moldarvinnuna rúmlega átta í morgun en tók svo eftir því að það stóð vatn uppi í skurði sem er eina 30 m bakvið húsið. Ég þurfti svo sem ekki að undrast þetta með vatnið og fór af stað með garðhrífu. Ég er búinn að hreinsa lauf einu sinni úr skurðinum í vor en nú þurfti ég að gera það á ný. Það leyndi sér ekki að mýflugurnar voru komnar af stað og þar sem allt er mjög rakt núna eftir talsverða rigningu nýlega og óskuðu þær mig hjartanlega velkominn þarna út til þeirra. Þær elskuðu alveg sérstasklega að hýsast niður í hvirfilinn á mér. Ég hagaði mér eins og ég væri ónæmur fyrir þeim og hversu ónæmur mun ég komast að þegar ég vakna í fyrramálið.

Annars eru það ekki bara mýflugurnar sem sækja í kollinn á mér. Ég fór inn í viðargeymsluna í gær sem er með opinn gafl móti austri. Meðan ég var þar inni var eins og einhver væri að fikta við hárið á mér nokkrum sinnum. Að lokum leit ég upp og þá var þar þröstur með einhver ólæti. Stuttu síðar tók ég eftir því að hann hafði skitið í hárið á mér þunnri drullurönd sem seig alveg inn að skinni. Það var ekki mikið annað fyrir mig að gera en að stinga kollinum undir sturtuna til að fá ósóman í burtu. Svona láta fuglarnir sér detta í hug að gera við áfengisráðgjafa í Svíþjóð.

Við fengum nokkrar línur frá henni Dísu gamla nágranna í Hrísey í gær. Á hennar bæ er verið að hlú að gróðri og náttúru eins og hér á Sólvöllum enda býr hún við Sólvallagötuna. Hún talar um bæði moltu og trjákurl í þessu sambandi. Molta er orð sem ég veit ekki til að hafi verið notað í þeirri íslensku sem töluð var í Hrísey meðan við vorum þar og trjákurl man ég ekki eftir að væri notað í garða. En ég tel mig þó átta mig á þessu hvoru tveggja.

Fyrst ég er farinn að tala um fólkið í Sólvallagötu 2 dettur mér í hug valtarinn sem við keyptum í gær. Ottó fékk aðstoð við að smíða valtara sem síðan gekk milli húsa í Hrísey eins og þarfanautin í sveitinni á æskuárum mínum. Nú hef ég engan Hauk Kristófers til að hjálpa mér við þetta svo að við keyptum valtara fyrir 999 Skr. Hann er ósköp líkur valtara Ottós nema hvað hann er lakkaður með svörtu glansandi lakki. Ég talaði um það við Valdísi að við þyrftum eiginlega að vefja hann innan í teppi áður en við færum að nota hann svo að við eyðilegðum ekki glansinn. Jónas og Lena nágrannar okkar eru að vinna við jarðabætur heima hjá sér og ég trúi að þau komi fljótlega til að fá valtarann lánaðan. Þar með verður hann orðinn arftaki þarfanautsins varðandi bæjarflakkið.

Nú er klukkan alveg að verða tólf og ef ég ætla að birta þetta bull verð ég hreinlega að gera það áður en hvítasunnudagurinn gengur í garð hér. Það munar nefnilega tveimur tímum á klukkunni hér og á Íslandi. Læt ég þar með staðar numið og leita félagsskapar Óla Lokbrá. Ég heyri að þau hafa þegar hittst Valdís og hann.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0