Kalli frá Úrsa og myndir og mas

Í gærkvöldi sparaði ég myndir til að nota á blogg í dag og svo bloggaði ég í morgun en blaðraði svo mikið að það var bara of mikið að nota þessar myndir. Nú settist ég við tölvuna eftir kvöldmatinn og ætlaði að gera eitthvað við þessar myndir en það var svo góður kórsöngur í sjónvarpinu að ég freistaðist til að flytja mig þangað og fylgjast með.

Síðustu vikurnar hefur nefnilega staðið yfir kórakeppni sem er þannig fyrir komið að eitt lag fellur út á hverju laugardagskvöldi og það byggist á því hversu margir hringja á hvern kór. Í kvöld var lokakeppnin sem fór fram milli tveggja síðustu kóranna. Eins og vænta mátti vann kórinn hans Kalla frá Úrsa. Það er merkilegt hvað þessi lágvaxni maður getur lokkað fram hjá fólki og hversu djúp áhrif hann getur haft á áheyrendur sína. Hann er svo lágvaxinn að hann hefur stundum staðið á ölkassa til að vera ekki mikið lægri en maðurinn eða konan við hliðina á honum. Það hefur þó ekki allta dugað til en Kalli dugar til sem frábær listamaður.

Í dag ætlaði ég að leggja síðustu myndina sem við höfum fengið af honum Hannesi Guðjóni inn á bloggið mitt. En tæknin var mér ofviða að þessu sinni þannig að þetta fær að bíða. En við fengum líka filmubút sem tekin var í dag og þar gengur hann langa leið eftir stofugólfinu heima hjá sér keyrandi vagn með dótinu sínu á undan sér. Gott hjá honum nafna mínum sem er tæplega níu mánaða.

En nú kem ég með myndirnar sem ég ætlaði að nota í morgun en kom þeim ekki að þar sem ég bullaði svo mikið.

Fjögurra og 68 ára og bæði á fullri ferð en þó er sú fjögurra ára á undan
Hún Alma er fjögurra ára nágranni okkar, býr í næsta húsi sunnan við. Pabbi hennar og mamma buðu okkur að taka sandbing sem varð umfram í fyrra við framkvæmdir heima hjá þeim. Alma og mamma hennar og systir voru í heimsókn hjá Valdísi þegar ég var að flytja sandinn. Allt í einu sá ég hvar Alma hljóp á ótrúlegri ferð heim til sín og kom svo að vörmu spori til mín með hjólbörurnar sínar og skóflu. Hún kom til að hjálpa mér. Það eru heil 64 ár á milli okkar í aldri en okkur kom vel saman þrátt fyrir það. Hún er létt í spori á myndinni með hjólbörurnar sínar..

Hestkastanían á góðri leið
Þessi mynd af hestkastaníubrumi er tekin í gær. Það er sjónarmunur milli daga. Öll brum eru í vexti og mörg eru útsprungin. Það er frekar kalt en það er þó gott veður. Það síðasta sem ég gerði úti fyrir kvöldmatinn var að gá rétt einu sinni enn hvernig beykibrumunum gengi. Ég fullyrði að þau eru stærri nú en nokkuð annað vor síðan við byrjuðum að flytja beyki hingað. Það segir bara að það er búið að festa vel rætur og er á réttri leið.


Það sem er þarna undir glasinu er vorboði. Þú verður að taka þessa hunangasflugu, sagði Valdís, ég kem ekki nálægt henni. Hunangsflugan hafði villst inn í stofu og rataði alls ekki út aftur. Það var ekki bara Valdís sem þótti óþægilegt að hafa hana þar. Hunangsflugunni sjálfri þótti það greinilega óþægilegt líka. Þegar hún var komin undir glasið og ég búinn að renna umslagi undir hana trylltist hún algerlega en aðstæðurnar voru henni ofviða.

Ingemar vinnufélagi og hún Lena hans.
Lena og Ingemar komu í heimsókn í vikunni. Valdís bauð öllum upp á vöfflur með sultu og rjóma sem við sporðrenndum af góðri lyst. Ingemar er einu ári yngri en ég og er líka ellilífeyrisþegi. Hann er búinn að vera vinnufélagi minn í rúm 14 ár og hann gerir eins og ég, hann vinnur all mikið ennþá. Ég hef oft nefnt Ingemar áður. Hann var fallhlífahermaður sem ungur maður og í friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna á Kýpur. Fyrir tveimur árum heimsóttum við mann á sjúkrahúsi í Stokkhólmi og dvöldum hjá honum lengi. Við vorum orðnir glorhungraðir þegar við komum heim til Rósu og Péturs og fengum þar mikið af afar góðu brauði og áleggi eins og okkur lysti. Þegar við vorum orðnir mettir urðum við svo kátir að við réðum okkur naumast og sú ánægja fylgdi okkur allan daginn og alla leið heim til Örebro.

Skógarsóleyjar
Frekar kalt vorið gerir það að verkum að tími skógarsóleyjanna er langur að þessu sinni. Vitsippor er sagt á sænsku og þær eru mjög dáðar sem vorblóm þegar þær þekja ótrúleg svæði af skógarbotninum.


Kommentarer
Brynja

Mikið er gaman að kíkja inn og sjá að allt gengur sinn vanagang og að vorið fer vel í ykkur, fallegt hjá ykkur eins og alltaf. Hér er langþráð loksins hlýtt, lavenderfræin mín farin að spíra og ég er með drullugar hendur eftir vorverkin, er að búa mig undir að fara að mála snúrustaurana okkar og innra með mér slær svolítið sænskt vor í takt við hið íslenska. Knús á ykkur kæru hjón frá okkur gömlu Örebrúbúunum.

Brynja, Valur og kó

2010-05-02 @ 14:35:28
Guðjón

Halló Brynja og fjölskylda!

Gaman að fá línur frá ykkur. Hér hefur breytst ótrúlega mikið frá því í gærmorgun og okkur finnst reyndar að það hafi orðið mikil breyting frá því í morgun. Það fylgir sérstök tilfinning vorinu hérna og það kemst aldrei upp í vana, það er alltaf sama kraftaverkið. Við vonum að þið unið vel á Akureyri. Akureyri er mikill gróðrar- og skógarbær.



Gangi ykkur allt í haginn og bestu kveðjur líka frá gömlum Örebrúurum, Valdísi og Guðjóni

2010-05-02 @ 17:21:49


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0