Svar til Þórlaugar og Guðmundar

Takk fyrir innleggin ykkar Þórlaug og Guðmundur og takk fyrir hamingjuóskir. Já, Guðmundur, þú talar um hvernig þetta hafi farið fram. Þegar eftirspurn er mikið meiri en framboð verður þetta svona. Samt er byggt af svo miklum krafti í Örebro að það brakar í steypustyrktarjárnunum eins og blaðamaður sagði fyrir stuttu.

Það er grjótharður heimur meðan boðið er í. Við virðumst hafa verið alveg á nákvæmlega réttum tíma. Síðla sumars seldi kona hér í næst næsta húsi íbúð sem er af nákvæmlega sama gæðaflokki og okkar, en þó einu herbergi og einni snyrtingu stærri, eða með öðrum orðum 25 ferm stærri. Samt fengum við svo mikið hærra verð fyrir okkar íbúð að mismunurinn er næstum sama upphæð og við gáfum fyrir Sólvelli árið 2003.

Svo spyrjið þið hvert við ætlum að flytja. Já, það er kannski ekki að undra og margur mundi verða órólegur í okkar sporum að hafa ekki tryggt sér annan bústað áður en selt er. En það er alls ekki svo auðvelt. Hvað mig áhrærir var það mesti höfuðverkurinn hvernig við gætum stillt saman tímann á sölunni og nýjum bústað. Fjölskyldan sem tapaði í tilboðaslagnum hefur engan bústað þann 1. febrúar þegar þau verða að yfirgefa sinn núverandi bústað. Fjölskyldan sem vann verður að yfirgefa sinn bústað fyrir 1. mars. Þessar fjölskyldur báðar eru búnar að segja upp núverandi húsnæði af því að þau ætla að kaupa og einhverjir aðrir bíða eftir að flytja inn þar sem þau búa.

En nú verður þetta enginn höfuðverkur fyrir okkur. Við verðum að vera farin héðan fyrir 1. mars og þá höfum við Sólvelli. Svo einfalt er það. Við erum ekki byrjuð að leita og gerum það ekki fyrr en eftir jól. Við þurfum ekki að skaða okkur á stressi.

Við Valdís horfðum á sjónvarpsmessuna í morgun. Hún var tekin upp niður í Smálöndum. Prestur, kona, sem talaði í messunni talaði um að fólk byggði sér himnaríki heima hjá sér fyrir jól með skrauti og punti og hún var ekkert að setja út á það. En eftir jól verður þetta skraut og punt tekið niður og vetrarmyrkrið liggur þá jafn þungt yfir og það gerir í dag. Því er svo mikilvægt að við sækjum líka himnaríkið sem við viljum hafa inn á önnur svið, sækjum kraft þangað sem hann aldrei þrýtur. Þessum orðum sínum til staðfestingar vitnaði hún í Jóhannes skirara. Hún lauk tali sínu með þessum orðum: "Hræðist ei myrkrið" og jafnskjótt og hún hafði sagt það kom kór á sjónvarpsskjáinn. Aðeins framan við kórinn stóðu tvær fallegar stúlkur svo sem sjö og átta ára, greinilega ættaðar frá fjarlægu landi, í hvítum kyrtlum eins og allur kórinn sem stóð bakvið þær. Þær byrjuðu sinn tvísöng á þessum orðum; "Hræðist ei myrkrið". Eftir fyrsta versið söng allur kórinn það sem eftir var af sálminum. Svo ungur sem þessi kór var, hversu fallega hann söng.

Við hræðumst ei myrkrið.


Hér eru þrjár myndir frá Sólvöllum






Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0