Að ljóstra upp um leyndarmál

Í fyrradag var ég með dylgjur um að við ættum leyndarmál. Ég er að velta því fyrir mér núna hvort ég eigi að ljóstra upp þessu leyndarmáli okkar, en ef ég geri það eigum við ekkert leyndarmál til að pukra með. Leyndarmál eru nefnilega svolítið skemmtileg -eða hvað? Jú, það er nefnilega þannig að við erum búin að selja íbúðina sem við erum búin að búa í í tæp ellefu ár.

Það var þannig að í árslok 1998 að ég hafði verið á þönum um allt að leita að íbúð eða húsi fyrir okkur að kaupa. Valdísi var ekkert of vel við þetta og fannst við geta tekið því svolítið rólegar en ég gerði. Íbúðin sem við leigðum þá var ágæt en í svolítið leiðinlegum bæjarhluta fannst okkur og svo var ég með svolitla dellu fyrir að kaupa. Valdís vann þá á heimili fyrir aldraða í Örebro og svo var það dag einn þeger ég var í viku fríi sem ég fékk reglubundið á þeim árum, að ég svaf eftir að Valdís fór í vinnuna. Þegar ég kom fram að matborðinu sá ég hvar hún hafði krossað við auglysingu í dagblaðinu og ég varð svolítið hissa. Var hún þá með einhverjar íbúðahugleiðingar líka þegar öllu var á botninn hvolft. Ég flýtti mér því eftir morgunverðinn að húsinu þar sem þessi íbúð var og snuðraði svolítið þar í kring og leist vel á. Þegar Valdís kom heim úr vinnunni var ég ólmur að fara með hana á staðinn og sýna henni. Nokkrum dögum seinna komum við með fasteignasala að útihurðinni að þessari íbúð og fasteignasalinn hringdi dyrabjöllunni. Tæplega þrítug kona kom niður tröppur og opnaði og um leið og hún stóð þarna í opnum dyrunum var það eins og við værum komin á réttan stað.

Fyrir hálfum mánuði höfðum við samband við konuna sem í árslok 1998 opnaði útuhurðina að íbúðinni sem við búum í núna og sögðum henni að við værum búin að taka ákvörun um að selja. Þetta er bankakona, Helena, sú sem seldi okkur íbúðina sína þá og síðan hefur hún verið fulltrúi okkar í bankanum. Hún er líka nágranni okkar. Að við mundum selja var ekkert sem kom Helenu á óvart, við vorum búin að tala um þetta. Hún brást vel við og tveimur dögum seinna kom Gro (Grú) heim til okkar, en hún vinnur á fasteignasölu hér í Örebro, komin hingað frá Noregi. Hún tók heldur betur til hendinni, tók myndir, við ákváðum lágmarksverð á íbúðinni, hún auglýsti og sýndi svo íbúðina á mánudaginn var meðan við Valdís skruppum í bæinn og fengum okkur kaffi og bollu.

Á þriðjudaginn byrjuðu tvær fjölskyldur að bjóða í íbúðina í hinum grimmasta bardaga og stóðu nú yfir tilboð í tvo sólarhringa þar sem hvor aðili bauð yfir hinn, aðeins hærra, aðeins hærra og aðeins hærra. Samtals kom 21 tilboð frá þessum tveimur aðilum og stundum með afar stuttu millibili. Að lokum gafst önnur fjölskyldan upp og þar með var hin orðin sigurvegari í þessu grjótharða einvígi. Þá var íbúðin komin langt upp fyrir það lágmarksverð sem við settum upp.

Þetta var mikið ólíkt því þegar við keyptum af Helenu, en þá hafði hún líka sett upp verð en það voru engir að keppast um íbúðir 1998. Það var þá enn of stuttu eftir sænska bankakrísinn. Þá var háskólinn í Örebro heldur ekki orðinn að Universitet, en íbúðin er einmitt í nágrenni háskólans. Svo buðum við Valdís lægri upphæð en Helena hafði sett upp og svo sömdum við bróðurlega um mismuninn. Svo fluttum við inn og bjuggum hér í nær ellefu ár.

Í gær, fimmtudag, kom svo Gro og fjölskyldan sem bar sigur úr býtum til að skoða íbúðina nánar, til að hitta okkur og til að skrifa undir pappírana sem Gro hafði gengið frá. Þetta eru tæplega þrítug hjón með níu mánaða gamla dóttur og þau voru svo ánægð með sitt verðandi heimili, alveg í skýjunum og tjáðu sig um það hvað eftir annað. Konan sagði að um leið og hún var komin upp stigan á skoðunardaginn, þá bara hefði það sagt klikk, þetta var hennar rétta heimili. Það var sama og við fundum ellefu árum áður þegar Helena opnaði útihurðina. Svo ánægð voru þessi ungu hjón að þau sögðust lofa því að viðhalda alla tíð góðum anda í þessari íbúð, við þyrftum ekki að vera hrædd um annað. Þetta var þriðja íbúðin sem þau buðu í og höfðu því tapað tveimur orrustum og töldu sig nú að sigrinum komin. Mæðurnar í báðum fjölskyldunum sem buðu eru nöfnur.

Frá jólum heima 2008


Kommentarer
Þórlaug

Til hamingju með söluna. En, hvert ætlið þið??? Kannski að flytja alveg á Sólvelli?

2009-12-12 @ 23:27:19
Guðmundur Ragnarsson

Til hamingju bæði tvö! Gaman að lesa um hvernig þetta gekk fyrir sig. Þetta er ólíkt því sem gerist á markaði hér núna, þó vonandi breytist það nú þegar frá líður.

Ég spyr eins og Þórlaug; hvað nú, Sólvellir?

Bestu kveðjur,

Guðmundur

2009-12-13 @ 09:54:49


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0