Annar í jólum

Sumir dagar eru bara þannig að það er engu hægt að segja frá. Ekkert sérstakt er gert og það það skeður ekki neitt. Svoleiðis var kannski annar í jólum hjá okkur hér í Uppsala. Valdís, sönn íslensk húsmóðir frá Hrísey, hitaði súkkulaði og bar íslenskar kökur á borð og svo héldum við veislu eins og í gamla daga. Það var ekki amalegt fyrir sextíu árum í fámenninu í sveitinni að fá súkkulaði og kökur hjäa mömmu á hátíðisdögum man ég. Ég hugsa líka að dætur okkar kannist við kökuveislur á hátíðum á frá sinni tíð þó að þær séu einni kynslóð yngri en við. Valdís hefur gegnum tíðina verið seig við ýmsar gamlar venjur. En nú er það svo að það er ekki hægt að bara borða og borða og háma í sig sætar kökur með súkkulaði og vera ekkert á ferðinni. Við Rósa og hann nafni minn erum búin að leggja að baki milli fimm og sex kólómetra í dag en Valdís og Pétur hafa verið við heimilisstörf og fleira á meðan.

Við Rósa héldum árdeigis niður með Fyrisánni að vestan með hann nafna og svo komum við upp með ánni að austan. Gatan austan við heitir ána heitir Eystri Árgatan og hvað haldið þið þá að gatan vestan við heiti? Hún heitir Vestri Árgatan (Östra og Västra Ågatan). Það verður mikið gaman að sjá í seinni hluta maí hvernig þessi gönguleið lítur út á árbökkunum með öllum tilheyrandi trjágöngum og sjálfum borgargarðinum. Þegar við komum heim var konan mín búin að þvo þvott og þurrka þannig að hún lá ekki í neinu aðgerðarleysi. Og við heimkomuna tók hann nafni minn mikinn þátt í heimilislífinu. Hann var vel úthvíldur og óspar á brosið og þá var ekki að því að spyrja að hann gladdi okkur mjög mikið. Það er meira hvað þessi börn geta stráð gleðinni kringum sig.

Þannig leit hluti af gærdeginum út hjá okkur. Ég get heldur ekki þagað yfir því að eftir að dimmt var orðið fórum við í gönguferð í dómkirkjuna. Ég sæki í það að verða svolítill sérfræðingur í Uppsala dómkirkju og reyni ögn að draga fólk með mér þangað. Ég veit ekki hvort Guð var yfir sig hrifinn af uppátækinu að reisa svo mikla og dýra kirkju honum til heiðurs í stað þess að til dæmis byggja yfir fátæka og gefa þeim möguleika í lífinu. En ég er sannfærður um það að ef hann hefði ekki lagt sitt af mörkum við hina mikilfenglegu kirkju, þá hefði hún aldrei risið. Ég hef þegar kynnt mér það að pólitísk öfl settu stundum stólinn fyrir dyrnar, ósamkomulag stöðvaði stundum framkvæmdir, peningaleysi einnig, svarti dauði og fleiri óáran gengu yfir á byggingartímanum. En Uppsaladómkirkja var að lokum staðreynd árið 1435 og hún stendur enn.

Ég skrifaði seint um gærdaginn og það var heldur ekkert að segja um hann taldi ég. Og þó, ég er þrátt fyrir allt búinn að skrifa lengra um hann en til stóð. Einfalt líf er gott líf og hangikjötið er búið. En helmingur er eftir af harðfiskinum sem Dísa og Ottó í Hrísey sendu fyrir jólin. Að lokum birti ég mynd af dómkirkjunni, mynd sem ég birti án heimildar því að ég tók hana ekki sjálfur.


Mynd frá suðri. Ég býst við að ljósmyndarinn hafi leitað færis á að taka myndina eins og hún er. Það lítur út fyrir að turnspírurnar tengist himinhvolfinu.


Kommentarer
Markku

Öflugur ágætur útsýni.

2009-12-27 @ 19:42:31
Guðjón

Gott hjá þér Markku. Þú kemur til með að tala fljótandi íslensku. / Bra gjort av dig Markku. Du kommer till med att tala flytande isländska.



God fortsättning på julen. I övermorgon åker jag hem från Uppsala och den 30 och på nyårsafton jobbar jag.



Mvh från Guðjón

2009-12-27 @ 20:52:14
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0