Komin til Uppsala

Jæja, þá erum við komin í heimahús í Uppsala hjá Rósu og fjölskyldu. Ég hef það svolítið fyrir íþrótt að rata og er nokkuð klár í þessari íþrótt. Lít ég þá í leiðabók ef ég er að fara nýjar leiðir og vil helst komast á leiðarenda án þess að þurfa frekar að líta í bókina. Ég ætlaði að spreyta mig á þessu í dag, en mér brást bogalistin og kom inn í Uppsala langtum norðar en til stóð. Það er heldur ekki glóra í því að hafa götunöfn eins og Luthagsespanaden, enda stytti ég það í L-espenaden áður en við lögðum af stað að heiman. Það var kannski þess vegna sem ég fór beint áfram á gatnamótunum þar sem ég átti að beygja til hægri inn á Luthagsespanaden, en ef ég hefði gert það hefði leiðin orðið svo ósköp einföld. En nú erum við hér og það er allt í lagi að villast því að ef maður tekur því rólega kemst maður alltaf á leiðarenda að lokum.

Þau eru greinilega búin að vera mjög dugleg við að ganga frá sér hér í þessum nýja bústað sínum því að það eru svo rosalega margir tómir pappakassar frammi í geymslu. Barnabarnið okkar, hann Hannes Guðjón, er búinn að brosa mikið fallega fyrir okkur og hann er líka búinn að spjalla töluvert á sínu fallega barnamáli. Hann er líka búinn að vera þreyttur og svolítið var um sig gagnvart þessum manneskjum sem allt í einu bara óðu hér inn með helling af farangri. Við tökum því bara rólega og bíðum þess að  það komist á góður kunningsskapur. Það er alveg dásamlegt að hafa svona saklausa, brosandi litla mannveru á hné sér og horfa á varirnar mynda alls konar hljóð. Þá segi ég að hann sé að tala við hann afa sinn, það er að segja þegar hann situr á mínu hné. Geri hann þetta þegar hann situr á ömmu hné, þá er hann að tala við hana ömmu sína.

Þessi mynd er frá því í fyrri hluta nóvember þegar við áttum svolítið spjall saman.


Við fengum hérna herbergi með litlu hliðarherbergi þar sem ég sit núna við tölvuna. Valdís er komin í bólið og les Sjúkrahússögu. Úti er kyrrt og talsvert af jólaljósum. Við fórum framhjá lögreglustöðinni á leiðinni hingað og á einni hlið hennar taldi Valdís 140 aðventuljós. Eina 30 metra vestan við húsið rennur Fyresáin og enn vestar upp á svoltilli hæð stendur gamall kastali. Ég get rétt ímyndað mér hvernig umhverfið er hér á fallegum og hlýjum sumardegi. Svo rata ég þegar í tvær búðir hér í Uppsala, Ica og Hemköp, og þar er hægt að kaupa rjómaís á hlýjum sumardögum.

Ég hef verið hálf slæptur á köflum í dag en nú virðist sem ég sé bara þægilega þreyttur eftir all langan dag. Það fer vel í mig að sofa hér í nótt. Það er gott fyrir fólk á okkar aldri að hafa góða heim að sækja. Ég er þakklátur fyrir það.


Kommentarer
Anonym

Ha det som bäst i Uppsala, en fantastiskt vacker stad. Ha en god helg!

Mvh Per

2009-12-19 @ 00:57:09
URL: http://www.per.is


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0