Aðallega tileinkað konu minni

Desembermyrkrið er ekki bara langt á Íslandi, það er býsna langt hér líka. Það er kannski venjulegra að tala um að dagurinn sé stuttur en mér fannst allt í einu gaman að snúa þessu við. En svo er það með daga eins og í dag þegar það er þoka fram eftir degi og svo lágskýjað það sem eftir lifir dags, þá verður svo sem aldrei bjart. Svo var það hér í dag og það var bara að notast við ljós inni um miðjan daginn. En hér á bæ var ekki verið að horfa á þetta. Það var ýmislegt í gangi og hún Valdís kona mín lét ekki deigan síga og ekki var hún döpur vegna skammdegisins. Hún var að undirbúa jól.

Við verðum um jól hjá Rósu og fjölskyldu í Uppsala, en þangað fluttu þau um mánaðamótin. Rósa er búin að birta talsvert af myndum þaðan og okkur þykir þessi borg býsna forvitnileg. Íbúar eru rúmlega 130 000. Við Valdís ókum oft í gegnum Uppsala á okkar allra fyrstu tímum í Svíþjóð. Leiðin úr dölunum til Stokklhólms lá þannig eftir því hvaða veg maður valdi. Þar er afar falleg kirkja eins og sjá má hér neðar og eitt sinn lögðum við Valdís lykkju á leið okkar og skoðuðum kirkjuna og urðum býsna hugfangin. Nú er þessi kirkja í nágrenni við bústað Rósu og fjölskyldu. Svo þegar Páll bróðir og Guðrún mágkona mín komu í heimsókn til okkar 1996 máttum við Valdís til með að sýna þeim hvað við værum sigld og sýndum þeim kirkjuna eins og við værum þarna þrælkunnug. Stór Evrópuvegur liggur gegnum Uppsala, E4, og við þennan veg sunnan til í borginni er veitingahús sem heitir Frestelsen, Freistingin, og þar höfum við nokkrum sinnum komið og þaðan kann ég góða sögu sem bíður betri tíma.
Fil:Wiew of uppsala.JPG
Myndina tók ég ófrjálsri hendi frá upplýsingasíðu um Uppsalaborg.


En nú vil ég koma aftur að Valdísi. Það var heil mikið að ske hér í dag en það er ekki allt til frásagnar að sinni. En það sem Valdís aðhafðist við eldhúsbekkinn og bakarofninn, það verður til umræðu. Ég sagði frá því í bloggi í gær að hún hefði hnoðað deig í eina smákökusort og tvær sortir af tertum. Svo eftir nokkuð síðbúinn morgunverð setti hún í gang á ný og drifin umsvifalaust sett á öll hjól. Svo var flatt út deig og bakað og meira flatt út og kökukeflið gekk hratt og örugglega. Ég spurði hvað ég ætti að gera en ég var bara að þvælast þarna eins og einhver auli í kringum hana. Ég var bestur við að þvo vissa hluti og raða öðrum í uppþvottavélina og kannski smálítið fleira gerði ég mögulega að gagni. Svo eftir á var ég býsna góður þegar ég smakkaði á afskorningunum utan af tertunum og fékk mér mjólk með. Og mér varð gott af.

En hvað er ég eiginlega að fara með þessu rugli. Jú, Þegar það var ákveðið að við yrðum hjá fjölskyldunni í Uppsala um jólin, þá varð Valdísi að orði: Ég verða að baka svolítið og hafa með til þeirra. Nú er hún svo virkilega búin að baka svolítið til að hafa með og það er einfaldlega það sem hana langar svo mikið að gera. Svo auðvitað, það voru plötur með jólalögum á fóninum meðan þessi vinna stóð yfir.

Vínarterta eða hvað! með blöndu af sveskju- og plómusultu. Plómurnar komu auðvitað frá Sólvöllum. Ég smakkaði hana fyrst, afskorningana, þegar Valdís var búin að snyrta kantinn.



Ég man ekki betur en Valdís og Guðrún mágkona mín hafi sagt í gamla daga að Kálfafellsbræður væru hrifnir af brúnum tertum. Það er nú orð að sönnu og ég varð að taka mig taki í dag til að borða ekki allt of mikið af þessu góðgæti. Vonandi verða það margir sem smakka á þessu, annars mun þurfa að færa út í belti sumra eftir jól.

Nú kannski skilur einhver sem les þetta hvers vegna við horfðum ekki á desembermyrkrið í dag. En eins og ég sagði áðan var fleira að ske í dag, en einhverju verð ég nú að þegja yfir.


Kommentarer
Þórlaug

Það er gaman að þessu, ég efa ekki að terturnar hafa smakkast vel og eiga eftir að smakkast vel. Viltu skila kveðju til bakarans.

Hér birti heldur ekki í dag, var rigning. En eftir 10 eða 11 daga fer daginn að lengja á ný:-)))

2009-12-09 @ 22:33:44
Rósa

Nammi namm! Það verður mikið um fínt bakelsi hérna um jólin sé ég!



Kveðja,



R

2009-12-09 @ 22:37:29
Valgerður

Er laufabrauðið komið í hús?

2009-12-13 @ 11:53:37


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0