Þorlákur

Það var ekki skata í kvöldmat hér í Uppsala í dag. Skata finnst mér samt góð. Ég smakkaði hana í fyrsta skipti á Mjólkurbarnum í Reykjavík seinni hluta árs 1959 eða 60. Mjólkurbarinn var matsölustaður á Laugarveginum skammt innan við Hlemm. Ég var þar þá í hálf föstu fæði og borðaði þar hádegismat alla virka daga. Ég hafði horft á þennan skrítna fisk í borðinu en þorði ekki að smakka hann fyrr en eftir einhverra vikna umhugsun. Mér fannst sem ég yrði mér til skammar ef ég yrði að skilja skötuna eftir. Svo kom dagurinn sem ég bað um skötu og með gætni setti ég smá bita upp í mig og þar með var ég fallinn fyrir skötunni.

Hér hefur verið jólaundirbúningur í dag sem blandast því að Rósa og fjölskylda eru líka að koma sér fyrir. Svo hefur lestur hugheilla jólakveðja á Íslandi heyrst hér í íbúðinni stóran hluta dagsins. Þrátt fyrir annríki fórum við Rósa í fjögurra kólómetra gönguferði í morgun og auðvitað var yngsti fjölskyldumeðlimurinn með. Gönguferðin var reyndar í fyrsta lagi farin hans vegna en var mér líka alveg nauðsynleg. Ég hef verið dálítið trasaasamur með gönguferðirnar síðustu tvær til þrjár vikur. Hins vegar fer ég bara illa með sjálfan mig ef ég ekki stend mig í stykkinu með þetta.

Eitthvað þurfti að kaupa eftir gönguferðina og ég fór gangandi í búðir. Það úði og grúði af fólki svo að verslanir voru hálf fullar af fólki á öllum aldri. En það var rólegt yfir sem sýndi sig best í því að það voru ekki biðraðir við kassana. Undir kvöldið vorum við búin að koma flestum hlutum fyrir og hér er nú hið fallegasta heimili. Það er kyrrlátt hér og við Valdís höfum talað um að hér er gott að sofa.

Hann nafni minn er farinn að kunna vel við okkur. Hann er orðinn óspar á brosið þegar við víkjum okkur að honum og honum finnst voða gaman að fara út að glugga með ömmu sinni og horfa út. Svo segir hann stundum heilan helling við okkur með miklum tilbrigðum og við auðvitað skiljum allt saman. Það er langt síðan við Valdís höfum verið með öðrum um jól og mörg undanfarin jól hef ég verið að vinna. Því hefði lika verið tekið með þökkum ef ég hefði unnið þessi jól en það var engin spurning; fjölskyldumál voru látin liggja í fyrirrúmi. Það er mikil upplifun að vera svona í námunda við lítið barn og þó að við Valdís séum komin á ellilífeyrisaldurinn tel ég að það þroski okkur að gera það. Við ætlum í kirkju klukkan ellefu á jóladag og þá auðvitað í Uppsaladómkirkju.

Mig dauðlangaði að skrifa aftur um Uppsaladómkirkju í dag en ákvað að fresta því þangað til við hefðum verið við messu þar. Það eru tvær kirkjur sem ég hef hrifist mest af um dagana og það eru Uppsaladómkirkja og Niðarósdómkirkja. Þessi margra alda gömlu mannvirki og fólkið sem byggði þau heilla mig. Þessi jól leggjast mjög vel í mig eins og jól eiga að gera. Við höfum haldið jól með Rósu og Pétri í fáein skipti en ekki núna í þó nokkur ár. Síðast héldum við jól með Vestmannaeyjafjölskyldunni 1993. Þessi sérstaka kirkjuferð verður góð upplifun finn ég á mér.

Að svo búnu vil ég segja gleðileg jól við þá sem þetta kunna að lesa og því fylgja líka kveðjur og jólaóskir frá Valdísi, Rósu og Pétri.


Kommentarer
Valgerður

Gleðileg jól til ykkar líka. Vegna ýmissa óvæntra og óþarfra uppákoma í desembermánuði hefur ekki náðst að semja hið árlega jólabréf. Við ætlum að gefa okkur tíma í það yfir hátíðarnar, en þangað til gleðileg jól frá Vestmannaeyjum.

Valgerður

2009-12-24 @ 17:01:14
Guðjón Björnsson

Engin hætta, við getum alltaf tekið á móti bréfinu, ef það er samið um jólin er það líklega meira jólabréf en annars. Gleðileg jól

2009-12-24 @ 17:31:55
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0