Uppsaladómkirkja

Ég var ekki alveg ánægður með mig í morgun  og fram eftir degi. Mér fannst ég vera bæði of framtakslaus og of latur. Mér var vel ljóst að ég þurfti út að ganga og ég var að reyna að gera hluti hér heima hjá þeim í Uppsala sem þurfti að gera. Þess á milli gekk ég út að stofuglugganum og horfði til dómkirkjunnar sem ég var svo  ákveðinn í að heimsækja oftar en einu sinni meðan við dveldum hér. Svo þurfti ég að sinna reikningum og fleiru en allt gekk hægt. Svo var ég alveg ákveðinn í því að nú fer ég upp að kirkju og dvel þar um stund. Seint og um síðir kom ég mér af stað og það örlaði fyrir að það væri farið að bregða birtu. Þegar ég var kominn af stað fann ég bæði á sál og líkama að ég var að gera rétt. Hreyfingin, útiloftið og umhverfið, allt þetta gerði mér gott þar sem ég gekk upp með Fyresánni.


Þegar ég nálgaðist kirkjuna má segja að hún stækkaði við hvert skref sem ég færðist nær og lotning mín fyrir þessu aldagamla mannvirki og helgidómi óx að sama skapi. Myndavélin var í jakkavasanum og ég velti fyrir mér hvar  ég kæmist í næga fjarlægð til að ná mynd af allri kirkjunni þar sem ekkert bæri þó á milli. Að lokum hallaði ég mér upp að húsvegg beint á móti innganginum og tók þessa mynd af neðri hluta stafnsins. Svo horfði ég á hann, ýmist í myndavélinni eða beint á stafninn og skynjaði fegurð og mikilleika. Já, þetta var bæði voldugt og fallegt þarna strax fyrir dimmumótin í tíu stiga frosti og snjó. Ég hlakkaði til að koma inn og meðal annars að sjá aldur kirkjunnar.


Síðan gekk ég upp í hallandi götu suðvestan við kirkjuna og það var sá staðurinn þar sem gaf best færi á að ná mynd af henni næstum allri. Þessir 118,7 metra háu turnar á stærstu kirkju á Norðurlöndum teygðu sig ótrúlega langt upp mót himni. Hver skyldi svo vera lengd þessarar kirkju sem hefur 118,7 metraháa turna? Jú lengdin er einnig 118,7 metrar.


Ekki minnkaði lotningin þegar inn var komið. Ég leitaði uppi lítinn kynningarbækling um kirkjuna og þar las ég mig til um að byggingarframkvæmdir hefðu hafist um árið 1270 og víxluathöfnin hefði farið fram árið 1435. Hún var heldur eldri en ég hafði haldið og byggingin hafði tekið styttri tíma en mér fannst mögulegt. Ég gekk úr rúmgóðu anddyrinu inn í 27 metra háa kirkjuna og litaðist um. Þar var slæðingur af fólki þegar ég kom inn, fólki sem fór hljóðlega og alla vega helmingur af því voru unglingar sem töluðu í hálfum hljóðum um einhverja muni sem þau skoðuðu. Ég hafði komið þarna tvisvar áður og orðið fyrir sterkum áhrifum og í þetta skipti voru áhrifin kannski enn sterkari. Eftir að ég hafði verið þarna nokkra stund fækkaði fólki til muna og ég settist og fannst ég finna að ég væri staddur í helgidómi.

Tólf burðarstoðir liggja sitt hvoru megin við aðal salinn eftir endilengri kirkjunni. Beggja vegna utan við þessar stoðir eru svo heldur mjórri salir. Yst við útveggina eru minni herbergi. Hver þessara burðarstoða er svo þakin ótrúlegum fjölda súlna sem allar eru svo vel unnar að það mætti ætla að þær hafi verið unnar í einhverjum risa rennibekk. Þær eru settar saman úr á að giska þrjátíu sentimetra háum einingum. Súlurnar má greina á myndinni fyrir ofan. Efst uppi enda súlurnar í bogadregnum hvelfingum. Allur þessi fjöldi af súlum, öll reglan og stílfegurðin skapa svo ótrúlegan samhljóm, og hugsandi um að þetta er fleiri alda gömul sköpun og handbragð, það setur hugann á flug.

Hver gat teiknað þetta með þeirri tækni sem fannst fyrir nær átta hundruð árum? Hvernig gátu menn byggt þetta mannvirki með þeirri tækni sem fannst þá? Þær verða áleitnar spurningarnar. Ef ekki allt hefði verið vel undirbúið hefði byggingin orðið ringulreið. Hvernig er að teikna hús og stjórna byrjunarframkvæmdunum vitandi að það eru margir mannsaldrar þangað til það verður tilbúið? Hvernig er að vinna við bygginguna á lokastigum vitandi að það eru margir mannsaldrar síðan hún var hönnuð og byggingin hófst? Það eru margar spurningar og mikil undrun sem fylgja því að skoða gömul mannvirki. Ég vil fjalla meira um þetta síðar.

Þegar ég gekk heim var orðið dimmt. Það voru mikil jólaljós og skreytingar en hugur minn var bundinn við sál og tilvist Uppsaladómkirkju. Þegar ég kom heim lét ég þau hin ekki í friði. Ég sá mig knúinn til að æfa hugarheim minn með miklu tali um hið ótrúlega. Nú er hins vegar komin nótt og ég mun ekki leysa neinar gátur að sinni.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0