Jóladagur í Uppsala

Það var freistandi í morgun að halda áfram að kúra sig undir sænginni og kasta fyrir róða áætlun okkar Valdísar um að fara í messu í Uppsaladómkirkju klukkan ellefu. Svo spurði ég Valdísi þar sem hún lá undir sænginni hvort við ættum að fara í kirkju. Já, svaraði hún, en þá var líka kominn tími fyrir fótaferð og morgunverð. Maður hámar bara ekki í sig morgunverðinn fyrir kirkjuferð. Nei, það mundi ekki stýra góðri lukku, maður borðar hann í rólegheitum.

Hálftíma fyrir messu vorum við mætt til kirkju. Í þessari kirkju þar sem óendanlega margt er að taka eftir líður þessi hálftími bara eins og andartak. Svo vorum við setst mitt á meðal hinna fjölda mörgu steinsúlna, bogalína og margra alda gömlu óteljandi handtaka. Það er ógnarlegur haugur af grjóti í þessari kirkju -en- þegar þessi grjóthaugur hefur verið skipulagður á þennan snilldarlega hátt, þá er hann orðinn að helgidómi.



Orgelleikur byrjaði, fólk stóð upp, hálf sneri sér við og horfði mót innganginum. Hópur rauðklæddra hjálparmanna gekk skipulega inn aðalganginn í miðri kirkjunni. Á eftir þeim gekk hópur hvítklæddra presta. Einn, stakur og öðru vísi klæddur gekk svo aðal biskup landsins á eftir prestunum. Hann hafði bagalinn í vinstri hendi og gekk við hann. Hann sveiflaði baglinum fram og fram og fram eins og glaður, ófeiminn drengur. Sjálfur gekk hann ögn vaggandi göngulagi eins og sjómaður sem gengur snemma morguns fram bryggjuna að bát sínum, eða eins og hress bóndi sem gengur frjáls eins og fuglinn út í fjárhús til gegninga. Þessi maður er þekktur fyrir lítillæti og hógværð. Svo hófst messan fyrir alvöru.

Það er upplifun að vera við messu í guðshúsi sem er byggt á tímabilinu fyrir 550 til 750 árum, guðshúsi sem er svo ótrúlega veglegt. Þeir sem gerðu það mögulegt á þeim árum hljóta að hafa verið leiddir af einhverju æðra afli. Annað er óhugsandi. Svo var lesið upphaf Jóhannesarguðspjallsins. Það er sama saga þar. Sá sem skrifaði það hlýtur að hafa verið í snertingu við æðri máttarvöld þegar hann gerði það. Kórar sungu, textar voru lesnir og bænir beðnar, æðsti biskup landsins predikaði. Svo var altarisganga þar sem fjöldi presta gerði öllum kirkjugestum mögulegt að ganga til altaris. Við Valdís gengum til altaris í kirkjunni sem við skoðuðum hugfangin með gestum okkar sumarið 1996. Við fengum við oblátuna úr hendi æðsta biskupsins sem gekk eins og bæði sjómaður og bóndi.

Þegar kirkjan var opnuð eftir messu beið þar úti fjöldi fólks sem ætlaði inn að skoða. Við Valdís gengum þá einn auka hring um ytri súlnagöng kirkjunnar. Þar voru all stórar uglur í risa stórri gólfhellu bak við altarið. Þar var líka stytta af Maríu í hversdagslegum fötum sem var svo ótrúlega lík lifadi konu að fólki næstum hnykkti við og margir voru í vafa. Sumum var svo starsýnt á styttuna að þeir næstum duttu um uglurnar í gólfinu. Maðurinn sem gerð þessa styttu hlýtur líka að hafa verið í snertingu við alheiminn þegar hann gerði hana.

Svo gengum við heim á leið. Þegar við komum heim til Rósu, Péturs og Hannesar Guðjóns beið okkar síðbúinn auka morgunverður, mikið góður morgunverður. Það var margt að spjalla og ýmislegt að segja frá úr kirkjunni. Hannes Guðjón var með í þessu líka. Hann brosti, hló og hjalaði. Hann grét svolítið líka, horfði út um gluggann með afa, horfði á pabba sinn kveikja á kertunum á englaspilinu og hló beint í andlitið á ömmu. Svo þurfti hann að leggja sig og þá var mamma best.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0