Hvað gerir lífið þess virði að lifa því?

"Sjáðu út á handrið" sagði Valdís í morgun. Og ég leit út á handrið og sá hvernig snjórinn hafði lagt sig mjúklega á handriðið og hvíldi þar svo eðlilega og möglunarlaust. Bara var þar. Þá kviknaði hugmynd að því sem ég blogga nú og ég ákvað að taka mynd af snjónum á handriðinu. Stuttu síðar sá ég hvar Valdís gekk með myndavélina út í svaladyrnar til að taka mynda af snjónum sem hafði lag á að láta fara svo undur vel um sig á mjóu og hálf kringlóttu svalahandriðinu. Þarna sýndu nátturulögmálin eiginleika sína á einhvern undursamlegan hátt.


Í níu fréttunum í sjónvarpinu var sagt frá 20 kílómetra löngum jarðgöngum sem eiga að taka umferð sem fer af héruðunum sunnan við Stokkhólm til svæðanna norðan við Stokkhólm og öfugt. Alveg gífurleg umferð sem á þar með að hverfa af stóru vegunum gegnum borgina, en í dag finnst engin önnur leið. En nú er komið babb í bátinn. Samkvæmt útreikningum verður svo mikil mengun niður í þessum göngum að viðkvæmu fólki sem fer þar um mun verða hætt við hjártaáfalli eða andnauð ef ekki hvoru tveggja. Það er reyndar ekki afgasið sem verður höfuð bófinn, heldur nagladekkin sem rífa upp svo mikið magn af alveg salla fínu ryki. Síðan voru sýndar myndir af umferð eins og hún er í dag á stóru vegunum sem á að rýma að hluta með göngunum, og það var ógurlegt að sjá. Auðvitað hafa myndirnar verið teknar á há annatímum -en samt.

Eftir fréttatímann talaði þáttastjórnandi við mann og konu sem voru tæplega á miðjum aldri og þekktu ekki hvort annað. Þessi þáttur fjallaði um ofneyslu. Maðurinn hafði lengi verið mjög meðvitaður um samband neyslu og umhverfis og lifði samkvæmt því. Konan hafði aftur að segja sögu frá síðastliðnu vori þegar dóttir hennar átti að semja erindi um nákvæmlega þá hluti sem manninum voru orðnir eðlislægir. Bekkur stúlkunnar átti með samtali við foreldrana að semja erindi þar sem þau síðan skyldu fræða hvert annað um umhverfismál út frá hugsunarhætti foreldranna. Þegar stúlkan hafði um stund reynt að tala við mömmu sína um viðhorf hennar til neyslu og umhverfis, þá hreinlega fór hún að stórgráta og sagðist ekki fara í skólann. Mamma hennar var nefnilega nsyslufrík. Þetta vakti hana til umhugsunar. Hún fór að velta því fyrir sér hað gerði lífið þess virði að lifa því.

Í kvöld fer ég á jólaborð með starfsfólkinu í Vornesi. Þá kem ég til með að aka einkabílnum okkar 58 kílómetra til að borða lax og síld. Ég er nefnilega alltaf mettur þegar ég er búinn að borða fiskréttina. Samtals 116 kílómetrar til að borða! Ég hef það þrennt mér til afsökunar að við Ingemar ökum báðir á mínum bíl, ég er ekki á nagladekkum og bíllinn brennir etanol. Við Ingemar ökum gjarnan saman og réttum svo hvor öðrum 50 eða 100 krónur til að vera samábyrgir. Mikið vantar samt á að ég lifi nægjanlega samkvæmt minni bestu vitund. Þó að ég noti etanol á bílinn spúi ég samt mikilli eimyrju út í gufuhvolfið og eitra þar með loftið sem barnabörnin mín skulu síðar anda að sér. Svo ætla ég að fara að vinna um áramót og aka samtals 126 kílómetra til að vinna tæpa tvo sólarhringa í hverri törn. "Ei við eina fjöl er ég felldur" eins og Sigurður Þórarinsson segir í ljóði sínu. Ég er ekki stoltur af að keyra mikið.

Suður í Kaupmannahöfn á alþjóða umhverfisráðstefnu gengur ekki sem skyldi. Þar arga menn hver á annan að ef þú gerir ekki þetta líka þá geri ég það ekki heldur og þá getum við bara öll drepist. Að vísu er það ekki svo illa. Menn leystu á sínum tíma þetta með ózonlagið og nú er það á batavegi. Svo er annað. Við erum undir smásjánni ef okkur ekki tekst sjálfum. Ég er í hópi þeirra manna sem ekki sjá Jörðina okkar sem einhvern skynlausan efnishlunk. Þegar henni verður nóg boðið kemur hún til með að láta okkur vita og þá gleymum við því ekki framar.

Auðvitað tekst okkur. Þá verða barnabörnin okkar hamingjusamari yfir betri heimi. Snjórinn getur haldið áfram að stoppa við á handriði eða trjágrein og hvíla þar svo undur fallega þangað náttúran segir; nú er nóg komið. Það er mál að vakna. Svo hlýnar, snjórinn dropar niður og fer út í hringrásina á ný. Vorið kemur eins og því er eðlilegt og rósin og morgunfrúin springa út á réttum tíma. Eikur, beykitré og birki breiða út laufkrónur sínar, drekka vatnið sem draup niður, hirða úrgangsefni úr loftinu og skila fersku súrefni handa okkur til að draga niðurn í lungun.

". . . er ekki tilveran dásamleg." Svo endaði Sigurður Þórsmerkurljóðið.


Kommentarer
Rósa

Þetta verður fínt þarna í Köben. Svanda er þar. Hún reddar þessu.



Kveðja,



R

2009-12-16 @ 15:22:16
Guðjón

Mér líkar þessi umsögn Rósa. Já, það eru töggur í henni enda kemur hún við kaunin hjá sumum. Hún verður skráð sem sögulegur umhverfisbótasinni síðar meir og menn verða henni þakklátir fyrir að þora. Hún er viss með að taka einhverja í gegn í Köpen.



Kveðja,



pabbi

2009-12-16 @ 15:34:48
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0