Á ferð um Suðurbæjarengið og Fjósengið

Sörbyängen = Suðurbæjarengið
Ladugårdsängen = Fjósengið

Þetta eru annars vegar gömul rennslétt akurlönd og hins vegar tveir bæjarhlutar í Örebro og þýðingin er hárrétt. Annars er vafasamt að vera að þýða viss nöfn og svo eru önnur nöfn sem ekki er hægt að þýða vegna þess að þau þýða ekkert sérstakt, alla vega ekki í skilningi almennings í dag. Ég gæti líka sagt Aurabrú í staðinn fyrir Örebro en þá mundi enginn skilja hvað ég væri að fara. Þetta tal um Örebro minnir mig á það sem hún Lena sagði okkur Valdísi frá yfir jólaborðinu í kirkjunni í fyrradag. Lena þessi er kennari í Örebro. Hún var á námskeiði í Noregi og þar var einnig íslensk kona og sú spurði Lenu hvar hún byggi í Svíþjóð. Lena hugsaði sem svo að það væri best að miða við stærstu staðina í landinu ef íslenska konan ætti að fá eitthvað út úr svarinu. Hún svaraði því að hún ætti heima í borg sem væri svo sem mitt á milli Stokkhólms og Gautaborgar. Íslenska konan spurði þá hreint út hvað þessi borg héti. Já, Lena sagði að hún héti Örebro. Já já, svaraði sú íslenska, þar hef ég búið í sjö ár.

Klukkan tíu lagði ég upp með báðar hækjurnar mínar og gekk út á Suðurbæjarengið með stefnu til vesturs á Fjósengið. Borgin var svo rausnarleg í sumar og haust að leggja dálítið hlykkjóttan malbikaðan veg eftir þessum engjum endilöngum ásamt fáeinum þvervegum líka. Það á ekki að byggja alveg á næstunni á þessum rennsléttu fyrrverandi akurlöndum, en næsta sumar stendur til að þarna safnist saman yfir 20 000 manns sem verða þáttakendur í einhverjum feikna stórum ratleik. Ég kann svo sem ekki mikil skil á þessu með ratleiki en svíar eru alveg uppteknir af því. En þessir nýju vegir á engjunum gefa göngufólki alveg frábæran möguleika til gönguferða.

Fyrir fáeinum vikum þegar ég var þarna á ferð sá ég hvar spengilegur maður, beinn í baki og gekki hratt með sína göngustafi (skíðastafi). Ég hugsaði sem svo að þarna væri jafnaldri minn, en mikið rosalega var kallinn reffilegur. Svo mættumst við nákvæmlega þar sem gömul gönguleið lá þvert yfir nýja malbikaða veginn. Það leyndi sér ekki síðasta spölinn að við vorum báðir ákveðnir í að tala saman þegar við mættumst. Það var hálfgerður kuldanæðingur og sultardroparnir sóttu niður á nefbroddinn þannig að við bárum handarbökin upp eð nefjunum þegar við byrjuðum að tala saman. Svo stóðum við svolitla stund á gatnamótunum og ræddum svolítið hvor um annan. Hann var á dálítilli hraðferð því að konan var lasin heima. Hún er alltaf lasin sagði hann. Sjálfur sagðist hann hafa lent í tveimur umferðaóhöppum á seinni árum og það bagaði hann nokkuð. Svo kom fram að hann var gamall íþróttamaður og var meðal annars skíðastökkvari. Ég hugsaði bara til ferða minna upp í stökkpallinn í Falun þar sem maður fer upp um gríðarlegan sívalning í lyftu. Og að horfa svo niður brautina og hugsa sér að menn renni sér þarna niður á fullri ferð á skíðum, það fær mig bara til að svitna. Síðustu árin var hann dómari í þessari, mér liggur við að segja rosalegu íþróttagrein, þar sem menn svífa í loftinu yfir 100 metra. Nú gat ég ekki annað en spurt hann eftir aldri. Ja, ekkert unglamb sagðist hann vera, hann væri 83 ára. Það var ekkert annað, þú gætir verið pabbi minn datt út úr mér. Hann hló. Veistu, ég tók dómaraprófið mitt upp í Falun svo að ég þekki vel til þar.

Svo gengum við áleiðis að bæjarhlutanum Fjósenginu þar sem hann sagðist búa. Veistu hvar heilsugæslustöðin er? Ég á heima í nýlega húsinu sem er næstum beint á móti heilsugæslustöðinni. Konan er lasin. Það eru nokkrir hryggjarliðir sem hafa tærst svo mikið og hún hefur stöðugan óþolandi verk. Því er hún á sterkum verkjalyfjum, sterkum skilurðu. Hún situr oft og horfir bara beint fram fyrir sig. En það er betra en að hafa þessa stöðugu verki. Núna verð ég að flýta mér því að við stoppuðum það lengi áðan. Hún er sjálfsagt orðin hissa.

Ég fann fyrir sorginni í þessum ókunnuga manni sem varla þekkti lengur konuna sem hann hafði verið giftur í nær 60 ár. Ég fann sjálfur fyrir sorginni hans. Í gær hitti ég hann aftur á öðrum stað. Það var eins og okkur hefði verið stefnt saman á gatnamótum. Við gengum saman einn hálfan kílómeter. Ég byrjaði daginn á góðri gönguferð sagði hann. Svo þreif ég bakarofninn og eldavélina og svólítið meira og svo fór ég í aðra gönguferð. Það er nauðsynlegt fyrir mig að gera það. Svo ætla ég að halda áfram að þrífa þegar ég kem heim. Þú veist hvar heilsugæslustöðin er eða hvað? Ég á heima í nýja húsinu sem er næstum beint á móti heilsugæslustöðinni.

Og ég veit ekki hvað hann heitir.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0