Skipulagslaus

Það er minna en 20 dagar þangað sólin fer á hækka á lofti á ný. Í dag skruppum við Valdís á Sólvelli og hvers urðum við vísari þar? Jú, sunnan undir húsgaflinum var ný útsprungin rós. Fólk er nú í óða önn að skrifa jólakort og fara á jólaborð og þó að dagarnir séu svo óttalega stuttir sem þeir eru í desember, þá veit náttúran ekki sitt rjúkandi ráð og morgunfrúr og rósir springa út.

Á leiðinni heim litum við inn í IKEA í Marieberg. Þar utan við er bílastæði af þeirri stærð sem minnir helst á flugvöll. Það fundust nokkur laus stæði svo langt frá aðalinnganginum að þar vill helst enginn leggja. Það skipti okkur ekki svo miklu máli þar sem við ætluðum inn um útganginn. Þrátt fyrir mikinn aragrúa fólks þar inni var engin biðröð við kassana þannig að við áætluðum að fólk væri ekki endilega í verslunarferð í IKEA, heldur í skemmtiferð. En það er kannski ekki verri skemmtiferð en hvað annað. Og svo þetta sem ég ætlaði helst ekkert að segja frá; við borðuðum síðbúinn hádegismat þar í stórversluninni. Við erum ekki vön að borða í þessari stórmiðstöð mammons. Ég er að velta því fyrir mér núna hvers vegna ég sé að bulla um það og kemst að þeirri niðurstöðu að ég sé orðinn þreyttur og syfjaður og þá veit ég að mér verður lausara um tungutak þegar um er að ræða eitthvað sem ég ætla að þegja yfir. En hvað um það, gravlaxinn sem ég borðaði var góður og Valdís dáðist að kjötbollunum. Út fórum við svo með klósettrúlluhaldara sem ég held að best verði að skila aftur því að hann passar ekki fyrir gömlu skrúfugötin og ég tími ekki að bora ný göt í baðvegginn.

Ég er búinn að vera óskipulagður seinni partinn í dag og litlu komið í verk. Ég hef eiginlega ekki fundið að það sé neitt sem ég þarf að ljúka við en veit þó að það er ekki rétt þar sem allt annað var á teningnum í morgun. Þó að klukkan sé að ganga ellefu er nú Valdís í gangi með eitthvað við frammi við matborðið. Ég held svei mér þá að hún sé að ganga frá jólapakka, heyrist það á öllu. Hún er búin að horfa á þátt í sjónvarpinu sem heitir danshljómsveitakeppnin. Þar var leikið mikið af tjúttlögum og vangadönsum og ég settist um stund til að fylgjast með en sofnaði bara í stólnum. Þá líkaði mér það ekki svo að ég reisti mig upp og skoraði á sjálfan mig að blogga til að gefa mig ekki skipulagsleysinu algerlega á vald. Nú er það gert og ég veit að þegar ég leggst á koddann verð ég fljótlega var nálægðar Óla lokbrá. Ég er ekki viss um að ég lesi neitt um Bjart í Sumarhúsum í kvöld. Hann hefur verið óvæginn við fólkið sitt undanfarið og ég hef verið reiður út í óbilgirni hans. En það er þannig með þessa bók að síða eftir síða fjallar um tilbreytingarleysi í umræðu, óbilgirni, harðræði og illkvitni. Svo koma síður þar sem fjallað er um það allra fínasta sem á sér stað meðal fólks. Þannig voru síðustu síðurnar sem ég las í gærkvöldi. Það voru fallegar, heimspekilegar umræður milli mömmu og Nonna litla og þó að mamma væri alltaf þreytt gaf hún Nonna þennan tíma. Svo hallaði hann höfðinu að brjósti mömmu og hlustaði á hjarta hennar slá.


Kommentarer
Markku

Hej Gudjon,

Ja du Marieberg och IKEA i December, jag brukar heller inte vara där speciellt ofta, men de gånger det händer, är det alltid intressant att studera människor, DET är inte direkt platsen där det "finaste av allt sker mellan människor", det som händer i din bok ;) Hittade lite bilder som mycket väl stämmer med begreppet - en bild säger mer än tusen ord - fantastiska bilder som säger en hel del om människans förhållande till varandra och till världen. Bilder värda att begrunda.



http://www.noupe.com/photography/35-powerful-photos-that-each-tells-a-story.html

2009-12-06 @ 11:55:02
URL: http://www.kanala.se
Guðjón

Ja, Markku, vad säger man när man har tittat på dessa bilder? Mycket starka bilder. Man kan helt enkelt börja gråta. Jag kommer, tror jag, att kopiera länken och så får de följa med i min nästa blogg. Tack för din kommentar.



Mvh från Gudjon

2009-12-06 @ 12:35:48
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0