Aftur í Lindesberg

Í dag ætla ég að gera að umtalsefni ferðir á sjúkrahúsið í Lindesberg. Viku áður en ég fór í mjaðmaaðgerð mína fór ég í undirbúningsferð uppeftir og var það raunar önnur undirbúningsferðin þangað. Í þessari ferð númer tvö hafði hjúkrunarkona all ítarlegt samtal við mig ásamt því að ég hitti iðjuþjálfa og sjúkraþjálfa. Ég kom svolítið seint inn á sjúkrahúsið þá, því að mér tókst að villast aðeins í þessum litla bæ, Lindesberg. Þegar ég svo komst á leiðarenda nálgaðist deild 3 á annarri hæð á töluverðri ferð, mætti ég þar í gangi konu sem var væntanlega á fimmtugsaldri. Hún var þá komin á stúfana að leita að mér, en þetta var þá hjúkrunarkonan sem átti að hafa samtalið við mig. Þetta var falleg kona í öllu útliti, þægileg í viðmóti og framkoman þess eðlis að ég fann samstundis fyrir virðingu fyrir henni. Það var þó eitt sem gerði mig, gamaldags kallinn, undrandi varðandi þessa konu. Hún var með litað hár, nánast hvítt, en þó ekki hvítt eins og á gamalmenni. Það var enn hvítara en svo. Skuggar af einhverjum litum voru í því líka. Svo var hárið úfið. Það stóð óreglulega í allar áttir, sums staðar í lokkum og annars staðar hár fyrir hár. En ég lét þetta ekki hafa áhrif á mig, heldur var það hið góða fas hennar sem gerði þennan fund okkar góðan. Ég var þakklátur fyrir það og þurfti á því að halda. Eftir þetta samtal þurfti ég að bíða í tvo tíma eftir því að hitta þau hin sem ég átti að hitta og þá fór ég á kaffiterðíu sjúkrahússins og fékk mér væna brauðsneið og kaffi.

Í gær viltist ég ekki. Ég kom vel í tíma eins og mér bar og það var byrjað á að taka blóðprufur í nokkur glös. Síðan gekk ég inn á deild 3 og hjúkrunarfræðingur á mínum aldri mætti mér af tilviljun. Þetta var rífandi hress kona, glaðleg og reiðubúin að spjalla svolítið. Hún heilsaði mig velkominn og virtist gruna í hvaða erindagjörðum ég var þarna. Þarna var ég kunnugur og ég spurði hvort ég mætti ekki bíða í litla matsalnum og hún hélt nú það, spurði hvort ég vildi ekki kaffi og bollu. Jú takk, og hún vildi endilega koma sjálf með kaffið og bolluna til mín. Ég vinn hér bara dag og dag útskýrði hún, og það gaf skýringu á því hvers vegna ég hafði ekki séð hana þegar ég var þarna innskrifaður. Ég hugsaði að hún gerði eins og ég, ynni dag og dag ellilífeyrisþeginn, og auk þess að auka tekjurnar sínar svolítið að hitta fólk og gamla vinnufélaga. Þú átt væntanlega að hitta Margareta Vilhelmsson talaði hún um og ég játti því. Hún kemur nú rétt bráðum skaltu vita og drekktu bara kaffið þitt í rólegheitum. Fín kelling, hugsaði ég.

Klukkan nákvæmlega níu, alveg eins og stóð í bréfinu sem ég hafði fengið, gekk inn Margareta Vilhelmsson hjúkrunarfræðingur og kynnti sig. Margareta var rúmlega meðal há, trúlega nokkuð yfir fertugt, með dökkskollitað frekar stuttklippt hár sem féll fallega að höfðinu, og umfram allt þægileg í viðmóti eins og allt fólk sem ég hafði hitt á þessu sjúkrahúsi. Þetta var glæsileg, falleg kona, og ellilífeyrisþeginn ég fann næstum fyrir stolti yfir að ganga henni við hlið þarna eftir rúmgóðum ganginum.

Í samtalsherberginu svaraði ég helling af spurningum og Margareta sagði oft, rosa fínt, virkilega fínt og fleira í þá áttina. Svo lét hún mig standa á öðrum fæti, bæði í fríska og viðgerða fótinn og hún lét mig leggjast útaf og gera ýmsar hreyfingar til að sjá hvort ég væri stirður. Að lokum fékk ég að heyra niðurstöðuna sem var á þá leið að ég væri í alveg sérstaklega góðu standi svo stuttu eftir aðgerðina. Ég verð nú að viðurkenna að þetta gladdi mig og styrkti mig í því að ég hefði gert þá hluti rétt sem mér voru ráðlagðir við úskriftina tveimur mánuðum áður. Svo fékk ég að vita að það hefði ekki fundist ögn af brjóski eftir í liðnum þegar aðgerðin var gerð.

Ég gekk framhjá kaffiteríunni og leist vel á brauðsneiðarnar þar en ákvað að fara heldur heim og gera brauðsneið handa mér sjálfur. Svo ók ég af stað. Ég var mjög ánægður með þessa skoðun sem ég hafði frarið í og get ekki neitað því að umsögn Margareta gladdi mig og var mér mikil hvatning. Svo hugsaði ég út í eitt sem hún hafði sagt. Hún nefnilega talaði um að hún sæi mikið jákvætt í starfi sínu. Nokkurn veginn orðrétt sagði hún að hún hefði samtöl við bókstaflega alla sem færu í aðgerð svo sem viku áður. Og svo hef ég viðtöl eftir tvo mánuði eins og ég hef haft við þig núna.

Jaaaaá. Fattarinn í mér stendur stundum á sér. Þarna í bílnum skildi ég allt í einu að konan með hvítmálaða hárið sem hafði haft viðtal við mig viku fyrir aðgerð var líka Margareta. Rosalega hafði hún platað mig. En það verð ég að segja að dökka hárið fór henni mikið betur -að mínu mati.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0