Uppsala á morgun

Um hádegisbil á morgun höldum við Valdís af stað til Uppsala. Nú þegar Rósa og fjölskylda eru flutt þangað verður gaman að sjá hvernig þau hafa komið sér fyrir. Og að hitta hann Hannes Guðjón, það verður alveg stórskemmtilegt. Í Uppsala verðum við um jól og Valdís kannski um áramót, en ég vinn um áramótin. Þar með er ég búinn að gefa skýrslu um þessi mál og öll þið sem viljið líta inn og athuga hvort það sé til á konnunni verða bara að líta við í Uppsala.

Ég man ekki betur en það hafi verið þannig í Hrísey fyrir sjónvarp að fólk hafi bankað á útidyrnar, gjarnan opnað sjálft og kallað inn; er til kaffi. Og alltaf var til kaffi og nóg að spjalla um. Ég man ekki betur en það hafi líka verið til með kaffinu. Svo kom sjónvarp og þá gekk þetta bara á fimmtudögum og svo kom sjónvarp á fimmtudögum og þar með var draumurinn búinn. Ef ég fer með rangt mál, þá vonast ég til að einhver leiðrétti mig.

Í dag skiptir sjónvarpið ekki lengur máli sem betur fer en við bíðum þó eftir því að ábúendur opni sjálfir. Í dag fór ég á Sólvelli til að líta yfir og til að setja við í nokkra poka sem við ætlum að gefa vinkonu Rósu í Stokkhólmi. Hún er ekki bara vinkona, heldur hefur hún verið nágranni Rósu og Péturs í þó nokkur ár. Ég held að þar hafi ekki þurft að tilkynna um komu sína, það hafi verið í lagi að banka upp á án fyrirvara.

En í þessari Sólvallaferð leit ég inn hjá nágrönnum okkar, hjónum á þrítugs aldri með tvær litlar dætur. Maðurinn var í vinnu en konan var að baka pönnukökur og dæturnar, Siv og Alma, sjö mánaða og þriggja ára, voru á viðeigandi stólum eins nálægt og hægt var og töldu sig vera að hjálpa mömmu. Þegar ég sagði henni að við værum að fara til Uppsala á morgun og yrðum þar yfir jól, spurði hún hvort þau ættu að hafa auga með húsinu okkar. Svo bætti hún við að það gerðu þau reyndar alltaf hvort sem væri þegar við værum ekki þar. Við vitum að þau gera það og við lítum einhvern veginn sjálfkrafa eftir hvert hjá öðru þarfna þegar fólk er ekki heima. Þessir ungu nágrannar okkar ganga öðru hvoru yfir til okkar þegar þau sjá okkur á stjái og hafa sagt okkur að gera slíkt hið sama en við erum lélegri við það en þau.

Hún bað að heilsa Rósu og Pétri og auðvitað honum nafna þínum sagði hún og hló. Svo spurði hún hvort það væri ekki í lagi að segja bara Peter eins og svíar gera. Það væri svolítið snúið að segja Pétur. Ég taldi það væri ekkert vandamál að þau segðu Peter, hann mundi fyrirgefa það. Þau kynntust Rósu og Pétri þegar þau dvöldu á Sólvöllum í sumar. Hún var alveg viss um að Pétur væri sænskur þó að hann héti þessu nafni. Svo tók hún við lykli að Sólvöllum og kvaddi ósköp innilega þegar ég fór. Góðir nágrannar hugsaði ég og bretti húfunni yfir eyrun þegar ég kom út. Það var sjö stiga frost og kaldanæðingur en pönnukökulyktin fylgdi mér út í bílinn.

Það var fimmkvennamatur hjá Valdísi í dag. Valdís var stór sniðug. Hún bauð upp á hangikjöt, hvíta sósu, kartöflur og laufabrauð, bara ekta íslenskan jólamat. Ein þeirra var hrædd við hangikjötið þegar hún vissi að það væri af lambi. Þessi finnska kona var viss um að lambakjöt hefði ullarbragð. Hún trúði einhverju sem hún hafði aldrei prufað. En svo voru þær svona líka hrifnar af matnum og ein þeirra borðaði yfir sig. Þegar maturinn var farinn að sjatna fengu þær vínartertu og brúntertu hjá Valdísi. Hún er ennþá þessi búkona eins og fyrir sjónvarp, hún lumar á brauði í dunkum.


Kommentarer
Valgerður

Oh hvað það hefur verið kósý hjá þeim kellunum í hangikjöti og alles.

Kv

Valgerður

2009-12-18 @ 13:12:38


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0