Get ég bara sofið alveg endalaust?

Þvílíkur svefn. Ég er búinn að sofa á níunda tíma mína fyrstu nótt í Uppsala. Alveg makalaust. Einhvern tíma í nótt þurfti Valdís að skreppa fram. Heima og á Sólvöllum förum við út úr svefnherberginju til hægri fótagafls megin. Nú fór Valdís fram til vinstri höfðagafls megin. Ég rumskaði aðeins þegar hún fór fram og skildi ekkert í þessu. Var það virkilega svo að það lá leið fram á bað gegnum fataskápinn? Svo hafði ég ekki frekari áhuga á því, heldur hvað mér leið notalega í rúminu og það var enginn verkur í fætinum. Ég er enn að dást að því. Svo teygði ég aðeins úr fætinum og fannst eins og ég fyndi batatilfinninguna ennþá hríslast um hann núna þremur mánuðum eftir aðgerð. Mig langaði svo sannarlega að mala eins og köttur og svo er það oft undanfarið. Svo var ég sofnaður áður en Valdís kom til baka af snyrtingunni. Það var ekki fyrr en í morgun sem ég áttaði mig á því að það eru ekki endilega öll herbergi eins og heima. Valdís fór alls ekki gegnum fataskápinn þegar hún fór á snyrtinguna í nótt, heldur bara venjulega hurð sem er á öllum herbergjum.

Ég er góður að vita áttir og það hjálpaði mér við að komast á leiðarenda í gær. En hér inni er ég alveg kolringlaður á bæði áttum og herbergjaskipan. Svo þegar ég lít út um glugga og sé Uppsaladómkirkju, þá
fæ ég staðfestingu á réttum áttum mínum. Svo sný ég mér við og horfi inn í íbúðina og allt er samstundis farið  í rugl í kollinum á mér.

Það er dálítið frost hér í dag, sjö til níu stig. Í gær var mun meira frost og þegar við vorum á leiðinni hingað var frostið 13 til 16 stig. Ég læt hér fylgja tvær vetrarmyndir frá Uppsala, báðar teknar út um stofugluggann.

Þessi mynd er tekin til vesturs af nokkuð gömlum kastala. Ég get ímyndað mér að hann taki sig vel út þegar hann verður innrammaður af blaðgrænu næsta sumar.

Brúin þarna niðri heitir Íslandsbrúin og þessi mynd er líka tekin út um stofugluggann. Merkilegt að Uppsalabúar skyldu vita svo snemma að Íslendingar kæmu til með að búa í næsta nágrenni við brúna. Í hvarfi við brúna er svo foss sem heitir Íslandsfoss. Kannski nær því að vera foss en flúðir.

Svo er að sjálfsögðu það mikilvægasta eftir, en það er að gefa svolitla skýrslu um hann nafna minn. Hver veit hvað ég geri seinna í kvöld, en núna ætlum við Pétur að skreppa að ákveðinni Ica verslun hér í bæ, en þar ætlar Íslenskur kaupmaður að afgreiða íslenskar vörur til fólks sem áður hefur lagt inn hjá honum jólapöntunina, Þ e a s ýsu, appelsín, malt, skötu, lambakjöt ofl ofl


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0