Aðfangadagur í Uppsala

Klukkan var upp úr tíu í morgun þegar Rósa og Pétur fóru út i gönguferð með drenginn sinn. Ég tók að mér að vera mjólkurpósturinn og fór því í Hemköp og keypti mjólk. Valdís vildi vera heima og byrja að elda  mjólkurgrautinn og þegar ég var að fara út úr dyrunum merkti ég að hún ætlaði líka að skúra. Það voru örfáir á ferli og þeir sem voru í aðal verslunargötunni virtust hafa allan tíma í veröldinni. Mjólkurgrautirinn var afar góður hjá Valdísi og rúsínur voru í honum líka. Rjómaögn leyndist líka á borðinu og ekki var það verra. Svo var bankað á dyrnar. Þar var vinnufélagi Rósu sem ætlaði bara aðeins að líta inn. Svo fékk hann sér graut líka og svo fékk hann sér ábót en hann fékk ekki möndluna. Hana fékk Rósa og svo bauð hún upp á konfekt með kaffinu á eftir.


Klukkan var langt gengin í þrjú. Niður á Fyresánni hringsóluðu stokkendur af báðum kynjum. Stundum eltu þær hver aðra og svo stakk einhver þeirra nefinu í ána og kippti því svo upp svo að vatn slettist. Þá hættu þær eltingaleiknum þangað til þær byrjuðu aftur. Einstaka kom og einstaka fór. Þetta var beint undir stofuglugganum. Innan við stofugluggann voru afi og litli drengurinn nafni hans. Drengnum fannst svo gaman að horfa út um gluggann. Svo kom mamma og kveikti á englaspilinu þar sem það stóð á gluggabekknum. Þegar það fór að snúast fluttist athygli drengsins að því. Það var einn heimur utan við gluggann þar sem endurnar héldu áfram að hringsóla og einstaka manneskja gekk meðfram ánni. Annar heimur var innan við gluggann þar sem lítill drengur sat á hné afa og horfði hugfanginn á englaspilið. Mamma og pabbi pökkuðu inn einhverju í jólapappír og afi mátti ekki líta við. Amma var enn í eldhúsinu eitthvað að fást við mat. Hangikjötslyktin hafði þegar fyllt íbúðina. Svo varð drengurinn þreyttur og fór inn í herbergi í fangi mömmu. Pabbinn tók nú yfir við eldhúsbekkinn og amma fann sér annað að sýsla við. Afi fór út með ruslið.

Rökkrið hafði lagst mjúklega yfir þegar afi smeygði ruslapokanum inn í ruslaskápinn. Að horfa upp götuna sem liggur upp frá ánni sást ekki ein einasta manneskja á ferli. Suður með ánni gekk ungt par þétt upp að hvort öðru haldandi í hendur. Hinu megin við ána var ein manneskja, líka á suðurleið. Bíll kom sunnan að og fór svo til vinstri yfir Íslandsbrúna og það var engu líkara en honum fyndist óviðeigandi að vera á ferð. Þegar ég sneri við til að fara til baka eftir könnun mína við ána kom þeldökk kona á hjóli með hettuna á vetrarjakkanum uppbretta. Það var ótrúlega hljótt þarna um fjögurleytið nánast í miðbænum í 130 000 manna borg.



Kommentarer
Valgerður

En munið þið hvernig grjónagrauturinn kom til?

Hann elduðum við Kiddi bróðir saman í hádegi á aðfangadag því það var svo mikið að snúast í undirbúningi jólanna og okkur fannst að það ætti "sko" að gefa okkur að borða, líka þá þó mikið stæði til. Þess vegna elduðum við okkur graut eitt árið og síðan varð það að hefð. Grjónagrauturinn á laugardögum var rúsínulaus en á aðfangadag var hann með rúsínum og mandlan kom fyrsta eða annað árið sem þetta var gert. Verði ykkur að góðu af grautnum.

Valgerður

2009-12-24 @ 17:14:45
Guðjón Björnsson

Þetta er skemmtileg saga af grautargerðinni. Verði ykkur að góðu líka.



Kveðja og jólaóskir frá okkur hér

2009-12-24 @ 17:33:41
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0