Þjóðarhagur eða flokkshagur

Það er kreppa í öllum löndum segir fólk og það er kannski orð að sönnu. Hins vegar er þetta og síðasta ár hin bestu fyrir okkur Valdísi síðan við komum til Svíþjóðar fyrir 15 árum ef við miðum við sameiginlegar tekjur okkar hér í landi. Hægri stjórnin hér verðlaunar ellilífeyrisþega fyrir að vinna og ég hef unnið talsvert mikið eftir að ég varð ellilífeyrisþegi og haft góðar tekjur. Það kemur líka til með að hækka sænsku ellilaunin mín í framtíðinni. Íslensku lífeyristekjurnar hafa hins vegar lækkað um 50 % á tæplega tveimur síðustu árum vegna falls íslensku krónunnar. Ég get haft góðar tekjur í Svíþjóð svo lengi sem ég nenni að vinna sem ellilífeyrisþegi en íslensku tekjurnar verða léttar á vogarskálinni næstu árin.

Alvarlegur og kurteis bankamaður heimsótti okkur á Sólvelli sumarið 2008. Ég vildi ekki vera ókurteis en spurði þó hversu lengi við gætum verið róleg með peninga sem við áttum á Íslandi. Þessari spurningu er erfitt að svara, sagði hann, en fjármálakerfið mun einhvern tíma springa, springa vegna þess að menn gera hluti sem bara geta ekki annað en leitt til mikilla óheilla. Ég hugsaði sem svo að ef ég fylgdist vel með mundi ég finna á mér þegar hættan nálgaðist. Svo sprakk það og það skeði eiginlega á einni nóttu og ég var algerlega óviðbúinn og peningarnir eru ennþá á Íslandi. Einhvers staðar undir niðri hafði kraumað kraftur hins illa.

Á Alþingi íslendinga var einn maður statt og stöðugt að ergja þingheim með því að siglt væri að feigðarósi. Hann var alveg öruggur með það að fjármálastefnan íslenska mundi tröllríða efnahag þjóðarinnar og færa mikla ógæfu yfir landslýð. Hann var kallaður svartsýnismaður, bölsýnismaður og margir undruðust hvort hann væri ekki sjálfur orðinn þreyttur á sinni inngrónu neikvæðni. Þessi maður heitir Steingrímur J Sigfússon. Í bók sem hann ritaði, Við öll, íslenskt velferðarsamfélag á tímamótum, sagði hann eftirfarandi: "Skuldir íslenskra heimila eru komnar yfir 200% af ráðstöfunartekjum og eru þar með einhverjar hinar mestu sem fyrir finnast á byggðu bóli. Skuldir atvinnulífsins eru þegar orðnar svipaðar eða meiri en nokkurs staðar annars staðar þekkist, mælt í samræmdum mælikvarða."

Og svo sprakk blaðran eins og Steingrímur hafði spáð. Ég vil hér nefna fimm apparöt brugðust. Í fyrsta lagi má nefna ríkisstjórnina í heild. Síðan má nefna forsætisráðuneyti, viðskiptaráðuneyti, Fjármálaeftirlit og Seðlabanka. Forsætisráðuneytið var í höndum sjálfstæðismanna og þar með yfirverkstjórn ríkisstjórnarinnar. Allt brást og enginn var á varðbergi og enginn virtist vita neitt, kunna neitt eða geta rönd við reist.

Nú stendur yfir vinna hjá ríkisstjórn Íslands við að byggja upp íslenskan fjárhag og að vinna Íslandi traust á ný á alþjóðavetvangi. Þá bregður svo við að flokkurinn sem hafði yfirverkstjórnina í rískistjórninni á örlagatímunum, ríkisstjórninni sem enga rönd fékk við reist og hreinlega gat ekki bjargað neinu, veit nú allt og hefur ráð við öllu. Auðvitað skilja allir sem ekki eru smitaðir af einhverri óskiljanlegri, meðfæddri dýrkunarþörf á Sjálfstæðisflokknum að hér liggur fiskur undir steini. Ekkert! Ekkert! er heilagt ef hægt væri að fella núverandi ríkisstjórn, ekki einu sinni að skaða íslensku þjóðina enn meira en þegar er orðið. Enginn áróður eða ósannindi eru eru svo slæm að ekki sé hægt að ausa þeim yfir þjóðina og svo margir trúa á þetta að Sjálfstæðisflokkurinn er nú stærsti íslenski stjórnmálaflokkurinn og fer stækkandi ef eitthvað er að marka kannanir. Svo gelta dindlarnir í Framsókn með Sjálfstæðisflokki og reyna að vekja á sér eftirtekt, en Framsóknarflokkurinn ber jafn mikla ábyrgð á hruninu og Sjálfstæðisflokkur þar sem Framsókn hafði líka yfirverkstjórn á tímum einkavæðingaröldunnar. Og mitt í þessari umræðu allri stingur svo sjálfstæðismaður upp á því að einkavæða Ríkisútvarpið.

Hvert er nú hlutverk mannsins í dag, þess hins sama og spáði fyrir um hrunið og var með leiðindi á Alþingi og í fjölmiðlum? Hann meira að segja skrifaði um það bók, svo þreytandi var hann. Hann er í sömu sporum og Göran Persson á níunda áratugnum þegar bankakreppa hafði hálf limlest sænsku þjóðina. Þá hötuðu margir Göran. Hann fékk síðar mikla uppreisn æru þegar hann sagði eitt sinn í ræðu að hann gæti ekki hugsað sér að fara til dæmis til Bandaríkjanna og krjúpa þar fyrir hámenntuðum bankamönnum á þrítugs aldri og biðja þá um að bjarga Svíþjóð. Skuldugur maður er ófrjáls maður sagði hann við sama tækifæri og undir hans fjármálastjórn rétti sænskur fjárhagur úr kútnum. Hverjum dettur í hug að þær aðgerðir sem nú þarf að koma í verk af íslensku ríkisstjórninni verði sársaukalausar. Að fella Icsave samkomulagið þýðir að Ísland er eftir sem áður skuldugt um jafn háa upphæð og þar að auki gjörsneidd trausti alþjóðasamflélagsins. Margir íslendingar eru reiðir Norðurlandaþjóðunum fyrir að koma ekki Íslandi til bjargar. En þess ber bara að geta að Norðurlandaþjóðirnar eru engin klíka sem "reddar" þegar menn hafa gert ljóta hluti. Norðurlandasamstarfið er samstarf þjóða með sjálfsvirðingu.

Að lokum: Ekkert af því sem ég hef sagt hér er nýtt. Ég vildi bara sérstaklega minna á að Steingrímur J Sigfússon var sannapár. Ég vil líka segja að ég er alinn upp á sjálfstæðisheimili en það fær mig ekki til að verja það sem Sjálfstæðisflokkurinn gerir rangt.


Kommentarer
Guðrún Rósa

vel mælt :)

2009-12-06 @ 21:43:07
Guðjón

Takk Guðrún. Ég hef grun um að flestir séu búnir að gleyma þessum spám Steingríms en hins vegar hef ég grum um að stjórnarandstaðan viti vel um þær. En hún minnist ekki á það einu orði eins og gefur að skilja. Það versta er margir sem ættu að sjá sjá ekki bloggið mitt og lesa þetta ekki. En hvað um það, kveðja til þin og þínna frá okkur Valdísi.

2009-12-06 @ 23:02:30
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0