Rreiknhildur er mér ekki hagstæð

Ég hef verið skammarlega lélegur við gönguferðirnar þó nokkra undanfarna daga. Það nefnilega verður að kallast vítavert kæruleysi eftir að hafa fengið dýra aðgerð framkvæmda og hafa aðeins borgað 400 krónur sjálfur, að framfylgja ekki þeim bestu ráðum sem gefin eru til að fá sem besta heilsu með minn nýja mjaðmalið. Ég get komið með fullt af afsökunum fyrir þessari tregðu minni móti því að framfylgja góðu ráðunum, en ég bara eyði ekki tölvuplássi í það. En alla vega, um tvö leytið í dag lagði ég í hann og stikaði all stórum skrefum eins og skaftfellingi sæmir út á vellina hér suðvestan við íbúðina okkar. Valdís fór í aðra átt. Hún hjólaði áleiðis í búð til að kaupa bakstursvörur. Þegar ég hafði stikað svo sem 150 metra hringdi farsíminn í vasa mínum. Það var Valdís sem sagðist hafa komið við á heislugæslustöðinni til að athuga með flensusprautu við venjulegu flensunni eins og sagt er hér, og nú væri verið að bólusetja í óða önn sagði hún. Þá sneri ég við í átt að heilsugæslunni og þar með var gönguferð minni lokið í bili. Ég nefnilega kalla það ekki gönguferð ef það er erindi, og að fara á heilsugæslustöð í bólusetningu er vissulega erindi.

Áður en ég var bólusettur fyllti ég í ákveðið eyðublað og það er í þriðja skiptið á sex vikum sem ég staðfesti á þessu eyðublaði að ég sé ekki óléttur, en aðeins á undan staðfesti ég að ég sé maður. Sem sagt óléttur maður. Eftir bólusetninguna tók ég stefnuna út á hina víðu velli að nýju og nú var þetta aftur orðin gönguferð. Ég var frjáls eins og fuglinn þótt ég væri pínulítið stirður að byrja með, en ég fann hvernig krafturinn færðist í mig eftir því sem skrefin urðu fleiri. Ég var að gera rétt og var harð ánægður með mig.

Skömmu eftir að ég kom heim tók ég möppu ofan úr hillu, gekk að tölvunni og opnaði tölvupóst frá Tryggingastofnun ríkisins. Þar með var gleði dagsins lokið. Ég fyrirlít blöð og tölur og litlu reiknivélina. Litla reiknivélin, sem reyndar er Nokia farsími, lenti undir blaði þar sem ég var viss um að hann gæti ekki verið og svo upphófst leit. Að lokum fann ég símann en þá voru öll blöðin komin í rugling og ég fann að mér var þungt í sinni. Bakvið þetta leyndist líka grunur um að ellilífeyrir minn frá tryggingastofnun yrði svo sem ekki neitt neitt. Þegar ég var tilbúinn með áætlunina fór ég inn á Reiknhildi og áætlaði hver ellilaun mín frá Tryggingastofnun ríkisins yrðu á næsta ári. Þar með lýk ég umfjöllun um þetta mál.

Valdís stendur við eldhúsbekkinn. Hvað svo sem datt henni allt í einu í hug seint að kvöldi? Jú, að hnoða deig í eina sort af smákökum og brúna lagtertu. Ég man hér á árum áður, og þá meina ég fyrir nokkuð mörgum árum, hvað það var rosalega gott að fá sér fullt mjólkurglas og prufa svo hálf volgan baksturinn hjá konunni minni. Og það merkilega var að mér varð bara sæmilega gott af þessu í þá daga. Á seinni árum krefur þetta meiri gætni af minni hálfu. Nú er hún búin að ákveða að hnoða í hvíta lagtertu líka, vínarterta er hún víst kölluð. Það eru snöggar ákvarðanir teknar hér á þessu kvöldi.


Kommentarer
Rósa

Er konan að baka yfir sig?!?



Kveðja,



R

2009-12-08 @ 22:48:27
Guðjón

Ég var farinn að halda það, hún tók alveg rosalega törn.



Kveðja,



pabbi

2009-12-08 @ 22:54:59
URL: http://gudjon.blogg.se/
Þórlaug

Namm, ég fæ vatn í munninn :-)))

2009-12-08 @ 23:31:01
Auja

Jahá Svíarnir eru skemmtilega ruglaðir í "skriffinskunni"(léleg íslenska) en gott að fá flensusprautu. Ertu að meina svínaflensusprautu. Þær eru af skornum skammti hér á Íslandi. Þórir vinur ykkar er nú svona yfir "skömmtuninni" á Norðurlandi og þarf að taka margar frekar leiðinlegar ákvarðarðanir, hverjir eru í forgangshóp og ekki. En allavega erum við skötuhjúin örugg, vinna bæði við heilbrigðisgeirann og eru að fara til "útlanda" í þokkabót eftir 1 viku. Semsagt Suður Ameríka 17.desember til 7 janúar. Látum vita af okkur kæru vinir.

2009-12-09 @ 00:58:26
Guðjón

Já Þórlaug, þetta eru hættulegir hlutir og núna stuttu fyrir hádegi stendur Valdís við eldhúsbekkinn og fletur út terturnar og lyktin er farin að fylla út í hvert horn í íbúðinni. Ég hrokklast til og frá og er lítill kall í stöðunni.



Kveðja



Guðjón

2009-12-09 @ 11:28:24
URL: http://gudjon.blogg.se/
Guðjón

Auður, útfyllingin vegna flensubólusetningar er hálft A-4 blað í hvert skipti. Svo var meiningin að við fengjum tvær nýflensusprautur en varð bara ein á síðustu stundu þannig að ég fékk þó að fylla þrisvar sinnum út að ég væri ekki óléttur. Í gær fékk ég venjulega flensusprautu. Hann Hans Fredlund tekur ákvarðanir hér sem Þórir tekur þarna og vissulega ekki alltaf gagnrýnislaust. En nú er svo mikið bóluefni að það flæðir.



Pappírsflóð. Það sem svíarnir krefjast er bara brot af því sem Tryggingastofnun ríkisins vill hafa. Þegar einu sinni er búið að mata sænskar stofnanir eru hlutirnir í órjúfandi jafnvægi og allt gengur svo ótrúlega auðveldlega fyrir sig ár eftir ár. En tryggingastofnun þarf þetta endalausa pappírsflóð ár eftir ár eftir ár og ég er alveg hundþreyttur á svoleiðis veseni bara þegar ég sé bréf í póstinum sem hefur TR stimpilinn á sér.



Valdís bakar af þvílíkum krafti að það sjást stundum ekki á henni hendurnar.



Kveðja til ykkar Þóris frá okkur og góða ferð til Suður-Ameríku.



Guðjón

2009-12-09 @ 11:51:34
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0