Stærstu mistök Íslandssögunnar

Ég vann í Vornesi í nótt og þurfti að gera gott betur. Einn ráðgjafinn datt á rassinn á hálku og er því óvinnufær. Annar datt á skíðum og er því óvinnufær. Sá þriðji er laus í maganum og er því óvinnufær. Því fór svo í morgun þegar minn tími var kominn að fara heim að ellilífeyrisþegans var þörf. Svo hélt ég áfram að vinna.

Það var í mörgu að snúast á stuttum tíma og það var ekki fyrr en klukkan var níu mínútur yfir 12 á hádegi sem ég fór inn á Eyjuna á einni af Vornestölvunum og þar sá ég að forsetinn hafði hafnað Icesave. Mér brá harkalega vil ég segja. Síðan var matur og í svo mörgu að snúast að ég gleymdi þessari váfrétt. Alveg steingleymdi henni.

Klukkan að ganga fjögur var ég tilbúinn til heimferðar. Ég fór beint á Sólvelli því að eftir þær frosthörkur sem hér hafa verið vildi ég sjá hversu vel byggingar á Sólvöllum og vatnsinntak hefðu staðið sig. Ég hef reynt að gæta ýtrustu varfærni og gera allt vel úr garði og nú sá ég að ég gat fengið staðfest hversu vel mér hefði tekist til. Ég nálgaðist Sólvelli í 25 stiga frosti og einhvern veginn fann ég á mér að ég mundi fá það staðfest að allt væri í allra besta standi.

Loksins stóð ég inn á gólfi, kveikti ljós og skimaði í kringum mig. Síðan gekk ég að vatnsinntakinu og skrúfaði frá vatninu og síðan frá heita krananum yfir baðhandlauginni. Vatnið streymdi glatt úr krananum og á nokkrum sekúndum var farið að renna heitt vatn. Því næst opnaði ég og lokaði öllum hurðum, gerði sama með gluggana og hvergi sat neitt fast eða straukst utan í. Þar með var ég alsæll. Engar undirstöður höfðu hreyfst í mestu frosthörkum í langan tíma, og vatnið rann, meira að segja heitt. Ég er búinn að grafa með skóflu, járnkalli og haka, liggja á maganum á jörðinni til að ná lengra niður í holurnar, við Valdís felldum efnivið út í skógi í hörku frosti, ég er búinn að skakklappast drag haltur upp á þaki, Rósa og Pétur eru búin að koma og hjálpa mikið og svo gæti ég haldið áfram. Sólvellir voru ekki byggðir af ríkidæmi, heldur af áhuga og ósérhlífni. Nú fann ég fyrir ósegjanlegri sigurgleði þó að frostið héldi áfram að halda náttúrunni í sínum járngreipum utan dyra.

Svo hringdi ég heim og sagði Valdísi frá því hvað allt væri í góðu lagi og við ræddum það um stund. Stuttu síðar sagði hún að það væri mikil óánægja með ákvörðun forsetans. Helvíti! Þar með hrundi heimurinn fyrir mér og skapþunginn leysti gleðina af. Ég sem var búinn að gleyma þessu. Á leiðinni heim hugleiddi ég að segja upp íslenska ríkisborgararéttinum, svo heitt var mér í hamsi.

Ég skil ekki hvernig fólk fær sig til að trúa því að það sé hægt að gefa skít í þessar skuldir og segja að fáeinir áhættuseggir séu ábyrgir fyrir öllu saman. Ég skil ekki hvernig fólk heldur að það verði hægt að lifa í sátt við alþjóðasamfélagið á þann hátt. Það eru ekki fáeinir áhættuseggir ábyrgir. Allir sem kusu yfir sig síðustu ríkisstjórnir í lýðræðislegum kosningum eru ábyrgir. Stjórnvöld skulu ábyrgjast að það fyrirfinnist virkt fjármálaeftirlit og virkur seðlabanki. Stjórnvöldin sem fólk kaus yfir sig í átján ár annaðist þetta ekki. Þessi stjórnvöld fengu þar að auki einkavæðingabrjálæði og seldu vinum bankana á tonnbóluverði. Þessir kjósendur eru auðvitað samsekir.

En það eru aðrir sem eru enn sekari. Það eru allir sem skrifuðu undir áskorunina til forsetans að samþykkja ekki. Þeir eru svo sekir að þeir ættu að líta í spegil og athuga hvort ekki sé kominn svartur blettur undir tunguna. Að láta sér detta þetta í hug er ofar mínum skilningi. Nú kannski vill einhver meina að það sé einfalt fyrir einhvern sem er í útlöndum að segja þetta. Sannleikurinn er bara sá að við Valdís þurfum að blæða alveg jafn miklu í uppgjörið og þeir íslendingar sem búa á Íslandi og það er ekkert við það að athuga. En að skrifa  undir þessa áskorun til forsetans að synja, er sjálfsagt fyrir marga leiðin til að berja á ríkjandi stjórnvöldum. Og kosti þá það sem kosta vill fyrir alla landsmenn.

Íslendingar börðust hart fyrir landhelginni og báru sigur úr bítum. Þá börðust menn fyrir heiðarlegum málsstað. En Íslendingum mun aldrei takast að sigra þegar þeir berjast fyrir óheiðarlegum málsstað eins og hér um ræðir. Í Svíþjóð veit fólk ekki svo nákvæmlega hvernig þessu viðvíkur. Ef sænskir einstaklingar og sveitarfélög hefðu tapað jafn miklu fé og bretar og hollendingar, þá fengju svíar að vita mikið meira um málið og þá mundi álit svía á íslendingum detta niður í ruslflokk.

Eftir að ég kom heim í kvöld tók ég nokkrar mínútur til að skoða nöfn á undirskriftalista með áskorun til forseta um að hafna lögunum og undirskriftalista til forseta um að segja af sér, þá er þar að finna sömu nöfn á báðum listum. Hvað er á ferðinni?

Það er mikið búið að tala um að við eigum ekki að borga skuldir sem áhættuseggirnir stofnuðu til. Ég er búinn að hlusta allt of mikið á íslenska sjónvarðið í kvöld, en þar er allt fullt af því að auðvitað eigum við að borga. Urðu menn allt í einu svona skíthræddir að allir eru nú vitlausir í að borga? Bara ef það er borgað öðru vísi en lýðræðislega kjörin stjórn hefur samið um.


Kommentarer
Rósa

Já, það virðast vera margir asnar og fífl sem aldrei hafa verið í París...



Kveðja,



R

2010-01-06 @ 14:20:54
Valgerður

Það er ekki verið að segja upp skuldinni né neita að borga heldur skilmnálunum sem Hollendingar og Bretar hafa sett okkur. Það má ekki miskilja þetta svo harkalega.

Kv

Valgerður

2010-01-06 @ 14:59:37


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0