Heiðarbóndinn

Það er athyglisvert hvernig hugurinn getur hvarflað og hin ýmsu, löngu liðnu atvik geta komið upp í hugann við ólíklegustu tilfelli. Ég var áðan að henda tölvupósti sem að mestu var óttalegt rusl en sumt las ég þó til að vera viss um hvort ég vildi henda því eða eiga. Svo stóð ég mig allt í einu að því að ég sat hér, horfði út um gluggann og var í anda á bernskuslóðunum þegar ég var ný orðinn ellefu ára.

Bærinn Blómsturvellir stendur um einn kílómeter norðan við bæinn Kálfafell þar sem ég er fæddur og uppalinn. Þessi bær stendur þétt við brekkuræturnar að háu fjalli, Blómsturvallafjalli, og hann stendur hærra en aðrir bæir í nágrenninu. Öll hús á þessum bæ voru á þessum árum hlaðin úr torfi og grjóti en mörg meö viðarþili á framgöflum. Frá Blómsturvöllum sér ekki til næstu bæja þar sem næstu bæir standa lægra og undir lágum fjallsbrúnum sem bera á milli. Þetta segir jú að Blómsturvellir er eiginlegur heiðarbær. Á þessum tíma sem ég er að tala um bjuggu þrjú fullorðin systkini á Blómsturvöllum með mömmu sinni, tvær systur og bróðirinn Guðjón.

Nefni ég þá aftur árið sem ég var ellefu ára. Þá varð alvarlegur atburður í sveitinni og þar sem það var sími heima á Kálfafelli komu skilaboð til pabba um að hringja eftir aðstoð. Áður en pabbi sneri sér að því bað hann mig að hlaupa til Guðjóns á Blómsturvöllum og biðja hann að koma til aðstoðar á jeppanum sínum, en það var þá eini bíllinn í sveitinni. Á Blómsturvöllum var enginn sími. Ég fann mig hafa mikla ábyrgð og ég yrði nú að vera fljótur í ferðum og lagði hlaupandi á brattann móti Blómsturvöllum. Þegar ég kom þangað sögðu systurnar mér að Guðjón væri að gefa í fjárhúsunum sem eru um einn kílómeter austan við bæinn. Það var ekki um annað ræða en halda hlaupunum áfram og nú fannst mér sem mér lægi ennþá meira á. Þegar ég kom að fjárhúsunum hafði Guðjón orðið var við mig og kom fram í fjárhúsdyrnar um leið og mig bar að. Ég ætlaði að stynja upp erindinu en var það  ómögulegt með öllu svo móður sem ég var orðinn.

Þarna kom heiðarbóndinn mér algerlega á óvart. Hann lagði handleggin yfir herðar mér og sagði róandi: Sestu nú hérna við húsgaflinn nafni minn og segðu mér svo hvað þér liggur svo á hjarta þegar þú hefur hvílt þig svolítið. Það var einhver stallur þarna við húsgaflinn sem hægt var að sitja á og þar lét ég mig mig falla niður. Þrátt fyrir ástandið sem ég var í þarna varð ég bæði undrandi yfir hinum yfirvegðuðu, hárréttu viðbrögðum nafna míns og afar þakklátur. Ég held ég geti fullyrt að mér hafi á þessu augnabliki þótt mjög vænt um heiðarbóndann.

Ég var góður til hlaupa á þessum árum og á skömmum tíma náði ég mér svo að ég gat sagt Guðjóni hvers kyns var. Síðan gengum við rösklega heim að Blómsturvöllum, hann tók jeppann og við ókum vegleysu yfir heiðina í átt að Kálfafelli. Þessi maður hefur alla tíð eftir þetta átt fulla virðingu mína og mikið þakklæti fyrir móttökurnar, bæði meðan hann lifði og eftir að hann dó.


Hann Birkir frændi minn á Selfossi tók þessa mynd af Blomsturvallafjallinu, þeim hlutanum sem ekki er hulinn þoku, og gaf mér leyfi til að nota hana. Lengst til vinstri má greina bæinn á Blómsturvöllum ef myndin er stækkuð. Ég held að Birkir hafi verið ofan við austanverð Smágilin í Kálfafellsheiðinni þegar hann tók myndina. Ef ekki, þá leiðréttir þú mig Birkir. Í Kálfafellsheiðinni segi ég, og það segir að þetta hlýtur að vera heiðarbær. Blómsturvellir er nú sumarbústaður. Þetta er í raun alveg meiri háttar fallegt bæjasrstæði og sérstakt, en kannski ekki nein bújörð. Það hefði ekki verið slæmt að eignast þennan heiðarbæ þegar Guðjón hætti þar búskap.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0