Aftur til Uppsala

Um miðnætti í gærkvöldi eftir vel heppnaðan vinnudag í Vornesi var ég með eyrað á koddanum. Ég heyrði smellina frá flugeldum í nágrannabyggðum en fór ekki einu sinni út í glugga. Ég þarf að sofa mikið og nú var svefninn mér mikilvægari. Fimmtán mínútur fyrir sex í morgun fór ég svo með rétta fótinn fram yfir rúmstokkinn og svo allur ég á eftir. Svo var að opna sjö hurðir hingað og þangað og bjóða góðan daginn þeim sem voru komnir á stjá. Svo byrjaði starfsfólkið að tínast að um sjö leytið. Hún Lena kom í eldhúsið og stuttu síðar kom hann Ingemar, gamall fallhlífahermaður og friðargæslusveitarmaður á Kýpur. Hann þurfti ekki að koma alveg svona snemma en honum þykir gaman að koma í tíma og fá sér kaffibolla með einhverjum, í þessu tilfelli mér. Við erum báðir löglegir sænskir ellilífeyrisþegar en ómissandi í Vornesi -teljum við sjálfir. Hann er ári yngri en ég og hann er lúmskt ríkur af hnitnum tilsvörum. Því næst komu tvær konur til vinnu og eftir það var þessi nýársdagur äi Vornesi fullmannaður.

Eftir tvo morgunfundi og tvöfaldan morgunverð gekk ég með pjönkur mína út að bíl og hreinsaði af honum snjó og lagði síðan af stað til Uppsala. Ég valdi leið sem á góðum sumardegi er með eindæmum falleg. Það var líka heppilegasta leiðin. Ég hafði sjaldan farið þessa leið enda nýtt fyrir mig að fara til Uppsala frá Vornesi. Þegar ég segi með eindæmum falleg leið á ég í fyrsta lagi við þann hluta leiðarinnar sem liggur frá bæ sem heitir Strengnes (Strängnäs) og þvert norður yfir vatnið Mälaren eftir eyjum brúm og hólmum, um 20 kílómetra leið. Mälaren er jú að mestu álar og sund þó að vatnið sé það þriðja stærsta í Svíþjóð og þar er mikið af skógi vöxnum eyjum og hólmum.

Auðvitað er maður mitt inni í skógi á stórum hluta þessara leiðar allrar. Það skaðar mig ekki því að skógurinn er vinur minn. Fyrir mér er skógur bæði útsýni og lifandi landslag, land klætt lífi. Nakið landslag er líka fallegt svo að af ber svo sem víða er á Íslandi. Svoleiðis landslag er gott og gaman að heimsækja og skoða en mér líður betur að búa í lifandi landslaginu. Myndavélin lá í farþegasætinu en það var svolítið erfitt að taka myndir þar sem ég helst vildi þar sem það var gjarnan af brúm og þeir sem á eftir koma eru ekki svo hrifnir af því að sá sem ekur bílnum á undan sé að drolla við myndatöku þegar fólk er á leið í heimsóknir á nýársdag.


Ég stoppaði í skógi og tók þessa mynd til baka af leiðinni sem ég var búinn að aka.


Svo tók ég þessa fram fyrir mig og einhver mundi kanski segja að hér sæi maður ekki trén fyrir skóginum eða ekki skóginn fyrir trjánum. En svo skrýtinn sem ég er þá finnst mér þetta skemmtilegt. Sjáum svo næstu mynd.


Þessi er tekin af mjög hárri brú sem er kölluð Strengnesbrúin (Strängnäsbron). Þar má ekki stoppa og ef einhver hefði komið á eftir mér og verið á lélegum dekkjum hefði hann kannski ekki komist lengra hefði hann þurft að stoppa. Ég fylgdist með í bakspeglinum og var tilbúinn að rífa mig af stað. Þara sjáum við út á ísi lagðan Mälaren og myndin er tekin fáeinum kílómetrum frá myndunum mitt í skóginum. Að sumri til er þetta ótrúlega fallegt.


Hér sjáum við annað sund í Mälaren tekið af lágri brú. Sinulitaði gróðurinn er hávaxin stör sem heitir vass. Næsta sumar veit ég að ég fer þessa leið til að njóta þess á allt annan hátt. Ég hef einu sinni farið þetta að sumri til svo ég muni og það var 1996 þegar ég var búinn að fara með Pál bróður og Guðrúnu mágkonu mína á Arlanda. Þá fór ég leiðina í Vornes en ekki frá Vornesi eins og núna.

Upp í Uppsala beið mín fólk og hún Þórlaug sem stundum kemur með innlegg á bloggið mitt sagði í innleggi í gær að hann dóttursonur minn mundi brosa þegar ég kæmi. Er mögulegt að þórlaug hafi haft rétt? Jú, hún hafði rétt, hann brosti varlega um leið og hann sá mig. En lítum á næstu mynd.


Stuttu eftir að ég kom skellihló hann. Og það er ekki bara það að hann hlægi. Við öll sem vorum viðstödd hlógum með og allir voru glaðir. Ég var kominn á leiðarenda.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0