Veður og heilsa

Heldur dvínaði frostharkan í morgun og bara að það hlýnaði um átta gráður gerði regin mun. Ég gat ekki betur séð og heyrt en fuglar væru glaðari en dagana á undan en kannski var það bara ég sem gladdist yfir góðum degi. Ég yfirgaf vini mína, alkana í Vornesi, strax eftir hádegi eftir sólarhrings samveru en lét þá vita að við mundum hittast aftur um hádegi á miðvikudag. Tók ég jafnframt fram að það yrði erfitt fyrir þau að losna við mig því að það væri erfitt að losna við mig þegar ég væri búinn að koma inn klónum á annað borð.

Eftir að ég yfirgaf hvínandi hálan afleggjarann heim að Vornesi og kom út á fjölfarnari vegi var færið hið ákjósanlegasta. Ég var hræddur um að verða syfjaður á leiðinni heim og það er hættulegt. Það er ekki bara að maður geti misst ökuskírteinið ef maður sofnar undir sýri og lendir í óhappi, sagt er að þreyttur maður sé álíka hættulegur undir stýri og fullur maður. Maður getur líka að sjálfsögðu bundið enda á líf sitt ef þetta á sér stað. Ég geri ráð fyrir að sama mat sé lagt á þetta á Íslandi. Ég slapp um tvo þriðju hluta leiðarinnar en þá fann ég fyrir augnalokum á niðurleið. Óli lokbrá var kominn. Þá setti ég útvarpið á og jafnskjótt kom músikstefið sem alltaf kemur á undan viðvörunum vegna ástands á vegum. Þar var tilkynnt að skammt framundan væru tveir elgir nálægt veginum og ökumenn voru beðnir að gæta varúðar. En spennandi og syfjan hvarf. Ég hef ekki séð elg mjög lengi og fannst þetta hið skemmtilegasta mál, og að nú skyldi ég sjá tvo. Svo kom ég á þennan stað en þar voru engir elgir. Svona er þetta. Elgir eru yfirleitt styggir og þessir voru greinilega komnir langt í burtu. En hvað um það. Ég varð af með syfjuna og komst heilu og höldnu heim til Valdísar.

Fríða systir hringdi áðan. Hún spurði mig hvort heilsan væri ekki allt önnur eftir að ég fékk nýja mjaðmaliðinn. Alveg rétt. Ég hef ekki gefið skýrslu um þetta lengi. Jú, heilsan er allt önnur en ég verð að viðurkenna að ég er farinn að gleyma því hvað ég var orðinn lélegur. Sannleikurinn er sá að ég hálf hleyp upp og niður stiga, er snar í snúningum í vinnunni, þarf ekki að stoppa til að rétta úr mér með 15 km millibili þegar ég ek bíl, get setið eins og maður í stól og sef sex til sjö tíma í einni lotu. Klósettferððirnar á nóttunni heyra sögunni til. Já, það er mikil breyting á, rosalega mikil breyting. Maður sem ég hitti í síðustu viku og ég hafði ekki hitt síðan fyrir aðgerð sagði að það væri aldeilis munur að sjá mig núna. Hann sagði að ég væri hættur að "hökta áfram með staf í hendi". Það má segja að ég varð albata eftir aðgerðina meðan ég var í Uppsala um jólin. Þar upplifði ég lokastigið í batanum á gönguferðum á bökkum Fyrisárinnar með Rósu og Hannesi Guðjóni.

Ég ætlaði bara að gefa smá veðurskýrslu en datt út í allt aðra sálma. Við Valdís skruppum í búð um fjögur leytið og á meðan kólnaði verulega aftur. Núna er klukkan að verða níu og frostið er 19 stig. Veðurfræðingur sagði í útvarpi í dag að þetta kuldakast væri ekkert miðað við veturinn 1966. Ég skildi það þannig að frostið væri ekkert minna núna, en þá stóð frostakaflinn bara svo rosalega lengi og allt Eystrasaltið lagðist undir ís. Þetta var þriðja árið okkar í Hrísey og þá voru ísaár fyrir Norðurlandi.


Kommentarer
Rósa

Já, það er kalt. Ég notaði húfu OG hettu þegar ég og Hannes Guðjón fórum út í gönguferð, þó svo að það væri bara mínus 10. En okkur fannst gott að koma heim. Það gott að við stengleymdum að fara að skoða húsið. En það var líklegast of lítið fyrir okkur hvort sem er. Og það var svo kalt í dag að ég keypti tvenna vettling af henni Fanney. Þá líst mér vel á. Þeir eru svipaðir vettlingunum sem hún gaf Hannesi Guðjóni í jólagjöf (http://epla.no/shops/ongolongo/).



Kveðja,



R

2010-01-10 @ 22:11:33
Guðjón

Mér þykir vænt um að heyra að Fanney gerir góða vetlinga fyrir ykkur Hannes og ég þekki það að það er gott að koma heim eftir gönguferð í svona veðri, jafn vel þó að maður sé vel klæddur.



Kveðja,



pabbi

2010-01-11 @ 22:50:51
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0