Í Uppsala á ný

Það var ekki leiðinlegt að koma til Uppsala eftir þriggja vikna fjarveru. Hann Hannes Guðjón tók okkur með brosi og það fyllti væntingar okkar vonum framar. Hann kannaðist við okkur. Hins vegar fórum við ekki saman út að glugganum til að fylgjast með öndunum á ánni. Við Valdís vorum heldur seinna á ferðinni en til stóð og það var komið kvöld hjá honum skömmu síðar. Svo er líka Fyrisáin ísi lögð bakka á milli og bara smá auður flekkur neðan við Íslandsbrúna og Íslandsfossinn. Það verður engin mynd birt af honum nafna mínum núna. Það voru jú teknar tvær myndir af honum en á þeim myndum er hann fatalaus niður að mitti og svoleiðis myndir birtum við ekki af honum fyrr en hann leifir það sjálfur.

Það er snjór yfir allri Svíþjóð en þó ekki jafn fallegt og það var um jólaleytið. Trén eru ekki hrímhvít lengur þó að það sé mikill snjór í þeim. Á leiðinni hingað stoppuðum við að venju í Staðarskála. Meðan Rósa og Pétur áttu heima í Stokkhólmi voru næstum 100 km eftir af ferðinni þegar komið var í Staðarskála. Núna eftir að þau fluttu til Uppsala eru bara um 60 km eftir þegar komið er í Staðarskála, en það er erfitt fyrir okkur að venja okkur af því að stoppa þar og innbyrða smá hressingu.

Nú má kannski spyrja sig hvað maðurinn sé að rugla með því að tala um Staðarskála. Staðurinn heitir jú Hummelsta en við byrjuðum mjög snemma á Svíþjóðarárum okkar að kalla þennan stað Staðarskála. Áður var sjálfsagt að stoppa í Staðarskála bæði á norður- og suðurleið og hér varð það álíka sjálfsagt að stoppa í Hummelsta.

Sumarið 1979 á föstudegi vorum við Ottó í Hrísey á norðurleið og stoppuðum í Staðarskála til að fá okkur beykon og egg. Fyrst pantaði ég og sárung stúlka skrifaði niður pöntunina. Svo vék hún sér að Ottó til að taka við hans pöntun. Með skörulegri rödd bað hann líka um beykon og egg og sagði svo: "Og hafðu eggin þrjú, helgin er framundan". Þessi unga stúlka skildi alls ekki brandarann hjá Ottó og sagði hljómlausri röddu að hún skyldi gera það. Svo fékk Ottó þrjú egg með beykoninu og ég tvö. Þið getið nú ímyndað ykkur hvort ekki varð munur á framgöngu okkar Ottós þá helgina. Þó að stúlkan skildi þetta ekki gátum við hlegið að því enda sárungir menn þá. Víst erum við ungir ennþá en bara öðru vísi ungir.

Nú er mál að ég halli mér á koddann eins og hitt fólkið í íbúðinni. Það eru víða ljós í gluggum hér í kring en algjör kyrrð ríkjandi


Þessi mynd er frá því sem kallað er Gamla Uppsala og er nyrst í Uppsala eða eiginlega norðan við. Haugarnir eru víkingahaugar. Á víkingatíð lá land mun lægra hér og var hægt að sigla upp að Gamla Uppsala. Annars á ég ekki að vera að fræða fólk mikið um þennan stað. Ég á eftir að kynna mér svo mikið sjálfur. Myndina fann ég á Google.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0