Búferlaflutningar

Hún Valdís er búin að vinna mörg stórvirki undanfarnar vikur. Hún er búin að ganga í gegnum mikið magn af þeim ósköpum sem við höfum safnað að okkur þau ellefu ár sem við höfum búið í núverandi íbúð í Örebro. Þá á ég við alls konar hluti sem eru dauðir og óviðræðuhæfir og hætt að nota, einnig skó, fatnað af öllu tagi, gardínur, rúmföt, myndir, bækur og fleira og fleira. Hún sorterar í nokkra bingi. Einn fer á haugana og sorteras þar í hina ýmsu gáma, einn fer í Mýrurnar (verslun hjálpræðishersins) og einn bingurinn fer í áframhaldandi varðveislu heima hjá okkur sem innan sex vikna verður á Sólvöllum. Ég hef verið ódrjúgur við þetta enda búinn að vinna mjög mikið það sem af er mánuðinum. Ég kemst af stað í þessu með Valdísi og svo fer ég í vinnu og svo er að komast aftur af stað og fara aftur í vinnu. Ég hef þó farið á haugana, í Mýrurnar og með talsvert á Sólvelli. En ég ítreka aftur að Valdís hefur verið krafturinn í þessu.

Fólk hefur verið að spyrja okkur hvert við flytjum og hvers vegna. Við erum að flytja á Sólvelli. Við erum búin að búa í þessu landi í 16 ár og spjarað okkur vel. Það gerum við áfram. Við erum ekki að flytja í neyð, við erum ekki á flótta en við erum að flytja.

Ef við hefðum búið á sama stað í öll okkar ár, þá er mér ómögulegt að gera mér grein fyrir hvernig það væri í pottinn búið í kringum okkur. Þegar við fluttum frá Hrísey hentum við miklu. Í tvö skipti sem við höfum flutt í Svíþjóð höfum við líka hent miklu en við erum enn með hluti sem við áttum í Hrísey og koma að engu gagni. Þeim hlutum er að fækka grimmilega núna og það er harðfylgi Valdísar að þakka.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0