Bræðralag og fallegar sögur

Fyrir nokkrum vikum var hann Arnold bóndi að grisja í skóginum sínum með keðjusög. Svo sá ég frá Sólvöllum hvar hann sat í litla pallbílnum sínum og virtist vera að borða nestið sitt. Ég rölti til hans og við spjölluðum um daginn og veginn um stund og ég spurði hvað hektari af skógi mundi kosta.

Já, veistu, sagði Arnold. Kirkjan var að selja 43 hektara af skógi sem lá að mínum skógi og mig langaði að gera tilboð. Gallinn var bara sá að hinu meginn við skóginn sem kirkjan ætlaði að selja var líka skógurinn hans Mikka. Ég vissi að hann langaði að bjóða í þar sem aðstaðan hjá honum var nákvæmlega sama og mín. Við ákváðum því að hittast þar sem hvorugur okkar vill að við lendum í leiðindum okkar á milli. (Það er um einn km milli bæjanna) Ég kom því heim til Mikka og við settumst yfir kaffibolla og ræddum þetta. Ég fann strax að Mikka langaði svo gjarnan að kaupa og þegar ég hafði horft á hann um stund, þennan bónda sem er 20 árum yngri en ég, tók ég ákvörðun. Ég sagði honum að bjóða í og ég skyldi ekki verða til þess að sprengja upp verðið á skóginum. Svo bauð Mikki í en eitthvað fyrirtæki bauð langt yfir og Mikki fékk ekki skóginn. Þú veist nú þegar stærðina og svo sagði hann mér upphæðina og að nú gæti ég reiknað sjálfur. En athugaðu bara að þetta er mjög hátt verð, sagði Arnold að lokum.

Ég gat ekki annað en dáðst að þeirri auðmýkt sem þessir nágrannabændur sýndu hvor öðrum til þess að geta lifað í sátt og samlyndi. Það slær gott hjarta í Arnold er ég viss um og stundum segir hann hluti sem ég á ekki von á að heyra hjá 65 ára gömlum bónda. Hann sat eitt sinn inni hjá okkur á Sólvöllum og drakk kaffi. (Það lætur eins og ég hafi bloggað um þetta áður, en hvað um það) Valdís og Arnold ræddu um börnin hans sem eru jú tveir synir á fertugs- og fimmtugs aldri. Sá yngri, Jónas, býr mjög nálægt okkur Valdísi og er hámenntaður maður á tæknisviði. Arnorld talaði um að Jónas hefði eftir háskólanám í Svíþjóð farið til Englands og haldið áfram að mennta sig þar. Síðan fór hann til Þýskalands og lauk þar námi. Já, sagði Arnold, hann er mjög vel menntaður hann Jónas, en hvað um það; hann verður alltaf litli drengurinn.

Í dag skrapp ég á Sólvelli og þaðan fór ég til Kumla sem er í tíu til fimmtán kílómetrqa fjarlægð frá Sólvöllum. Þar ætlaði ég að hitta hana Helenu í bankanum. Þegar ég fór fram hjá póstkassa Arnolds rétt hjá Sólvöllum var hann að sækja póstinn og sonardóttir hans var með honum. Mér fannst ég meiga til með að hitta hann og spjalla svolítið. Hann talaði um þennan mikla kulda sem ég hef bloggað um áður. Þá sagði ég honum að ég hefði heyrt veðurfræðing tala um það í útvarpi í gær að veturinn 1966-67 hefði verið miklum mun verri. Já, það mun nú rétt vera, sagði hann. Þá var frostið oft milli 25 og 30 stig og ég átti þá heima í húsinu þarna á bakvið okkur. Svo ef frostið lækkaði eitthvað fór strax að snjóa. Eitt kvöldið var ég ákveðinn í að fara til Kumla kvöldið eftir. Svo þegar ég vaknaði morguninn eftir hafði hlýnað, frost undir tuttugu stigum, og snjónum hlóð niður og það snjóaði allan daginn.

Rétt í þessu kom kona Arnolds út í dyrnar á núverandi heimili þeirra og kallaði á stúlkuna og sagði henni að hún gæti komið þó að afi kæmi ekki strax. Svo hélt Arnold áfram. Vegir voru þá ekki ruddir jafn hraðann eins og gert er í dag og ég varð áhyggjufullur vegna ferðar minnar til Kumla. Ég var nefnilega á leiðinni þangað til að biðja mér konu. Hún bjó í Kumla en lærði til Hjúkrunarfræðings í Örebro. Ég veitti því athygli að það varð nánast engin svipbreyting á andliti hans þegar hann sagði þetta nema þá kannsi að hann brosti svo mjög lítið bar á. Hann hélt áfram. En svo ákvað ég þó að fara og ákvað að fara á Fólksvagen bjöllu sem við áttum. Bjallan var mjög góð í snjó og var á háum dekkum (51, sem ég vissi ekki hvað þýddi) og ferðin gekk alveg ágætlega þrátt fyrir þennan mikla snjó. Já, það var harður vetur.

Þannig endaði sagan hjá Arnold og mér fannst ég yrði að fá enda á hana þó að ég vissi raunar endirinn. En hvernig gekk erindið Arnold, spurði ég. Jú, það var hún sem kallaði á barnið áðan, sagði hann, og nú birtist ósvikið bors í frostbitnu andliti bóndans. Mér þótti vænt um hann

Falleg saga á ísköldum vetrardegi, saga sem ég átti alls ekki von á. Síðan fór ég til Kumla til að hitta Helenu vegna fjármála okkar Valdísar en ekki til að biðja hennar. Hins vegar sagði ég henni söguna og hún brosti svo undur fallega og sagði; än gulligt.


Kommentarer
Þórlaug

Ég get næstum séð ykkur Arnold fyrir mér í snjónum og heyrt hann rifja upp minningarnar sínar þó ég viti ekkert hvernig hann lítur út.



Bestu kveðjur,



Þórlaug

2010-01-11 @ 23:14:29
Guðjón

Já Þórlaug. Ég átti ekki von á þessu af honum og þó. Honum er alveg eðlilegt að segja hluti sem leika ekki á vörum allra. Hann er einhverju ári yngri en ég en veðurbarðari. Ég hugsaði aðeins um hvort ég ætti að segja frá þessu en fannst það líka allt of fallega sagt til að þegja yfir því. Þetta þrennt sem ég segi um Arnold í blogginu er sagt til að sýna að mannkostir finnast.



Kveðja



Guðjón

2010-01-12 @ 22:52:49
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0