Heiðarleiki

Bengt var vinnufélai minn til margra ára. Hann er mjög vel menntaður hjúkrunarfræðingur, nuddari og hnykkir svo eitthvað sé nefnt. Bengt er um tíu árum yngri en ég og ég hreinlega finn fyrir heiðri yfir að hafa verið honum náinn vinnufélagi. Sama sagði hann um mig og það þótti mér mikils virði. Sem yngri maður vann hann sem héraðshjúkrunarfræðingur langt upp í Norðurlandi. Hann sagði frá því að hann hefði oft setið við dánarbeð eldra fólks þar uppi og honum hefði verið hugsað til þess hvort þar væri að hverfa kynslóð sem hefði alveg frábæra eiginleika. Hann sagði mér að handtak þessa fólks hefði verið mikið öruggara í viðskiptum en vel undirskrifaður víxill niður í mið-Svíþjóð. Þétt handtak með óhvikulu augnaráði var loforð sem ekki var svikið. Svoleiðis var það og annað var ekki þekkt hjá þessu fólki.

Árið 2003 fórum við Valdís niður í Smálönd og völdum að fara til austurstrandarinnar og þar suður á bóginn. Við komum við á stað sem heitir Fyrudden, afskekktur lítill staður á nesi sem gengur út í Eystrasaltið. Frá Fyrudden gengur póstbátur út til all nokkurra eyja sem eru í byggð og sumt af þeirri byggð er sumarbústaðabyggð. Ég var kunnugur kaupmanninum á Fyrudden og eftir að við Valdís höfðum borðað af nesti okkar við borð hjá bílastæðinu gengum við inn í litla verslunina. Ég spurði eftir Lars og ung stúlka sem þarna vann dró tjald til hliðar og sagði inn í litla skrifstofu að það væri kominn maður sem vildi tala við þann sem þar var inni. Fram kom Lars, alvarlegur, gekk hvatlega að mér og heilsaði með handabandi og spurði hvort hann gæti hjálpað til með eitthvað. Svo allt í einu ljómaði hann upp og sagði, nei er ekki íslendingurinn kominn. Hann vildi endilega bjóða upp á eitthvað en við vorum búin að borða. Hann gekk með okkur út að borðinu þar sem við höfðum verið og mig minnir að hann hafi tekið ís með til að bjóða upp á eitthvað.

Kringum lítinn byggðakjarnann þarna vaxa furur, sumar kræklóttar og sumar gamlar, stórar og stæðilegar. Stutt utan við tekur skógi vaxinn skerjagarðurinn við og þarna er mjög fallegt. Lars sagði af högum sínum. Þetta er mjög lítil verslun, sagði hann, og gerir mig ekki ríkan. En það fólk sem ég kynnist hér er slíkt afburða fólk að ég get ekki hugsdað mér að yfirgefa það. Þegar póstbáturinn kemur úr morgunferðinni kemur einhver frá bátnum til mín í verslunina með miða í hendinni. Á þessum miðum er skrifað það sem fólk á hinum ólíku eyjum þarf að fá með næsta bát. Svo stendur nafn undir. Við tínum vörurnar í plastpoka eða pappakassa og setjum miðana á pinna sem eru inni á skrifstofunni hjá mér. Vörurnar fara með næsta bát. Sama fólk á stundum fleiri en einn eða tvo miða hjá mér. Svo á þetta fólk að lokum leið í land og á leiðinni fram hjá búiðini kemur það inn til að borga. Þá tínum við miðana af pinnanum og stimplum inn í kassann og fólkið borgar. Öll þessi ár hef ég ekki verið svikinn um eina einustu krónu.

Ég bý í Norrköping, hélt Lars áfram, eina 50 kílómetra hérna uppfrá, og ég reikna með að ég geti rekið þar verslun með mikið meiri ágóða. En að vera hér innan um þetta heiðarlega, góða fólk gefur lífi mínu mikið meira gildi en meiri peningar upp í Norrköping. Miðaviðskiptin mundu aldrei ganga í Norrköping.

Fyrir nokkrum vikum átti ég tal við 21 árs gamlan mann. Hann var afar dapur. Ég spurði hann hver væri hans æðsti draumur og hálf feiminn svaraði hann: Ég vil verða heiðarlegur og góður maður. Eitthvað hrærðist snöggt innra með mér þegar hann sagði þetta. Það var nefnilega svo að fyrir einum tíu til tólf árum spurði ég 42 ára gamlan mann sömu spurningar og hann svaraði með nákvæmlega sömu orðum og mér fannst sem sama sterka þrá einkenndi tónfallið hjá báðum. Það var sem löngu sögð orð hans bergmáluðu þegar ungi maðurinn svaraði mér. Ég hef spurt marga þessarar sömu spurningar en svör þessara tveggja manna hafa skorið sig úr hvað einlægni varðar og tilfinninguna í rödd þeirra áhrærir.

Eldri maðurinn, sá sem ég talaði við fyrir tíu til tólf árum, var mjög alvarlegur þegar hann svaraði en stuttu seinna sagði hann hlæjandi að hann yrði bara að segja mér eitt. Hann sagði að hann hefði ekki allt sitt líf getað látið sér detta í hug að hann mundi nokkurn tíma hitta svo undarlegan mann eins og mig. Hann kom lengst sunnan úr Evrópu og hafði lifað lífi sem ég þekkti ekki til og hann þekkti alls ekki til þess lífs sem ég hafði lifað. Ég hafði búið með sömu konunni í 40 ár, ég gekk í buxum með broti, var stundum með bindi og það var mikið meira sem var honum algerlega framandi.

Þetta blogg er byrjun á hugleiðingum sem hafa fylgt mér um skeið. Framhalds er að vænta.


Kommentarer
Markku

"Ég vil verða heiðarlegur og góður maður." Man önskar att fler människor kom till den insikten. Måste vara härligt att möta dessa personer, där drömmen uttrycks i värden som inte går att köpa för pengar. Det ÄR verkligen skillnad på att vilja ha och att vilja ge. Intressanta reflektioner du delar med dig av, tack Gudjon.

2010-01-12 @ 21:22:55
Guðjón

Det blir fortsättning om några få dagar Markku. Det verkar finnas behov av att dra fram de positiva värden nu i vår tid. Du fortsätter förvåna mig med din förmåga att förstå isländskan.



Mvh från Guðjón

2010-01-12 @ 22:57:17
URL: http://gudjon.blogg.se/
Dísa

Sagan um Lars er góð áminning ídag og minnir nú svolítið á gamla viðskiptahætti hér í Hrísey

Kveðja til ykkar

2010-01-17 @ 00:21:45
Gudjon

Takk Dísa. Thad var engin tilviljun ad ég notadi thessa frásögn sem lifir traust med mér alla tíd sídan vid vorum hjá Lars. Thad er fallegur, lifandi sannleikur sem liggur í thessari frásögn.



Kvedja,



Gudjon

2010-01-17 @ 11:38:39


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0