Blómsturvellir

Í gær bloggaði ég um sérstaka sendiferð að Blómsturvöllum í Fljótshverfi þegar hann Guðjón bóndi og nafni minn tók mér á þann eftirminnilega hátt sem ég aldrei gleymi, á þann hátt sem hreinlega ekki öllum er lagið. En þetta var ekki eina ferð mín eða systkina minna á þennan afskekkta bæ.

Ég minnist þess að hafa farið þangað í sendiferðir af ýmsu tagi alla vega með Guðnýju systur minni og Snorra bróður mínum. Síðar þegar sími kom að Blómsturvöllum breyttist þetta. En það var ekki slæmt á þessum árum að fara þangað í sendiferðir og nú er ég að tala um tímabilið fyrir svo sem 55 til 60 árum. Guðríður á Blómsturvöllum, móðir systkinanna sem einnig bjuggu þar, var höfðingi heim að sækja. Hún var í fyrsta lagi barngóð og svo veitti hún vel þessum síhlaupandi krökkum sem voru líka í óða önn að stækka. Hún flóaði alltaf mjólk þegar okkur bar að garði, setti í hana svolítinn sykur, og svo bar hún fram dýrindis góðar kökur. Að koma að Blómsturvöllum var veisla á þeim árum sem sælgæti sást aðeins örsjaldan. Svo spjallaði hún við okkur þangað til við vorum orðin södd og héldum heim á leið. Ég þori að fullyrða að það var ekkert vandamál að fá okkur til að fara þangað í sendiferðir.

Ég nefndi í texta með myndinni í gær að bæjarstæðið á Blómsturvöllum væri bæði fallegt og sérstakt. Sá sem vildi vera í næði einhvern tíma úr árinu gæti vart fengið betri stað en þar. Þvílíkur staður sem það mundi vera fyrir íhugun og endurskoðun á lífinu. Umhverfið með hátt, tignarlegt Blómsturvallafjallið að baki, Harðskafann í vestri, tæra Laxána og Kálfafellsheiðina í suðri og austri og þar austur af Rauðabergsheiði og Lómagnúp.

Systkinin á Blómsturvöllum voru fimm. Ein systir bjó á öðrum bæ í sveitinni og einn bróðir flutti suður líklega um 1950 en lengst af voru þau þrjú sem bjuggu þar með móður sinni. Ekkert þessara systkina eignaðist börn og því heyrir það fólk sem ég man eftir á Blómsturvöllum sögunni til.


Til vinstri Harðskafi og til hægri Blómsturvallafjall. Á að giska lengst til hægri á myndinni er Blómsturvallabærinn að baki annarra byggða í Fljósthverfi. Bærinn lengst til vinstri niður á sléttunni er Kálfafell, æskuheimili mitt.




Þessar myndir fékk ég frá Fríðu systur minni og honum Sigurði mági mínum í Reykjavík


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0