Að liðnum tveimur árum

Í dag eru liðin tvö ár frá því að Valdís kvaddi. Það var þess vegna sem ég las í gær nokkur blogg frá síðustu mánuðunum í lífi hennar og vikunum eftir að hún dó og ég komst að því að það var enginn einfaldur lestur. Ég hef alla tíð síðan Valdís dó hugsað út í þetta að biðja og stundum er eins og það sé tilgangslaust, jafnvel eins og það sé að gera sig að kjána. En þetta hafa manneskjurnar gert í þúsundir ára og ég mun líka halda mig við það meðan ég hef vit og getu til. Svo hafa líka margir af vísasta fólkinu gert þó að margir hinna vísu hafi heldur ekki gert það.
 
Í gær las ég meðal annars eftirfarandi línur og ég nota þær aftur hér, línur sem ég skrifaði á aðfangadag 2012:
 
 
 
"Meðan svefnhljóðin voru erfið og ég vakti meðan Valdís svaf runnu margar myndir hjá í óraunveruleika næturinnar. Ég bað mínar bænir en fannst sem þær kæmust ekki til skila. Nótt eina lagði ég allt mitt í að koma sipulagi á hugann og ákvað að nú skyldi leið bænarinnar reynd af auðmjúkri einbeitni sem aldrei fyrr. Ég minntist orða Jesú í Jóhannesarguðspjalli þegar hann talaði einhver síðustu orð sín til lærisveinanna og ég ákvað að nota þessi orð til að komast nær markinu. Ég kveikti á lampanum mínum, teygði hendina ofan í náttborðsskúffuna og tók fram Biblíuna.
 
Ég var fljótur að finna þessi orð: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um, það mun hann veita yður í mínu nafni. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni; biðjið, og þér munuð öðlast."
 
Þetta sagði meistarinn við lærisveina sína fyrir tæpum 2000 árum og hann var líka að segja þau við mig um miðja vornóttina. Ef ég bið skýrt í hans nafni, ákvað ég, þá mun ég verða bænheyrður. Ég reyndi að setja mig inn í 2000 ára gamla atburðinn. Mér fannst næstum sem ég yrði einn af þeim sem þá voru viðstaddir og svo bað ég.
 
Í Jesú nafni bað ég fyrir heilsufari Valdísar. Og ég bað aftur og aftur þessi sömu orð, í mínútur, í stundarfjórðunga, í einhverja hálftíma eða ég veit ekki hversu lengi. Á meðan las ég línurnar með þessum orðum yfir nokkrum sinnum til þess að tapa ekki huganum frá loforði Meistarans. Valdís hagræddi sér allt í einu í rúminu og hljóðin sem ég óttaðist breyttust, urðu léttari, og ég fann hvernig ró færðist yfir mig og óraunveruleiki næturinnar fjarlægðist. Það var virkilega eins og  eitthvað hefði gerst innra með mér og mér fannst ég líka finna það á Valdísi. Næstu tvo til þrjá daga færðist ró yfir huga minn og einhvers konar sátt við ástandið. Ég gat ekki betur fundið en það sama ætti sér stað hjá henni."
 
 
 
En kraftaverkið átti sér ekki stað og Valdís fékk ekki að vera með lengur. En það var þó nokkuð mikið gott sem átti sér stað; sá endir sem hún óttaðist mest varð ekki hlutskipti hennar. Hún fékk hægan endi í framhaldi nætursvefns. Hún fékk líka að kveðja með reisn og hún hringdi í sína allra nánustu síðasta kvöldið og með glaðlegri rödd kvaddi hún okkur og sagði að allt væri nú í lagi. Því sleppi ég ekki bæninni þó að Valdís fengi ekki að lifa. Nokkuð jákvætt fannst þrátt fyrir allt í öllu saman.
 
Valdís hafði gaman af að fá heimsóknir og sýna fólki heimilið sitt og nágrenni, hvort heldur það var uppi í Dölum, í Örebro eða á Sólvöllum. Hún lýsti þegar hún söng ásamt kórnum sínum í útitónleikahöllinni Dalhalla. Hún söng í ein þrjú skipti með gríðar stórum kór í Globen í Stokkhólmi og þá daga byrjuðu æfingar snemma morguns og stóðu fram að sýningu. Þegar við komum á staðinn um kvöldið fyrsta árið, ég Rósa og Pétur, þá beið hún okkar frammi í stórum gangi. Þá var lífið henni svo gott að hún virtist vart snerta gólfið sem hún stóð á, svo létt var að vera til. Þannig reikna ég með að það sé hjá henni í dag, að það sé létt að stíga niður og að jarðneskir erfiðleikar séu að baki.
 
Enn í dag hika ég við að fjarlægja hluti sem tilheyrðu Valdísi þó að þeir hafi ekki tilgang lengur. Árin fimmtíu og þrjú varða aldrei afmáð og í dag lifa ljósustu stundirnar jafnan best þó að það hafi tekið á að lesa bloggin sem ég las í gær. Ég hafði til dæmis skrifað að ég óskaði þess að ég hefði hlustað betur, að ég hefði skilið betur og að ég hefði verið betri maður.
 
Það eru átök að læra það mikilvægasta af lífinu.
 
Valdís mín, þín er minnst í dag af mikilli hlýju. Þakka þér fyrir árin fimmtíu og þrjú og þakka þér fyrir allt sem þú kenndir mér á leið minni til að verða betri maður. Ég vona að mér hafi miðað áleiðis.
 
Það var ekki í gær.


Kommentarer
Svanhvit

Þú ert góður maður Guðjón og Valdís var góð kona. Blessuð sé minning hennar .

Svar: Þakka þér fyrir þín fallegu orð Svanhvít. Kveðja í bæinn.
Gudjon

2015-04-16 @ 09:35:43


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0