Látlausa góða fólkið

Við getum kallað hana Dóru og hún er níutíu og eins árs. Hún er að hluta til lömuð á vinstri hlið og getur alls ekki gengið nema með göngugrind. Susanne er meðal þeirra sem hjálpa henni, er heimaþjónustan hennar. Hún hafði verið þar um átta leytið kvöld eitt fyrir nokkrum vikum og hjálpað henni með það síðasta sem þurfti að gera fyrir hana það kvöldið. Susanne ætlaði að hafa samband við mig þetta kvöld þegar hún kæmi heim um klukkan tíu.
 
Svo dróst lengi að hún hefði samband eða fram til klukkan ellefu. Ég spurði hvað hafði tafið hana og það var einföld og ekki svo óvenjuleg saga að baki því. Hún var stödd hjá öldruðum manni og bjó hann undir nóttina þegar síminn hringdi. Það var Dóra. Hún hafði þurft að komast í skyndi inn á baðherbergið en göngugrindin festist í baðdyrunum í flýtinum og svo skeði það sem alls ekki á að ske. Geturðu komið og hjálpað mér spurði Dóra í örvæntingu. Susanne gat það raunar ekki en hún gerði það. Tíminn hjá manninum, þar sem hún var stödd hjá þegar síminn hringdi, varð styttri og hún kom mun seinna til þess síðast um kvöldið.
 
Tíminn hjá þeim manni varð líka styttri en það sem munaði mestu var að Susanne var mun lengur í vinnunni en vinnuskemað gerði ráð fyrir. Hún kom heim til Dóru og þreif hana, gekk frá fötunum hennar og hjálpaði henni í hrein föt. Þegar það var búið var Dóra mikið þakklát og niðurlægingin og skömmin sem hún hafði upplifað var að byrja að gefa sig. Geturðu ekki hitað okkur kaffi spurði Dóra svo að við getum drukkið kaffibolla saman. Susanne hitaði kaffi og svo fengu þær sér kaffibolla sitjandi sitt hvoru megin við litla matarborðið heima hjá Dóru.
 
Hvernig var að sitja þarna og drekka með henni kaffi eftir það sem þú hafðir gert spurði ég. O, sagði Susanne, hún var svo þakklát og þá varð hún líka svo ótrúlega falleg. Það var bara notalegt.
 
Anton er tuttugu ára sjúkraliði og er vinnufélagi Susanne og þau eru miklir vinir. Hann hjálpar Dóru líka oft og það sem Dóra segir um hann segir það sem segja þarf. Hún segir að hann sé svo góður og hjálplegur og að hann sé svo skemmtilegur og fallegur strákur. Ef ég væri bara yngri væri ég alveg örugglega skotin í honum. Eiginlega er ég svolítið skotin í honum. Susanne segir líka að Anton sé alveg ótrúlega góður strákur.
 
Í gær var ég í vinnunni minni og hafði það sem við köllum "samtal tvö" með konu um þrítugt. Hana getum við kallað Söndru. Í lokin af þessu samtali bæti ég alltaf við spurningu frá mér sem fólki þykir mjög vænt um að fá, spurningu sem gefur kost á að tala frjálst um sjálfan sig. Og ég spurði Söndru: Hvernig manneskja ert þú? Hún var ekki í neinum vandræðum með að svara þessari spurningu og sagði frá bæði góðu kostunum sem hún býr yfir og einnig því sem hún veit að hún þarf að breyta til hins betra.
 
Mér fannst eitthvað kunnuglegt búa í orðum hennar og ég spurði hvað hún ynni við. "Ja du" svaraði Sandra og það kom fram að hún vann við heimaþjónustu í ákveðnum bæ í Södermanland. Hún sagði að það væri ekkert yndislegra en að hjálpa fólki sem væri hjálpar þurfi, fólki sem hefði púlað allt sitt líf og byggi nú við dvínandi heilsu og krafta. Sandra lýsti upp þegar hún talaði um þetta. Ég verð hrærður þegar ég heyri fólk segja frá svona og það minnir mig á hluti sem ég fékk að heyra frá Valdísi þegar hún vann á heimili fyrir aldraða í Örebro.
 
Það sem ég segi frá núna hef ég sagt áður í bloggi, en það var atvik sem átti sér stað eftir að Valdís hætti að vinna á þessu heimili. Henni var boðið að koma á tónleika sem haldnir voru þar bæði fyrir vistfólk og starfsfólk. Valdís stóð þar meðal starfsfólksins að baki vistfólkinu. Svo fann hún að einhver kom upp að hlið hennar og tók í hönd hennar. Það var maður sem hafði flutt sunnan úr Evrópu til Svíþjóðar og var nú bæði lamaður upp að mitti og gat heldur ekki tjáð sig. Hann hafði rennt hjólastólnum sínum upp að hlið Valdísar og tók þar í hönd hennar og sleppti ekki fyrr en að tónleikunum loknum. Eitthvað var hann þakklátur fyrir og hann vildi sýna það.
 
Ég lá í rúminu mínu í morgun og bað morgunbænina mína. Í morgunbæninni hugsa ég meðal annars til aðstæðnanna sem mannkynið býr við og til þeirra manna sem belgja sig út og halda svo miklu í heljargreipum. Þá datt mér í hug látlausa góða fólkið sem svo lítið er talað um. Alla vega hluti þessara manna sem belgja sig út koma til með að skíta á sig og nota bleyju í tímans rás og væntanlega að æla matnum sínum öðru hvoru. Þá verða þeir hugsanlega þakklátir fyrir að látlausa góða fólkið finnst, alla vega ef þeir eiga eitthvað jákvætt í hugskoti sínu. Alveg er það frábært að látlausa góða fólkið finnst meðal okkar jafnvel þó að það gleymist oft að þakka því fyrir.
 
Þetta skrifaði ég snemma í morgun en vildi ekki birta það fyrr en ég hafði lesið það á sænsku fyrir Susanne og fengið leyfi hennar til að birta það.


Kommentarer
Þórlaug

Fólk sem vinnur þessi störf er svo fórnfúst og gott fólk en er oft ekki metið að verðleikum.
Takk fyrir enn eitt gott blogg.
Bestu kveðjur á Sólvelli, sérstaklega til Brodda :-)
Þórlaug

Svar: Takk fyrir kveðju og umsögn Þórlaug og kveðjur til baka til ykkar frá Sólvallakallinum.
Gudjon

2015-04-15 @ 00:33:54


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0