Myndir frá vorinu og lítilsháttar af vorverkunum

Það er óvenju hlýtt í landinu og hitinn er nálægt því að vera frá 18 gráður og upp í 22 gráður á hverjum degi. Það er líka óvenju þurrt og það brennur í Svíþjóð. Síðustu dagana verður mér oft hugsað til síðastliðins sumars þegar það var eins og það ætlaði aldrei að hætta að brenna. Það var beðið eftir slökkviflugvélunum frá Evrópu sem voru mjög mikið öflugri en stærstu þyrlurnar. Þær komu fyrst til Örebroflugvallar sem var þeirra höfuð aðsetur sem þýddi að þær flygju lágflug yfir sólvelli við komuna. Svo heyrðum við flugvélahljóð sem var öðruvísi en flugvélahljóð sem við könnuðumst við. Ég hljóp út eins og smákrakki og kallaði svo til Susanne; komdu fljótt, komdu fljótt, og svo kom hún fljótt. Svo horfðum við eftir flugvélinni hverfa yfir skóginn og vorum glöð. Þannig gekk það til þrisvar sinnum en við misstum af einni þeirra.
 
En þetta var eiginlega ekki það sem ég ætlaði að tala um, það bara kom. Ég ætlaði aðeins að tala um vorið. Það er mikið að ske og mundi ske ennþá hraðar ef það mundi rigna býst ég við.
 
 
 
 Fyrir fimm dögum leit hestkastanían sunnan við húsið svona út
 
 
Fimm dögum seinna, það er að segja í dag, leit hún svona út. Þetta er kraftmikil fæðing og mjög gaman að fylgjast með. Að fara á hverjum morgni að kastaníunni og sjá hvernig hefur gengið frá kvöldinu áður, það er bara stór gaman.
 
 
 
 
Og hlynurinn vestur við veginn og aðeins sunnan við húsið var svona á sama tíma og fyrri myndin af kastaníunni.
 
 
Í dag, líka fimm dögum seinna, hafði mikið skeð. Það er álíka gaman að fylgjast með vextinum þarna og það kemur fyrir að mér liggur svo mikið á að ég fer á nærbuxunum. Svoleiðis er hægt að gera í sveitinni án þess að nokkur taki eftir því. Ég að sjálfsögðu mundi ekki gera það ef það væri fólk á ferðinni. Ég er vel upp alinn.
 
Það eru mörg fleiri tré að koma í gang en þessi eru þó sýnilegust ennþá, hestkastanían og hlynurinn.
 
 
 
Hér er ég búinn að hreinsa og undirbúa sáningu, eða gróðuretningu. Efst er gott lag af moltunni minni. Ætli það verði ekki pumpa hér eins og í fyrra. Mér hefur ekki tekist vel til með pumpuna í tvö eða þrjú ár en ég get verið þrár og að lokum mun ég fá góða uppskeru.
 
 
 
 
Hér voru laukar í fyrra og laukarnir entust fram yfir áramót, nota ég þó mjög mikið af lauk. Eiginlega finn ég ekki svo mikið bragð af lauk en þegar ég hef lauk í hendinni og er að gera mat, þá bara vil ég hafa mikinnl auk. Ég á eftir að bæta moltunni á þetta beð.
 
Jú, eitt enn um þessa mynd. Þarna næst okkur til hægri eru einhverjir skrýtnir hlutir í moldinni. Þetta eru pappaglös og síðast þegar Hannes var hér á ferð sáði hann eikarfræjum í glösin. Þau eru nú í mold til að halda jafnari raka á þeim. Enn eitt til að hafa gaman af. Ég veit að það er of snemmt en samt gái ég á hverjum degi hvort nokkuð sé komið upp. Þá mun ég láta Hannes vita með það sama.
 
 
 
 
Kartöflulandið, eða kartöfluholan eins og ég segi oft, er á stærð við frekar lítið herbergi, en það dugir vel. Það er líka tilbúið að setja niður hér. Ég hef enga góða geymslu fyrir kartöflur þannig að ég geri ráð fyrir að setja tvisvar sinnum niður með svo sem þriggja vikna millibili. Uppskeran þarna hefur verið afburða góð og mig minnir að stærsta kartaflan hafi verið nei, -ég man það alls ekki, en hún dugði meira en einu sinni í matinn fyrir okkur bæði. Stundum viljum við ekki borða kartöflur en sannleikurinn er að mér verður mikið betra af kartöflum en til dæmis brauði.
 
 
 
 
Og hvað í veröldinni er nú þetta? Jú, ég var að koma inn í gær eftir vinnudag úti. Þegar ég var alveg að koma að útidyrunum heyrði ég mikið þrusk í laufi undir veröndinni. Það lá við að ég hoppaði pínu lítið fyrst en svo áttaði ég mig á því að vinurinn Broddi væri kominn á kreik. Því færði ég honum egg á diski. Ekki veit ég hvort það var Broddi eða einhver fugl sem hagfi hrært í þessu í nótt, en núna er ég búinn að sjóða fisk sem ég býð honum upp á að þessu sinni.
 
Nú fer Susanne að koma heim úr vinnu og þetta passar vel, bloggið er búið. Gangi ykkur allt i haginn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0