Enn eru það vorannir

Nú er best að litast um á Sólvöllum. Það er mikið í gangi. Sumardagurinn fyrsti hefur verið haldinn hátíðlegur á Íslandi en fyrir mér er vor.
 
Það er spurning um að banka upp á þarna og athuga hvort einhver er heima. Fuglahólkur heitir þetta hér í landi og ef maður er eins og fuglahólkur þýðir það að maður er ekki alveg með á nótunum. Þessi fuglahólkur er festur á eikarstofn og þegar við Valdís komum hingað að Sólvöllum var þessi eik kræklótt og illa slitin eftir að hafa verið mitt inn í reyniviðar og greniþykkni. Ég frelsaði hana úr þessari ánauð árið 2004. Til hægri á myndinni sér í aðra eik sem ekki var alveg jafn illa komið fyrir. Samvæmt myndinni virðist hún halla sem hún ekki gerir, það er bara svo margt sem myndasmiður þarf að hugsa út í en tekst ekki alltaf. Þessar eikur eru nú beinar og með fallega krónu eins og svo margar eikur sem ég hef frelsað úr ánauð hér á Sólvöllum og ég er stoltur af þeim þegar ég rölti um og styð hendi á þær. Ég býð upp á mynd af þeim seinna þegar laufhafið hefur umvafið þær. En nú er að banka upp á litla húsið í skógarjaðrinum.
 
Já góðan daginn. Mamma var ein heima. Og þó, það er ekki víst að henni hafi fundist hún vera ein. Alla vega voru eggin henni svo mikils virði að hún yfirgaf þau ekki þó að hún yrði óróleg yfir heimsókn minni. Það er veglegt lag af einangrun sem hún liggur á og skapar væntanlega jafnan hita á verðmætunum sem hún hlúir að.
 
Broddi étur sitt avókadó daglega en samt er hann ekki að sýna sig of mikið fyrir okkur. Ég hef einu sinni séð hann en Susanne hefur oftar orðið hans vör. Það er nokkuð ljóst að hann á sér heimili undir veröndinni og þar gæti hann verið með ungana sína þegar líður á sumarið, ekki fyrr en í ágúst eða svo. En svo er eitt, við vitum ekki hvort það er hann eða hún sem býr undir veröndinni. Pörun broddgalta er löng og áköf, getur tekið fleiri klukkustundir, en þegar ætlunarverkinu er lokið hittast þeir ekki fyrr en að ári. Þeir eru einfarar.
 
Broddgölturinn á myndinni er ekki ekta. Hún María fyrrverandi vinnufélagi minn sá hann á búðarhyllu stuttu eftir að hún sá mynd af Broddabústað mínum í fyrra. Hún keypti hann og gaf mér sem var vingjarnlegt af henni. Nú er hann þarna á veröndinni og ef ég er annars hugar þegar ég kem að honum getur mér brugðið verulega í brún. Ég vil alls ekki stíga á broddgölt og þetta getur fengið mig til að hoppa.
 
Í þessum römmum er mjög góð mold en ræktunin í þeim tókst ekki svo vel í fyrra. Alls konar illgresi var nefnilega búið að taka yfirráðin í þeim og það var ekki til svo mikils að reita það burtu, það var búið að taka völdin aftur innan fárra daga. Því stakk ég þetta upp fyrir hálfum mánuði og svo lagðist ég á hnén fyrir fáeinum dögum með ótrúlega góða vinnuvetlinga sem ég fékk í allt mögulegt búðinni í Fjugesta. Svo byrjaði ég á öðrum endanum í hverju hólfi og færði alla mold til með höndunum, hrærði í henni og plokkaði upp allar rætur og allt sem ég bara fann og benti til byrjunar á gróðri. Það varð heill haugur. Nú finnst mér að ég hafi unnið gott verk.
 
Í tveimur hólfum er hvítlaukur sem varð eftir í fyrra og svo hef ég sáð fyrir dill og gulrótum. Kartöflur eru annars staðar. Ég veit að þetta er ekkert sérstakt en það er þetta sem ég bauka við þessa daganna utan að vinna í skóginum.
 
Hér eru kryddjurtirnar blóðberg, graslaukur, oreganó, steinselja og persilja. Dill hafði ég jú sáð fyrir og ef einhver getur stungið upp á fleiri góðum kryddjurtum tek ég gjarnan við uppástungum.
 
Þvottahúsbekkurinn er með í þessu og þar hef ég sáð fyrir bóndabaunum, grænum baunum, rósakáli, risagraskeri og öðru minna graskeri. Mig vantar ennþá tvær sortir af graskeri sem ég þarf að leita að í dag inn í Marieberg og Örebro.
 
Nú skreppum við út í skóg -eina fimmtíu metra. Árið 2006 þegar við Valdís felldum 13 stór grenitré til að nota í viðbyggingu á Sólvöllum átti ég í miklum samningaviðræðum við sjálfan mig. Eigum við að taka þessi tvö líka eða . . . . ? Þau voru nú stærst og hefðu gefið af sér marga sterka planka en þau uxu líka svo fallega hlið við hlið og þau fengu að lifa. Ég sé ekki eftir því. Þetta eru orðin voldug grenitré og annað þeirra hefur aukið ummál sitt um tæpan hálfan meter á tíu sumrum. Planki sem væri sagaður úr því miðju yrði tæplega fimmtíu sm breiður. Ég stoppa oft hjá þeim og virði þau fyrir mér, neðan frá og upp -og niður aftur. Þannig er það að ef maður grisjar vel í greniskógi eykst vastarhraðinn mjög hjá þeim sem eftir lifa og svo er það jú í öllum skógi. Mörg önnur grenitré sem fengu að lifa eru orðin mikið stærri en þau sem við felldum fyrir tíu sumrum.
 
Bændur velja til ásetnings á haustin þegar þeir líta yfir fjárhópinn sinn og það sama hef ég gert í vor. Svo sem ég hef einbeitt mér að grisjun og umhirðu í skóginum í vor á ég líka von á ávöxtun fyrir þá vinnu. Nú þegar ég horfi yfir tölvuna mína út um gluggan sé ég hvernig sumarið er að taka yfir með grænu laufhafi og öðru lífi. Ég finn fyrir viðkvæmum streng í brjósti mér þegar ég horfi á þetta og skrifa það. Ég verð hrærður. Vorið er guðdómlegt en haustið færir mér trega. Það er gott að skrifa á morgnana.
 
 Vor


Kommentarer
Anonym

Duglegur drengur ertu Guðjón minn.Kveðja.

Svar: Þakka þér hjartanlega fyrir mágkona og kær kveðja til baka.
Gudjon

2017-05-08 @ 15:45:01


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0