Nógur tími

Það er miðvikudagur 11. maí og ég var áðan að taka saman í huganum hvað mér hefur verið efst í huga síðustu dagana og hvað ég hef verið að aðhafast. Það hefur verið alveg óvenju kalt og það er eins og allt hafi staðið í stað síðan fyrir síðustu helgi.
 
Það hljóta að vera átta eða níu ár síðan og það var einmitt í maí. Það voru þrálátir vestan vindar þetta vor og algengasta vindáttin hér er jú úr vestri. Ekkert hvassviðri var það en stöðugur blástur. Þegar maður er orðinn vanur góðu og hæglátu veðri verður maður líka kröfuharðari á það.
 
Ég átti leið til grannanna sunnan við og gekk þvert yfir lóðirnar. Þegar ég kom inn á þeirra lóð breyttist veðrið á nokkrum skrefum, það lygndi og sólarylurinn naut sín. En hvað það var notalegt. Ég stoppaði og velti fyrir mér hvað væri eiginlega á ferðinni. Á vestur lóðamörkum grannanna var þéttur trjágróður í einfaldri röð, aðallega hlynur og eik, sem ekki var hjá okkur. Ég vissi að skógur skýldi en að það væru svona skörp skil og gríðarlega mikill munur, það hafði mér aldrei komið til hugar. Og það var bara einföld röð af trjám. Það var eins og nágrannarnir byggju í öðrum heimi.
 
Við Valdís ræddum um þetta og svo tókum við ákvörðun. Við skyldum koma upp skógi á vestur mörkunum eins og hjá nágrönnunum og við völdum að mestu hlyn úr okkar eigin skógi sem við gróðursettum með tveggja metra millibili. En til að missa ekki fallegasta útsýnið frá sjálfu húsinu settum við sírenurunna vestan við það. Tvö tré keyptum við til að hafa þessa línu aðeins fjölbreytta en þau urðu aldrei falleg. Í fyrrasumar ákvað ég að skipta þeim út móti hlyn úr skóginum.
 
Ég var svolítið óþolinmóður þannig að ég valdi tré sem voru fimm og hálfur metri annað en hitt sex og hálfur metri. Þetta var auðvitað alveg kolvitlaus ákvörðun að velja svo stór tré og bauð upp á að misheppnast. Við þennan flutning hafði ég bara stunguspaða og hjólbörur. Ég beið vorsins núna með spenningi til að sjá hvort trén hefðu lifað af flutninginn og veturinn.
 
Það mætti kannski kalla þessa mynd fæðingu, en hún er af lífinu sem er að kvikna á stærra trénu, því sem var sex og hálfur meter. Svona lítur laufgun hlynsins út þegar hún er að opnast. Síðar verða blöðin á stærð við undirskál eða brauðdisk. Á haustin er mikið verk að annast laufin sem mynda þykkt lag umhverfis þessi tré en stundum hef ég látið veturinn annast verkið að miklu leyti og þá hafa síðvetrarvindar úr vestri blásið því inn í skóginn þar sem það hefur orðið að næringu á ný.
 
Hér sjáum við aftur á mótu fæðingu hjá hestkastaníu. Hestkastaníubtöðin skoða ég á hverjum degi því að breytingin er svo ör.
 
 
Ég stikaði mikið og spekúleraði áður en kastaníunni var valin staður, ég giska á fyrir níu árum síðan. Síðan var tekin óvænt ákvörðun um að lengja húsið í átt að henni og eftir nokkur ár fara greinar að teygja sig ansi nálægt því þar sem hestkastanían vex upp undir hálfan meter á ári, hingað til alla vega. Þegar ég skrifa þetta minnist ég þess vel af hversu mikilli alúð ég gekk frá þessu tré sem þá var upp undir mannhæðar hátt og stóra holu gróf ég fyrir því sem og mörgum öðrum trjám og runnum á Sólvöllum. Á hverju ári lít ég á nálægðina við húsið en svo slæ ég því á frest. Hvað gert verður verður leyst í framtíðinni.
 
Þannig litaði kvöldsólin fyrir nokkrum kvöldum síðan. Það var fallegt kvöld þó að það væri kalt. Myndin minnir mig á að það er ekki allt tilbúið á Sólvöllum. Ég á eftir að loka grunninum undir litla húsið. Það er auðvelt að verða blindur fyrir svona atriðum en þessu atriði tek ég eftir nánast daglega.
 
Dögunum fjölgar þar sem mér þykir sem ég hafi allan tíma sem finnst í veröldinni. Ég er orðinn ellilífeyrisþegi í fullu starfi en síðasta ár var hins vegar mikið vinnuár. Ég þarf að vera vakandi fyrir því að láta letina ekki taka yfir líf mitt að fullu. Á sunnudaginn var sat ég í stofusófanum og fann hvernig letin dró mig neðar og neðar í sófann. Ég fann að ég þurfti að drekka vatn en ég nennti ekki að reisa mig upp til að fá mér vatn að drekka. Þá gerði ég mér grein fyrir því að ég var orðinn allt of latur í sófanum í það skiptið.
 
Kemurðu með til Kumla? spurði þá Susanne allt í einu. Hún ætlaði þangað í stórinnkaupaferð. Þá reif ég mig upp, drakk þrjú glös af vatni og svo fórum við til Kumla. Letin hvarf af mér og ferðin var góð og ég hefði skammast mín fyrir ef ég hefði ekki farið því að það var mikið að bera. Hún gerði nefnilega stórinnkaup.
 
Lífið í sveitinni er gott en ekki kyrrstætt. Alltaf þegar ég hef lokið einhverju lít ég vel yfir og gleðst yfir að vera virkur. Þess vegna má letin aldrei yfirvinna mig í stofusófanum enda skeður það ekki oft.
 
Að lokum um hlynina við vestri lóðarmörkin. Eftir að þeir voru gróðursettir í upphafi gerði tvo mjög kalda og vetur og með þungum snjóalögum. Þá voru dádýrin og hérarnir svöng og átu börkinn af helmingi þeirra. Sagan um hlynina var því ekki alveg áfallalaus en nú eru þeir búnir að fá svo þykkan börk að hérarnir vilja hann ekki, jafnvel þó að harðnaði í ári.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0