Vorannir

Það var þannig hér í eina tíð að ég gat ekki þagað yfir neinu sem ég var að gera eða eða því sem skeði í kringum mig. Nú hef ég setið á mér lengi, svo lengi að seinni partinn í dag fékk ég fyrirspurn um það hvort tölvan mín væri í óstandi. En svo skrýtið var það að seinni partinn í dag var ég búinn að ákveða að láta heyra frá mér í kvöld, síðan var ég spurður eftir þessu með tölvuna. En nú er það svo að ég er orðinn ellilífeyrisþegi í fullu starfi og þá gefur það auga leið að ég hef ekki mikinn tíma aflögu fyrir tölvuna. (brandari)
 
Það var mánudaginn 1. maí sem við borðuðum fyrsta morgunverðinn úti þetta árið. Í tilefni dagsins var enginn hafragrautur, heldur mannagrjónagrautur með kanel út á en enginn sykur. Þetta sést líka í skálinni hjá mér. Það var svo sem ekki sérlega hlýtt þennan morgun og það er þess vegna sem ég er svolítið fínn í tauinu.
 
Í fyrradag, þann 2. maí setti ég niður svolítið af kartöflum. Ég þarf að setja meira niður en vonast jafnvel til að fá aðstoðarmann í það frá Stokkhólmi. Hann er duglegur við kartöflusáninguna, lætur spírurnar snúa upp og hefur jafn langt á milli. Það líkar afa vel. Sama dag sló ég svo lóðina í fyrsta skipti á árinu.
 
Ellilífeyrisþegi í fullu starfi sagði ég og þá lét ég gamlan draum rætast og fór út í skóg með keðjusögina og felldi yfir þrjátíu tré. Þetta var grisjun sem ég hafði skipulagt býsna vel en þegar upp var staðið hafði ég fellt um það bil helmingi fleiri tré en ég ætlaði mér. Þegar ég var á annað borð byrjaður ákvað ég að gleyma því að það er mikil vinna að taka höndum um svo mörg tré því að þetta að fella tré er bara byrjunin á mikilli vinnu. Ég er búinn að hreinsa greinar af öllum trjánum og ganga frá þeim á snyrtilegan hátt. Á myndinni eru tveir reyniviðir þar sem annar var helmingi stærri en hinn. Þessir reyniviðir höfðu ótrúlega margar greinar sem ég þurfti að annast en svo var því snyrtilega lokið og þá var ég ánægður og sneri mér að næsta tré. Þessa reyniviði hef ég ætlað mér að fella í mörg ár. Þeir áttu ekki heima þar sem þeir voru og þeir skemmdu önnur og fallegri tré. Nú liggja stofnarnir þrjátíu út í skógi og bíða þess að ég flytji þá heim. Áður en ég geri það þarf ég að ljúka mörgum og mikilvægum verkefnum.
 
En það voru ekki bara tré sem ég þurfti að grisja. Mörg hundruð plöntur og smátré þurfti ég líka að fjarlægja og það var mikið meiri vinna en að taka trén. Þar er ég liðlega hálfnaður sýnist mér. Þeir einstaklingar sem eftir eru fá meiri birtu og hafa minni samkeppni um næringuna og koma til með að vaxa betur. Krónurnar verða þá fallegri þegar haustar. Sjáið stellingarnar. Svona getur Skaftfellingur litið út þegar hann vinnur í skógi i Svíþjóð.
 
Vorkoman var seinni nú en mörg undanfarin ár en samt er hún tveimur vikum fyrr á ferðinni en var í meðal ári fyrir hundrað árum síðan. Heggirnir voru fyrstir til að laufgast og eru þegar farnir að setja vorsvip á skóginn.
 
Í hitteðfyrra gróf ég fyrir einum fimmtán berjarunnum af ýmsu tagi og svo ætlaði ég ekki að grafa fyrir fleyri runnum þar sem ég ætlaði að hafa það náðugt á eftirmiðdegi lífs míns. En hérna um daginn komst ég að því að ég mætti til með að vera með rósaberjarunna þar sem berin af þeim væru svo holl. Svo keypti ég runnann og þá komst ég ekki undan með að grafa fyrir honum. Það gerði ég svo í dag.
 
Ég bað Susanne að taka mynd af mér þegar ég var að verða búinn að grafa þessa holu. Grobb. Ég kveið svolítið fyrir þessum grefti. Hola sem er einn metri í þvermál og hálfur á dýpt tekur í þegar jarðvegurinn er samanbarinn og mikið af grjóti og járnkallinn er með í för. Að lokum liggja svo milli þrjú og fjögurhundruð kíló af uppgrefti á bakkanum. Ég er afskaplega ánægður með að geta gert þetta, jafnvel svolítið montinn. Bakvið mig eru berjarunnar sem ég gróðursetti í fyrra í holurnar sem ég gróf árið þar á undan. Þar eru berjarunnar sem hér kallast aronia, bláberjarunnar og stikilsber.
 
Meðan ég baukaði við mitt í dag fór Susanne í Marieberg og keypti sumarblóm sem hún síðan gróðursetti í marga potta og hér er mynd af þremur þeirra. Meðan ég skrifa þetta situr hún við heimanám sem lýkur um miðjan júní. Hún tók mynd af mér en ég ekki af henni. Ég bæti fyrir það seinna.
 
Hér lýkur skýrslugerð frá Sólvöllum í Krekklingesókn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0