Lífið sem gjöf

Ég er að bíða eftir að hárið þorni eftir sturtu kvöldsins og á meðan fer ég inn á Google til að forvitnast um mann að nafni Carl-Adolf Murray. Hann fæddist árið 1912 og var prestur. Á gamlársdag var sýnd heimildarmynd um hann og hún mun hafa verið tekin þegar hann var 97 og 98 ára gamall. Þá hafði hann verið ellilífeyrisþegi í 35 ár. Myndin gerði mig ennþá forvitnari um manninn og ég horfði á endursýningu hennar aftur í dag. Á Google fann ég filmubút frá 100 ára afmælinu hans sem hefur þá verið þann 25. september sl. Víst hafði hann eldst á þeim tveimur árum frá því lokið var við heimildarmyndina.
 
Í heimildarmyndinni er reynt að sýna hvernig hans daglega líf leit út. Hann fór á elliheimili og allir urðu glaðir þegar hann kom, hann sagði sögur og hnytna brandara en kunni sér hóf. Hann kom á fermingarbarnamót og allir hlustuðu á gamla prestinn. Hann kom á ýmsar samkomur og á einni þeirra hitti hann konu sem var í einhverju forsvari og hún sagðist hafa verið á fermingarbarnamóti hjá honum 1949. Hann horfði á hana og sagði svo að hann þekkti hana. Hann sagði sögur frá 1926 og 1939 og margar fleiri sögur. Eftir að heyra samtal við konuna sem sá um upptöku heimildarmyndarinnar treysti ég því að hún sé virkilega sönn.
 
Þegar hann var spurður í 100 ára afmælinu hvort að hann hefði átt von á svona mörgum varð honum að orði: Nei, það vissi ég ekki. Ég var heppnastur að hitta konuna mína. Hún var mér svo mikil hjálp í lífinu. Hann gerði sér alveg grein fyrir því sem hann sagði þó að hún væri þá dáin fyrir löngu. Hann vildi bara láta þetta koma fram.
 
En var það nokkuð sem hann vildi hafa gert öðru vísi? Jú, sagði hann, þúsund hlutir. Lífið er eins og gjöf sagði hann og heimildarmyndin heitir Lífið sem gjöf. Ég á eftir að finna eitthvað meira um þennan gleðigjafa sem hann virðist hafa verið og entist honum fram til 100 ára aldurs. Eitthvað vil ég læra af þeim skatti.
 
Nú er hárið orðið þurrt.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0