Að brúa milli heimsálfa

Veturinn hafði verið nágranni okkar æði lengi og sýndi sig í ýmsum myndum, mörgum býsna fallegum, og einna fallegastur var hann að baki húsinu.
 
Valdís sat með handavinnuna sína við gluggann móti skóginum þar sem veturinn hélt skrautsýningar sínar. Stundum var hljótt í bænum og stundum minna hljótt. Svo hringdi síminn. Rósa hringdi til að láta vita að hún og Hannes Guðjón ætluðu að koma í heimsókn, ekki á morgun og ekki hinn, heldur hinn. Mig minnir að einhvern veginn svona hafi að minnsta kosti ég reiknað dagana fram að einhverju mikilvægu hér áður fyrr. Til dæmis jólunum í gamla daga með angandi eplakassa sem kom með útkeyrslubílnum og svo góðum mat, góðum mat jafnvel dag eftir dag. Eða afmælinu mínu með jólaköku og rjómatertu. Núna töldum við dagana fram að kærkominni heimsókn þegar það yrði líflegt í bænum og alls ekki hljótt öllum stundum.
 
Svo voru Rósa og Hannes komin og það var margt haft á prjónunum. Hannes talaði mikið um brýr og það var nú það minnsta að fara út í það að byggja brýr. Mikilvægar brýr, alveg á milli heimsálfa og ólíkra kynþátta þar sem við þurftum að koma á friði milli ólíkra hópa sem slógust um gæði heimsins. Við sópuðum ósemju og spillingu til hliðar og Hannes sneri baki mót ósómanum sem við vorum ákveðnir í að útrýma, en nú snerum okkur að skipulagningu þessara stóru verkefna.
 
Svo hófst ferðin og Hannes var kominn af stað með kranabílinn sinn sem honum þótti vissara að hafa meðferðis ef það þyrfti að lyfta fleiri hindrunum úr vegi og setja yfir í ónytjuhauginn mikla sem við ætluðum að eyða síðar. Hann var þegar kominn með kranabílinn yfir fyrstu heimshafsbrúna og þá kom hann til baka til að athuga hvernig afa gengi með vörubílinn með öllum nauðsynjunum sem við þurftum að hafa með okkur á mikilvægustu ferð okkar um hin víðáttumiklu lönd. Og nú má segja frá hvað á að verða um stóra ónytjuhauginn sem er bæði af hinu illa og til mikils ama fyrir augað sem auðvitað á að leita eftir eftir því besta og fallegasta sem finnst í þessum heimi. Við nefnilega ætlum að taka þennan haug þegar allt er komið í hann og elda hann upp til að kynda hýbýli allra þeirra sem er kalt. Þá verður heimurinn nefnilega betri.
 
Að lokum fundum við Hannes að við þyrftum að hvíla okkur og líta inn til fólksins okkar áður en ferðinni yrði haldið áfram. Þá fórum við inn til mömmu og ömmu. Það væri alveg eins víst að þær væru búnar að útbúa eitthvað gott fyrir menn sem unnu að því að gera heiminn betri. Svo var komið kvöld og nótt og að morgni fór afi í vinnuna.
 
 Já, þannig var nú það. Einvhern veginn er það svo að það eru ekki til svo margar myndir af Hannesi með henni mömmu sinni í myndasafninu okkar. Því var ég búinn að biðja um að Valdís tæki mynd af þeim þegar vel stæði á meðan ég væri í vinnunni. Þetta er árangurinn af því. Að vísu er myndin tekin á síma þar sem myndavélin okkar var eitthvað kvefuð. Þanig var það líka með myndirnar af heimshafsbrúnum fyrir ofan. Það virðist mikið gaman á þessari mynd. Hannes er duglegur við að leika sér og þar er hann ekki í neinum vandræðum með hugmyndaflugið.
 
Þegar hann vissi að heimferðin til Stokkhólms nálgaðist varð hann ekki beinlínis samvinnuþýður. Hann vildi alls ekki fara heim. Það olli blendnum tilfinningum hjá okkur afa og ömmu. Síðan fréttum við að hann hefði fljótt orðið ánægður í lestinni og að hann hefði líka orðið alveg himinlifandi þegar hann sá pabba sinn á járnbrautarstöðínni í Stokkhólmi. Hann á eftir að koma fleiri ferðir í heimsókn, enda eigum við nafni minn mikið óunnið við að bæta heiminn.
 
Þessi brottföt vakti upp gamlar minningar, eins og til dæmis þessa 18 mánaða gömlu mynd þar sem við erum báðir uppteknir við mikilvæga uppbyggingu á Sólvöllum.
 
Eða þessi mynd þegar amma og Hannes horfa á eitthvað mikilvægt í sjónvarpi heima hjá honum í Stokkhólmi.
 
Á morgun verður ekkert tipplandi fótatak hjá okkur þegar við vöknum til nýs dags. En okkur vantar ekki verkefni til að snúa okkur að og minningarnar verða með okkur næstu dagana, og vissulega alla daga. Svo er spáð hlýju veðri í eina tvo til fjóra daga. Svo á að kólna aftur og það verður væntanlega síðasta kuldatímabil vetrarins. Það eru góðir tímar skammt undan handan við hornið.


Kommentarer
Björkin.

Mikið skil ég Hannes Guðjón vel að vilja vera í sveitinni í rólegh.og dunda sér með ykkur.Knús í hús.

2013-01-27 @ 23:04:15


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0