Að taka framförum og gera það einfalt

Ég var í verslun um daginn og borgaði með korti sem ég mundi ekki leyninúmerið á og reyni heldur ekki að muna. Ég rétti afgreiðslukonunni ökuskýrteinið mitt og sagðist ekki reyna að muna leyninúmerin á öllum kortunum mínum. Ég giskaði á eftir útlitinu að hún væri frá Tyrklandi. Ég hef bara eitt kort sagði hún hógvær og það er svo auðvelt að muna leyninúmerið á einu korti. Já, ég svaraði að ég væri að byggja og ætti bíl og ég fengi afslátt á ólík kort í ólíkum verslunum og bensínstöðvum. Já, ég á engan bíl og er ekki að byggja sagði hún og það gerir lífið mun einfaldara. Hún var eins og ég sagði hógvær, og kurteis var hún, og þetta voru bara viðræður okkar á milli en alls ekki gagnrýni frá henni. Þegar ég skundaði frá versluninni gat ég ekki annað en velt fyrir mér hvort ég gerði mér lífið ekki óþarflega flókið. Ég taldi svo vera þó að ég stefni alltaf að hinu gagnstæða.
 
Í fyrradag var ég að taka til úti á Bjargi þar sem það voru verkaskil og kominn tími til að losna við eitt og annað sem var geymt þar inni. Kubbahrúgan á myndinni eru dreggjarnar af síðustu plönkunum sem urðu til í ársbyrjun 2006 þegar við Valdís skunduðum út í skóg í hörku frosti, klædd okkar bestu kuldafötum og ég með keðjusög í hendinni. Svo felldum við í nokkrum svona ferðum þrettán tré sem við notuðum í fyrri útbygginguna hér á Sólvöllum eftir að hann Mats hafði sagað það niður fyrir okkur. Fáeinir plankar urðu svo snúnir við þurrkun að það var ekki hægt að byggja úr þeim, en þeir voru góðir sem braut fyrir hjólbörur, góðir í vinnupalla, til að leggja í bleytu og drullu og ganga á þegar svo stóð á. Í haust sprautaði ég á þá vatni og skrúbbaði einhverja þeirra og setti inn til þurrkunar. Þarna er ég að brytja þá í eldinn og ég sagaði þá með handsög.
 
Utan við Bjarg er vélsög sem er vel breytt yfir. Ég hefði getað dregið rafmagnskapal út að söginni og sagað þetta þar en hefði þá að sjálfsögðu fengið mikinn skít í sagarblaðið og bitið í því hefði þá væntanlega versnað. Ég ákvað sem sagt að saga í höndunum og ég fann líka að mig langaði til að gera það. Það gaf mér góðan tíma til hugleiðinga og það var mun hljóðlegra. Mér leið mjög vel meðan ég var að saga plankana niður í eldiviðarlengdir, ég velti fyrir mér lífinu eins og það snýr við okkur í dag, ég hugsaði út í orð tyrknesku konunnar um að gera það einfalt og mér fannst þar sem ég sagaði að ég væri að gera það einfalt. Ég fór ekki fljótlegustu leiðina en ég valdi leið þar sem ég naut vinnunnar sem ég var að framkvæma.
 
*
 
Í morgun fórum við Valdís til Fjugesta þar sem Valdís þurfti að láta taka blóðprufu. Svo fórum við inn til Örebro. Þar ætluðum við að byrja á því að kaupa ákveðna gerð af plastkössum í IKEA sem Valdís sorterar niður í og svo set ég þá upp á loftið á Bjargi. Nákvæmlega þessir kassar voru ekki til en margar aðrar sortir. Við vildum heldur bíða en fara að blanda samal ólíkum sortum. Næst fórum við í kaffi í stóra verslunarhúsnæðinu í Marieberg þar sem er að finna yfir hundrað verslanir. Við horfðum vandlega yfir kökurnar og að lokum völdum við innanblauta súkkulaðiköku, kladdköku. Svo settist Valdís. Meðan fremur kuldaleg og fjarræn ung kona setti á brauðdiskana og spurði hvað við vildum drekka, þá velti ég fyrir mér hvort henni leiddist þessi vinna eða kannski þótti henni ég bara vera svo hundgamall.
 
 Viltu þeyttan rjóma? spurði hún. Já, endilega. Svo setti hún rjóma við hliðina á kladdkökunum og tók svo bauk með fljótandi súkkulaði og bjó til fínar súkkulaðirendur þversum yfir allt saman. Ég fann mig knúinn til að segja; en hvað þetta verður fínt! Þá ljómaði upp andlit hennar og hún varð svona gullfalleg þegar hún sagði með eftirvæntingu í röddinni; "finnst þér það"? Það kostaði ekki mikið að fá þarna nokkur fín augnablik og minni fyrir daginn. Eftir góða stund yfir kaffinu og kökunum fórum við í kaupfélagið og keyptum til heimilisins.
 
*
 
 
Eftir heimkomuna og léttan hádegisverð og svolítið droll að auki, þá fór ég út á Bjarg til að smíða. Valdís var lúin og lagði sig. Mig vantaði 28 búta eins og þá sem eru þarna upp í loftinu milli langbandana út við vegginn. Ég minntist notalega tímans sem fór í að saga niður plankana í gær og ákvað að saga þessa 28 búta í höndunum líka, mjúkt efni og snyrtilegt. Svo gerði ég og átti aftur notalega stund þar sem ég naut vinnunnar sem ég var að framkvæma án þess að hlaupa og hamast. Ég velti fyrir mér nokkurs konar minningargrein eftir ungan mann þar sem ég las um smið nokkurn í mínu barndómshéraði. Ég vissi vel hver hann var og man vel hvernig hann bar sig að því sem hann fékkst við.
 
Í minningargreininni var sagt frá því að hann gaf sér alltaf tíma til að víkja sér að þeim sem komu eða gengu hjá, eiga við þá orðastað og taka ögn í nefið um leið. Hann hafði sinn hátt á að njóta lífsins við það sem hann vann að. Iðnaðarmenn sem hafa hjálpað okkur hér á Sólvöllum hafa ekki látið eftir sér að stoppa og taka í nefið með þeim sem ganga hjá. Þeir hafa unnið af hraða sem mér hefur stundum fundist nóg um, en ég hef svo sem verið ósköp feginn þegar ég hef borgað nóturnar. Þessir iðnaðarmenn nútímans bera mikið meira úr bítum en smiðurinn á Síðu gerði fyrir áratugum, en hann hafði, trúi ég, meiri frið í hjarta sínu.
 
Það er búinn að vera góður dagur í dag hjá okkur Sólvallahjónum þó að Valdís hafi kannski ekki verið alveg stálhress í morgun. Það jafnaði sig mikið þegar leið á daginn. Hún hefur núna verið að horfa á spurningaþátt í sjónvarpi og ég ímynda mér að hún bíði nú þess að ég komi fram til hennar. Hún er þolinmóð. Hún beið eftir mér í 30 ár. Mig minnir að ég hafi sem barn lesið eða heyrt ævintýri þar sem prinsessa eða einhver önnur ung kona hafið beðið eftir prinsinum sínum mjög, mjög lengi. Valdís beið öðru vísi. Hún beið í 30 ár eftir því að ég hætti að drekka brennivín. Við vorum ekki orðin tvítug þegar hún grét í fyrsta skipti vegna þess að ég var fyllri en aðrir. Nú er ég ófullur, hef ró í hjarta mínu og get notið þess að saga í höndunum 28 spýtur sem allar eru 23 sm að lengd.
 
Ég reyni að gera það einfalt og hef það sem verkefni í lífinu að ná árangri í þeirri list.


Kommentarer
Björkin.

Gott blogg elsku mágur.Knús á ykkur og sofið vel.

2013-01-11 @ 22:41:46


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0